Fréttatíminn - 22.10.2016, Síða 16
16 | FRÉTTATÍMINN | Laugardagur 22. október 2016
Ævisagan í fimm hlutum
Eins manns
drasl er
annars gull
Á heimili Önnu Ringsted eiga nánast allir
munir sér mikla og merkilega sögu. Anna, sem
rak um árabil antíkverslunina Fríðu frænku, er
samt ekki lengi að velja þá hluti sem tengjast
mismunandi köflum lífsins hvað sterkustum
böndum.
Halla Harðardóttir
halla@frettatiminn.is
Ferðasaga bláu
kaffikönnunnar
„Mamma gaf mér þessa kaffikönnu þegar ég flutti
til Reykjavíkur og byrjaði að búa,“ segir Anna sem
er fædd og uppalin á Akureyri. „Á þeim tíma voru
gamlir hlutir að komast í tísku svo ég fór að gramsa í
geymslunni hennar og fann þessa könnu. Svo þegar
ég hætti að safna bláum hlutum fór kannan inn í
geymslu og var þar alveg þar til mamma flutti til Sval-
barðseyrar. Þá eignaðist mamma skáp sem hana lang-
aði að skreyta með gömlum munum svo ég bauðst til
að lána henni bláu kaffikönnuna, en bara í láni. Svo
þegar hún flutti í heldri manna blokk skilaði hún mér
könnunni sem er aftur komin til mín. Ég helli ekki
upp á í henni en hún er komin með sinn sess á heimil-
inu og mér þykir afskaplega vænt um hana.“
Ferðaskúlptúr
„Mágkona mín, Brynhildur Þorgeirsdóttir skúlptúristi, ákvað fyrir
nokkrum árum, eftir að hafa verið með sýningu í Nýlistasafninu, að búa
til ferðaskúlptúra. Verkin á sýningunni voru steypt eða úr gleri og ekk-
ert sérstaklega meðfærileg, þung og ekki auðveld í flutningum. Svo hún
gerði nokkur svona verk með hjörum svo hægt væri að leggja þau saman.
Þennan skúlptúr legg ég bara saman og flyt eins og ekkert sé. Ég er ég
búin að eiga hann lengi og þykir voðalega vænt um hann.“
Drasl verður gull
„Einu sinni leigði ég í gömlu húsi við Njáls-
götuna. Þar á háaloftinu var stútfullt af
gömlu dóti sem eigandi hússins átti en
enginn var að nota, en mig klæjaði auðvit-
að í puttana að komast yfir dótið. Svo kom
upp mölur í húsinu þannig að það þurfti
að úða allt svo ég bauðst til að kaupa dótið
en það var engin áhugi á því. En svo þegar
ég kom heim úr vinnunni einn daginn voru
ruslatunnurnar stútfullar af þessu dóti. Ég
bara trompaðist og var alla nóttina að gramsa
í tunnunum og tína inn dót. Þetta dót kom sér
mjög vel fyrir mig því ég var nýbúin að opna Fríðu
frænku við Ingólfsstræti og var mjög blönk. En ég
geymdi þessa einu mynd, draumkennda mynd
af konu sem spilar á gítar og horfir út á haf. Hún
minnir á það að eins manns drasl er annars gull.“
Með demanta í vasanum
„Það kom oft til mín kona niður í búð. Þetta
var eldri kona af ríkum ættum sem hafði
munað sinn fífil fegurri og var farin að borða
dótið sitt, þ.e selja undan sér allskyns muni.
Einn daginn kemur hún með hálsfesti sem
lætur lítið yfir sér en hún segir hana hafa
verið smíðaða úr 58 demöntum og hvíta-
gulli í New York árið 1942. Hún vildi
fá dálítið mikið fyrir hana en ég
trúði þessu ekki alveg en sagðist
munu skoða þetta og setti
hana í vasann. Svo sagði
gullsmiðurinn mér að
jú, þetta væru 58
demantar en öðruvísi
slípaðir en gengur og
gerist í dag. Ég ákvað
að kaupa festina en var svo
feimin við hana að ég gekk
alltaf með hana í vasanum til að
byrja með. En ég nota hana í dag og
hún er alveg guðdómlega falleg.“
Ást í ramma
„Þegar ég byrjaði að
kyssa manninn minn,
sem er núna dáinn, þá
ákváðum við að fara
í þriggja mánaða
ferðalag. Við lent-
um í Lúxemborg og
vorum nýkomin
inn á hótel þegar
Sveinn segist þurfa
að skreppa aðeins
út. Svo kemur hann
til baka með þenn-
an plastramma, hann
var dálítið fyrir svona
„kitsch“, með passa-
mynd af sjálfum sér í.
Mér þykir að sjálfsögðu
mjög vænt um þennan
ramma sem fyrir mér er
algjör dýrgripur. Þetta
var svo rómantískt og
skemmtilegt.“
Verslanir á Laugavegi 182 og í Smáralind
iMac
21” verð frá: 199.990
Verð áður frá: 229.990
27” verð frá: 319.990
Verð áður frá: 349.990
Lægra gengi =
betra verð
Allt að 15% lækkun