Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 117
TMM 2008 · 1 117
B ó k m e n n t i r
snúa sér beint að efninu heldur örugglega á ská“ (bls. 82–83); aðferðir frú
Knorr virðast þveröfugar í samanburði. Gróflega má því skipta sögunni í þrjú
tímabil: tímabil danskra áhrifa, þvínæst þýskra og loks enskra.
Hryllileg saga er háðsk bók og groddaleg, mikið er gert úr almennum neð-
anþindarhúmor og óhátíðleg smáatriði í atferli persóna fá nær alltaf að fljóta
með, sama hvort það er að stunda kynlíf eða að stanga úr tönnunum. Jafnvel
myndu sumir eflaust vilja tala um vanhelgunarnautn í þessu sambandi, gleði
helgimyndabrjótsins, ánægjuna af að lýsa sorahliðum þess ímyndaða/sögulega
heims sem hér er dreginn upp. Tilvera Reykvíkinganna í bókinni er innantóm
og þeir hafa um fátt að tala annað en slúður, t.d. um áðurnefnda frú Knorr.
Nesjamennskan og plebbaskapurinn virðast reyndar ráðandi eðlisþættir í
Íslendingum sögunnar sem hópi, og sem betur fer, því eins og segir á síðu 21:
„Ekki væri líft í landi þar sem saman fer mikilfenglegt landslag og stórbrotin
þjóð“!
Borgarastétt er fyrir hendi í samfélagi sögunnar og fulltrúar hennar eru
helst Kristín Ólafsdóttir, eiginmaður hennar, Ólafur Kristinsson sem rekur
skóverslun, og Jóhanna systir Kristínar. Sagan verður í og með fjölskyldusaga
þeirra. Vægi kvenpersóna í bókinni er mun meira en karlanna; nokkur áhersla
er lögð á tilfinningalíf systranna Kristínar og Jóhönnu, auk umfjöllunar um
frú Fiole, frú Knorr, systurnar og piparmeyjarnar Guggu og Möggu sem eru
stofustúlkur í húsi frú Knorr (áður húsi frú Fiole), fylgjandi húsinu eins og
mubblurnar, og hinar fáránlega skírðu kerlingar Lurru, Purru og Nonnu. Pers-
ónugallerí bókarinnar er litskrúðugt; í flæði textans er horft á ólíkar persónur,
flakkað á milli þeirra og þeim fylgt um mislangt skeið til að sýna ólíka fleti
samfélagsins; einstaklingar eru notaðir til að endurspegla fjöldann. Lesendur
fá til dæmis að sjá hinn útskúfaða Ólaf Rósinkrans, sem enginn vill þekkja eftir
að hann lenti í persónulegum hremmingum, hinn menntaða séra Magnús sem
reynir að flytja inn svolitla heimsmenningu en má sín lítils gagnvart plebba-
skap samborgara sinna, skáldkonuna Elínborghildi sem ákallar anda til að
stýra penna sínum, og skáldið Einarr Einarr (!) sem hangir á kaffihúsum og er
„dæmigerður íslenskur sóði“ (232).
Enda þótt mörgum kynni að þykja þessi skáldsaga meinfýsin, og finnast sem
höfundur sé hér að gera atlögu að íslenskri sjálfsmynd af eintómum kvikind-
isskap, þá er mikilvægt að hafa í huga að Guðbergur er djúphugull og marg-
ræður höfundur sem ástundar sína estetík. Líkt og Birna Bjarnadóttir hefur
rætt í doktorsritgerð sinni um fagurfræði í skáldskap Guðbergs þá er það rót-
tæk fagurfræði sem á ferli hans hefur oft fallið í grýttan jarðveg, meðal annars
vegna þess að ekki er hefð fyrir henni á Íslandi. Þetta er fagurfræði sem er
spyrjandi og leitandi, jafnvel nokkurs konar veiði, skapandi leit, könnun á fag-
urfræðilegum mörkum tilverunnar, og skáldsagan er leitartæki fyrir lesendur
jafnt sem höfund. Þetta er líka einstaklingsbundin og siðfræðileg fagurfræði, í
þeim skilningi að höfundurinn stjórnast af fagurfræðilegri samvisku við list-
rænt endurmat sitt á lífinu og tilverunni án þess að skeyta um samfélagsábyrgð
verka sinna, en krafan um slíka ábyrgð er lífseig, að minnsta kosti hér á landi.