Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2007, Page 21

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2007, Page 21
FRÆÐSLUGREIN lífslíkur eftir hjarfastopp sem verður í vitna viðurvist. í áðurnefndri samantekt Hjalta Más Björnssonar o.fl. þar sem fjallað var um hjartastopp í Reykjavík, var skyndihjálp aðeins beitt í 54% tilvika þar sem vitni voru af hjartastoppi. Þarna er vettvangur þar sem hægt er að bæta lífslíkur fólks sem fer í hjartastopp með því að auka þekkingu almennings á endurlífgun. Keðjan Mikilvægustu þættir endurlífgunartilrauna eru settir upp í svokallaða endurlífgunar- keðju (sjá mynd 1). Mikilvægt er að allir sem bregðast þurfa við hjartastoppi séu vel að sér í þeim þáttum sem settir eru fram í keðjunni og framkvæmi þá rétt. Keðjunni er skipt í 4 meginþætti: 1. Skjót greining neyðartilfellis og strax kallað á hjálp. 2. Tafarlausar endurlífgunaraðgerðir nærstaddra. 3. Hjartarafstuð sem fyrst. 4. Sérhæfð meðferð. Keðjan hefur verið víkkuð frá því sem áður var. Áður tilgreindi hún eingöngu endurlífgunarferlið sjálft en nú er lögð áhersla á að koma í veg fyrir hjartastopp, sérstaklega hjartastopp innan sjúkrahúsa. Einnig er lögð meiri áhersla á að einstaklingum, sem hafa verið endurlífgaðir eftir hjartastopp, sé áfram veitt viðeigandi meðferð (Handley o.fl., 2005). 1. Skjót greining neyðartilfellis og kallað á hjálp Komið i veg fyrir hjartastopp í nýju evrópsku endurlífgunarleiðbeining- unum leggja Nolan o.fl. mikla áherslu á að koma í veg fyrir hjartastopp inni á sjúkrahúsum. Þar kemur fram að hjartastopp hjá sjúklingi inni á deild er yfirleitt ekki ófyrirséður, skyndilegur atburður og stoppið er sjaldnast af völdum hjartasjúkdóma heldur hefur þessum sjúklingum farið hægt hrakandi. Starfsfólk tekur ekki eftir eða tekur eftir en bregst ekki við líkamlegum og lífeðlisfræðilegum breytingum, svo sem súrefnisskorti og blóðþrýstingsfalli. Þegar þessir sjúklingar fara í hjartastopp eru mjög litlar líkur á að endurlífgun takist (minni en 20%). Mikilvægt er að fylgjast með sjúklingum, kanna lífsmörk reglulega og fylgjast með breytingum á lífsmörkum. Sé eitthvað óeðlilegt þarf að kalla strax eftir aðstoð. Á sjúkrahúsum eru víða orðin starfandi bráðateymi (medical emergency team) sem eru kölluð til þegar sjúklingum á deildum versnar, sambærilegt við endurlífgunarteymi nema kallað er út áður en sjúklingur fer í hjartastopp. Meðvitundarleysi staðfest og kallað á hjálp Ef komið er að einstaklingi sem gæti verið í hjartastoppi þarf að ganga ákveðið til verks. Byrjað er á að staðfesta meðvitundarleysi, það er gert með því að hrista axlir einstaklingsins og kalla til hans. Ef viðkomandi er meðvitundarlaus er næsta skref að kalla til sérhæfða aðstoð, hringja í 112 eða nota neyðarhnappa. Endurlífgun er framkvæmd ef maðurinn er meðvitundarlaus, svarar ekki áreiti og andar ekki eðlilega. Til að meta öndun þarf að opna öndunarveginn með því að leggja aðra hendina á ennið á þeim meðvitundarlausa og lyfta undir hökuna með hinni. Öndun er svo metin með því að horfa, hlusta og finna. Það er gert með því að leggja eigin kinn að öndunarfærum sjúklingsins, þannig getur maður séð hvort brjóstkassinn lyftist, hlustað eftir öndunarhljóðum og reynt að finna öndunina. Þegar verið er að meta hvort viðkomandi andar eðlilega er áhersla lögð á að ekki sé ruglast á eðlilegri öndun og stöku andvarpi en slíkt gerist hjá allt að 40% sjúklinga á fyrstu mínútum eftir hjartastopp. í leiðbeiningum um endurlífgun árið 2000 var ákveðið að leggja ekki áherslu á að hjálparfólk leitaði að púlsi þar sem slík greining er mjög ónákvæm við þessar aðstæður. Áfram er þó mælst til þess að heilbrigðisstarfsfólk leiti að púlsi en taki niðurstöðu greiningarinnar með varúð þar sem vitað er að hún er ónákvæm. Ekki skal verja meira en 10 sekúndum til greiningarinnar. Ef meðvitundarleysi og öndunarstopp er staðfest skal hefja hjartahnoð strax. 2. Tafarlausar endurlífgunartilraunir nærstaddra Grunnendurlífgun Á hverri mínútu, sem líður frá því að hjartastopp verður, minnka lífslíkur um 7-10% ef ekki er beitt hjartahnoði og blástursmeðferð. Á hinn bóginn minnka lífslíkur ekki nema um 3-4% á mínútu ef beitt er vönduðu hjartahnoði og blæstri frá upphafi. Af þessu má sjá að skyndihjálp nærstaddra skiptir miklu máli í endurlífgun. Helstu breytingar, sem gerðar hafa verið á grunnendurlífguninni, það er hnoðinu og blástursmeðferðinni, undanfarin ár er að hnoða strax í 30 skipti hjá fullorðnum eftir Tímarit hjúkrunarfræðinga - 3. tbl. 83. árg. 2007 19

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.