Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Page 11
11
Setningarræða forseta kirkjuþings, Magnúsar E. Kristjánssonar
Kirkjuþing 2015 er sett, 52. kirkjuþing hinnar íslensku Þjóðkirkju.
Ég býð kirkjuþingsfulltrúa og góða gesti hjartanlega velkomna til setningarathafnar
kirkjuþings. Sérstaklega vil ég bjóða forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson
velkominn og þakka honum fyrir þá vinsemd sem hann sýnir kirkjuþingi með því að vera
hér með okkur í dag.
Ég á mínar bestu minningar af kirkjuferðum með ömmu minni og afa. Eftir að afi dó
þá fórum við amma stundum í messu. Amma mín var fædd 1913. Hún hafði skoðanir á
því hvernig fólk ætti að haga sér í kirkju og hvernig kirkjustarf ætti að vera. Sem dæmi má
nefna að henni fannst það ekki passa að konur væru prestar og það mátti alls ekki syngja
faðirvorið. Við vorum ekki sammála um þetta amma og ég. Samt fannst mér ákaflega
gott að fara með henni í kirkju og á um það verðmætar minningar. Evangelísk lútersk
þjóðkirkja á að mínu mati að hafa pláss bæði fyrir ömmu og mig. Eða er það ekki? Er ekki
þjóðkirkja einmitt þannig að dyr hennar eru breiðar og þröskuldur lágur. Fólk velkomið
eins og það er. Þegar amma dó þá var farið vandlega yfir það að útförin væri í samræmi
við hennar viðhorf og ég er þakklátur fyrir að það var svo. Okkur í fjölskyldunni hefði þótt
það miður ef við hefðum ekki getað haft það í samræmi við hennar skoðanir.
Mér hefur þótt örla á því nú í seinni tíð að um leið og margir vilja vera opnari og
frjálslyndari innan kirkjunnar þá herðast sumir stundum í afstöðunni til þeirra sem hafa
íhaldssamari sjónarmið. Það er gott að vera frjálslyndur og víðsýnn, en á þá frjálslyndið,
víðsýnin og umburðarlyndið ekki að ná til allra?
Ekki getum við gert ráð fyrir að allt það fólk sem er í hinni íslensku þjóðkirkju verði
sammála um allt og sennilega værum við sérstakur söfnuður ef svo væri.
Trú er persónuleg og skilningur okkar er mismunandi. Þýðir „a credo“ ,ég trúi, eingöngu
að viðkomandi játi ákveðnar kenningar? Má ekki líka skilja það sem tileinkun.
Snúast ekki trúarbrögð um ákveðna hegðun? Að tileinka sér ákveðna hegðun og viðhorf
í samræmi við sannfæringu sína og samvisku?
Það má segja að kjarninn í flestum trúarbrögðum sé samúð. Hér nota ég orðið samúð
í sömu merkingu og enska orðið compassion. Gullna reglan hefur verið þekkt lengi. M.a.
hjá gyðingum og Konfusiusi. Þar var hún sett fram með þeim hætti að við ættum ekki að
gera öðrum það sem við vildum ekki að þeir gerðu okkur.
Þekkt er sagan af af Hillel hinum virta rabbía. Heiðingi kom til hans og bauðst til að játa
hans trú ef hann gæti farið með kenningar og texta trúar sinnar standandi á öðrum fæti.
Hillel stóð á öðrum fæti og sagði: „Það sem þér er andstyggð skaltu ekki gera öðrum. Það
er Torah, allt hitt eru nánari útskýringar. Farðu og lærðu þetta“.
Í fjallræðunni skýrði Jesú Gullnu regluna þannig að menn ættu ekki bara að forðast það
að gera öðrum það sem þeir vildu ekki að þeim væri gert heldur einnig að gera öðrum það
sem þeir vildu að aðrir gerðu þeim.
Ef samúð og kærleikur mótar viðhorf okkar og hegðun, og þegar við finnum til með
öðrum, þá skiljum við að við erum ekki miðja alheimsins. Það er kennt að það sé fyrst þegar
við verðum frjáls frá sjálfhverfunni að við séum tilbúin til að taka á móti hinu guðdómlega.