Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 58
58 TMM 2008 · 1
Kristín Guðmundardóttir
Svona er blessuð ástin
Orðtak Þ.Þ.
Í júnímánuði árið 1946 sendi Kristín Guðmundardóttir Sigurði Nordal próf-
essor handrit að löngu bréfi sem Þórbergur Þórðarson góðvinur hennar hafði
skrifað ástkonu sinni Sólu árið 1918 og hafði orðið innlyksa hjá henni, eins og
hún segir í meðfylgjandi bréfi. Með bréfunum sendir hún „ágrip af þessari ást-
arsögu“ sem hún hafði sjálf skrifað eftir minni. Þetta ástarsöguágrip hafa þeir
báðir notað í merkum bókum sínum, Halldór Guðmundsson í Skáldalífi (2006)
og Pétur Gunnarsson í ÞÞ í fátækralandinu (2007), en frásögn Kristínar hefur
sinn eigin stíl sem best nýtur sín ef hún er lesin í heilu lagi. Hún fylgir hér á eftir,
óstytt, og er fyrirsögn hennar sú sama og hér fyrir ofan. Stafsetning og grein-
armerkjasetning er færð til nútímahorfs.
Kristín (1893–1976) var kölluð „Kristín í Hollywood“ af því hún rak hár-
greiðslustofu með því nafni. Hún var eiginkona Hallbjörns Halldórssonar rit-
stjóra með meiru, afar vinsæl og vel látin kona í hópi rithöfunda og annarra
menningarlegra Reykvíkinga. Sonur þeirra hjóna, Eiður sem nefndur er í bréfinu,
dó sextán ára.
Veturinn 1917–18 bjó Þórbergur Þórðarson með Tryggva nokkrum
Jónssyni. Um föt Tryggva hirti þá kona að nafni Guðbjörg Einarsdóttir,
og bjó hún við Vatnsstíg. Tvær dætur hennar voru hjá henni, og mun sú
eldri, Sólrún, þá hafa verið um sautján ára, hún var mjög snotur stúlka.
Hin hét Salóme og var nokkuð stálpuð. Báðar voru þær systur Jónsdæt-
ur, og þó ekki samfeðra. Hafði hinn síðari Jón farið frá Guðbjörgu og
börnunum, sem hún varð ein að annast eftir það. Má geta nærri að hún
hefur ekki átt náðuga daga eða áhyggjulausa. Heyrði ég sagt að í þessu
stríði hefði hún frelsast í söfnuð aðventista, og þangað hafði hún Sól-
rúnu með sér. Og eins og gerist með trúskiptinga voru þær ákaflega
brennandi í andanum, sérstaklega Guðbjörg.
Þegar Tryggvi var farinn að kynnast þeim mæðgum hafði hann
Þórberg eitt sinn með sér til þeirra. Í orði kveðnu var það til þess að ræða
við þær um trúmál, því Tryggvi þóttist varla geta reist rönd við ákafa