Lystræninginn - 01.04.1978, Blaðsíða 7

Lystræninginn - 01.04.1978, Blaðsíða 7
► Jæja vinur minn, þetta var nú sagan af Gunnari á Hlíðarenda. Ert þú búinn með myndina? Er þetta hún? Eg sé Gunnar hvergi. Hvar er Gunnar? Þarna, bendir drengurinn og snýr myndinni betur við frænku sinni. Og mikið rétt, fyrir miðri mynd ríður Gunnar Hámundarson skjóttu og stefnir til hægri. A herðum ber hann rauða skikkju og sveipast hún yflr lendar hestsins. Gunnar er greinilega snúinn við, því hann veifar kúrekahattinum glaðlega tii Kolskeggs, sem flengríður út úr myndinni vinstra megin. Gunnar ber framhlaðninginn. Lítið eitt hægra megin við Gunnar er fjall og undir því flokkur manna. Vopn hafa þeir fagur- lega skreytt. Hver þeirra hefur á höfðu Qaður- skraut mikið, en þó mest, sá þeirra er fremst stendur. Eru þar komnir þeir Mörður Valgarðsson og félagar. Líta þeir til Gunnars og eru ófrýnilegir að sjá, með margiitar rákir málaðar í andlit og á búk. Lengst til hægri sér heim að Hlíðarenda. A hlaðinu gnæfir stór flaggstöng. Við hana stendur Hallgerður, smáfríð kona í gulum samkvæmiskjól og er að draga íslenska fánann að hún. Fyrir aftan Hallgerði er bærinn, þríburstaður, þekjan vel græn en á framhlið er ritað skýrum stöfum, með svörtu: SALOON. Logn er og heiðskírt. V Margar hamingjustundir lifði ég í bernsku og unaðsljóma hennar varðveiti ég enn með sjálfum mér. Helgasti staður hjartans geymir minninguna um það sem gerðist, einn undurbjartan sunnudag, vorið sem ég varð sjö ára. Hópur saklausra barna stóð undir vorbláum himni, úti fyrir kvikmyndahúsinu, beið þess að hinar voldugu dyr opnuðust og náðarsólin frá Hollywood geislaði fram í sýningarsalinn. Þarna í hópnum var ég og sumir minna ástkæru vina. Meðan við biðum gerðist undrið. Sem aðrar vitranir kom þessi á óvart; tveim gráum pallbílum var skyndilega ekið hjá. Og þarna sátu þeir, útlendingarnir, ígrænumjökkum, hermennirnir og brostu, hetjurnar og veifuðu. Veifuðu til okkar. Það var þá satt. Tilvera þeirra var vís og þeir voru hér. Hér meðal okkar. Eg hafði heyrt, að stundum ættu þeir til, að varpa sælgæti til barna og að önnur börn hefðu heimsótt þá og jafnvel séð vopnin. Við fengum ekkert sælgæti, sáum engin vopn, engan riffil, enga hríðskotabyssu, ekkert áþreif- anlegt stríðstákn. En almættið hafði vissulega sýnt sig. Það var ekki bíó, það var ekki draumur. Við höfðum séð þá. Við vorum bænheyrð. Lengi eftir að þeir hurfu, bergmáluðu gleðióp okkar um aðalgötuna. Fagnandi lyftum við hönd- um til himins. Halejúja, söng hjarta mitt og fundum við ekki öll kraftaverkastraum hinnar einlægu trúar? Síðan hef ég verið útlendingur í þessu landi. Eg reika um aðalgötuna, mæti ungum mæðrum og feðrum sem leiða börn sín til kvikmyndahússins. Eg rýni í augu þeirra, rýni í augu þeirra og spyr með sjálfum mér: Varst þú þar? Hefur þú varðveitt barnstrú þína? 7

x

Lystræninginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lystræninginn
https://timarit.is/publication/1228

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.