Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Page 114
114 115
5. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð orðast svo:
Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn kirkjumálasjóðs. Kirkjuþing setur nánari
reglur um framkvæmdina í starfsreglur. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af
Ríkisendurskoðun.
7. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. orðast svo:
Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn Jöfnunarsjóðs sókna. Kirkjuþing setur nánari
reglur um framkvæmdina í starfsreglur. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af
Ríkisendurskoðun.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta
Endurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 hefur staðið
yfir síðan árið 2007, en þá kaus kirkjuþing nefnd til þess verks.
Unnið hefur verið að þessari endurskoðun frá þessum tíma.
Á kirkjuþingi 2012 var síðan kosin milliþinganefnd, skipuð fimm fulltrúum á
kirkjuþingi og leggur sú nefnd fram frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum á kirkjuþingi
2013. Samþykki kirkjuþing það frumvarp má telja líklegt að óvíst sé hvort – og þá hvenær
– Alþingi samþykki ný þjóðkirkulög, enda málið umfangsmikið og mörg sjónarmið uppi
um ýmsa þætti þess.
Fram hefur komið að brýna nauðsyn ber til að breyta tilteknum atriðum í núgildandi
lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, til einföldunar og
hagræðingar í rekstri þjóðkirkjunnar auk fleiri þátta. Slíkar breytingar þyrftu að nást fram
hið fyrsta. Um er að ræða að styrkja kirkjuþing og skýra stöðu þess betur og að færa
fjárstjórnarvald til þingsins auk fleiri þátta sem gerð verður grein fyrir hér.
Til að tryggja að þær nauðsynlegu breytingar nái fram að ganga hefur kirkjuráð ákveðið
að flytja styttra frumvarp til laga um breytingar á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti
þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 á kirkjuþingi 2013 sem felur í sér þær tilteknu breytingar
á löggjöfinni sem nauðsynlegt þykir að ná fram hið fyrsta. Er það mat kirkjuráðs að
auðveldara og fljótlegra sé að tryggja framgang slíks máls heldur en heildarfrumvarps til
nýrra þjóðkirkjulaga.
Helstu breytingar sem lagðar eru til eru eftirtaldar:
Felld verði brott ákvæði um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar. Nefndir
þessar kosta töluverða fjármuni og verksvið þeirra er ekki alls kostar skýrt. Talið er
rétt að leggja þær niður í sparnaðarskyni og til einföldunar. Ágreiningsmál færu þá að
jafnaði annað hvort til biskups Íslands eða hinna almennu dómstóla eins og eðlilegt er.
Eftir atvikum gætu ágreiningsmál farið til úrlausnar annarra kirkjulegra stjórnvalda s.s.
kirkjuráðs allt eftir efni málsins.
Lagt er til að ákvæði núgildandi laga um aðsetur vígslubiskupa falli brott svo og ákvæði
um biskupafund. Eðlilegra er að kirkjan sjálf ákveði um slíkt en ekki löggjafarvaldið. Gefur
þetta kirkjuþingi meira svigrúm til að skipa málum embætta vígslubiskupa og störfum
þeirra án þess að þingið sé bundið af fyrirmælum laga um aðsetur þeirra eins og nú er og
eins fyrirmælum laga um biskupafund.