Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Page 12
12 13
Heilagur Agústínus sagði að ritningin kenndi í raun ekkert nema kærleika. Sérhvert
ritningarorð ætti að skoða vandlega þar til við hefðum skilning á því hvernig samúð og
kærleikur væru kjarninn í því.
Glíman við að finna samúð og kærleika í þessum gömlu og oft flóknu textum er allavega
góð æfing til að takast á við lífið með hið sama að leiðarljósi.
Gerum við það almennt? Er samúð og kærleikur meginstefið í okkar hegðun og það
sem mótar okkar viðhorf? Eða getur verið að það skipti nú mestu máli fyrir fólk að hafa
rétt fyrir sér í einu og öllu? Vita best, kunna betur, já hafa rétt fyrir sér.
Hvort er betri leiðbeining og undirbúningur fyrir lífið fyrir fermingarbörn að setja í
fyrsta sæti að hafa alltaf rétt fyrir sér eða að sýna öllum samúð og kærleika?
Það er sagt að það sé gott að vera með fólki sem leitar sannleikans en stórvafasamt að
dvelja lengi hjá þeim sem hafa fundið hann.
Gullna reglan er ekki bara leiðbeining um hvernig við eigum að koma fram við okkar
nánustu.. Okkur er kennt að hún eigi alltaf að eiga við og gilda gagnvart öllum. Og það er
ekki einkamál kristinna manna. Um hið sama má lesa í gömlum kínverskum ritum. “Jian
ai, umhyggja fyrir öllum”
Það þarf ekki mikla fjarlægð til að allt slíkt sé gleymd. Svokölluð athugasemdakerfi á
netinu birta ekki sérlega fallega mynd af viðhorfum til annarra. Það mæti gjarnan biðja
um smá slurk af Jian ai inn á þann vettvang.
Kannski má einnig spyrja hvort við gætum nægilega vel að Gullnu reglunni þegar
kemur að samskiptum okkar sem berum mikla ábyrgð innan hinnar íslensku þjóðkirkju.
Standast okkar orð og athafnir alltaf gullnu reglunna? Elskum við þau sem eru ósammála
okkur? Þessu svarar að sjálfsögðu hver og einn fyrir sig.
En það er þetta með aðra. Tilhneigingu til að skilgreina allt út frá okkur og hinum. Það
sé allt í lagi að koma fram við hina öðruvísi en okkur.
Það má velta því fyrir sér að hebreska orðið fyrir hinn heilaga þegar átt er við Guð er
Kadosh, hið aðgreinda eða annað.
Undanfarið hefur verið mikið af fréttum um aðra og hina. Um fólk sem er eitthvað
öðruvísi og hefur hingað til verið okkur fjarlægt. En nú kemur það nær okkur og við
köllum þau flóttamenn. Eru þau sköpuð í Guðsmynd? Á Gullna reglan við um þau?
Fyrir tveimur dögum hélt þjóðmálanefnd kirkjunnar ráðstefnu um stöðu flóttamanna.
Yfirskrift ráðstefnunnar var „Hver er þá náungi minn“? Áleitin spurning sem við þekkjum
úr Biblíunni. Spurning sem nú er beinlínis beint til okkar. Breytum við eins og samverjinn
eða eins og hinir sem gengu framhjá?
Það er umhugsunarefni hvort viðhorf okkar og gjörðir mótist af gullnu reglunni. Og þá
hvaða túlkun af henni. Eitt er að forðast það að gera öðrum illt, annað er að leggja sig fram
við að gera að auki það fyrir aðra sem við vildum að þeir gerðu fyrir okkur.
Á þessu er munur. Það er kostur að búa í samfélagi þar sem fólk passar sig á því að gera
öðrum ekki illt eða valda öðrum óþægindum. En er ekki betra að lifa þar sem fólk auk
þess reynir að hjálpa og aðstoða þá sem að á þurfa að halda í samræmi við það hvernig það
sjálft myndi gjarnan vilja að sér væri hjálpað eða veitt aðstoð?
Undanfarin ár hefur verið mikil umræða um að koma kristinfræðslu út úr skólum og