Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 27
TMM 2008 · 1 27
Þ o r p i ð á b o t n i va t n s i n s
borðin og fiskimennirnir klipu í litlu mjaðmirnar hennar og rass-
inn og hlógu að henni. Þegar nóttin kom lagðist hún þreytt innan
um kústa og tuskur í bælið sitt í ljótu kompunni sinni og svaf fram
á morgun þar til vinnan hófst aftur.
Þrátt fyrir allt þetta var lífið hennar Öldu ekki alslæmt. Sveitin
hennar hafði breyst mikið en efstu tindar fjallanna voru alltaf jafn
ljómandi í sólarupprásinni og hún þekkti ennþá blómin og trén og
fuglana, og fallegu minningarnar hennar lifðu áfram. Pabbi Öldu
hafði verið skeifugerðarmaður og þúsundþjalasmiður og mamma
hennar saumakona, og þegar Alda átti sérstaklega bágt og saknaði
þeirra skaust hún stundum úr vinnunni, án þess að tekið væri
eftir, og laumaðist niður að ströndinni. Sjórinn var risastór og
þegar hún horfði út yfir glampandi flæmi sjávarins varð hún
sorgmædd en fannst líka eins og fjölskyldan hennar og allt sem
hún hafði elskað væri ennþá hjá henni.
Og tíminn leið. Alda æfði sig í að róa bátum meðfram strönd-
inni, varð sér úti um margs konar upplýsingar hjá fiskimönnunum
og lærði að sigla eftir stjörnunum. Eitt kvöldið, eftir að vinnunni
hennar lauk og allir fiskimennirnir voru sofnaðir ofan í bælin sín,
læddist hún niður að bryggju, settist upp í árabát og leysti festar.
Hún sigldi alein út á dimmt hafið og vissi ekki hvort hún kæmi
aftur.
Þegar morgnaði kom hún að staðnum þar sem hún vissi að
gamla þorpið hennar væri. Hún lét sig reka, lagðist fram í stefnið
og horfði ofan í vatnið. Sólin glampaði á rennisléttu vatninu. Alda
sá ekkert nema andlitið á sjálfri sér speglast kringlótt og eftirvænt-
ingarfullt í vatninu, en þegar sólin skreið hærra á himininn fór
smám saman að móta fyrir dökkum þústum á botninum og svo
birtust þau hvert af öðru, húsin í þorpinu. Alda hrópaði upp yfir
sig: Halló öll sömul! Halló mamma og pabbi! Ég er komin aftur!
Þorpið á botni vatnsins ljómaði; marglitir fiskar syntu í torfum
um göturnar og milli húsanna og Alda hélt hún myndi springa af
kæti og teygði hendurnar til hliðanna, þá var eins og hún flygi yfir
litla þorpinu eins og fuglarnir gerðu einu sinni.
Og ævintýrum dagsins var hvergi nærri lokið. Það næsta sem
Alda kom auga á var svolítil þúst sem stóð upp úr vatninu skammt
frá henni og þangað reri hún. Er þetta þak? hugsaði hún, og kom