Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Page 115
115
Þá er lagt til að ákvæði um stöðu kirkjuþings verði gert skýrara þannig að ekkert fari
milli mála að þingið fari með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli
sérstaklega annan veg.
Einnig er lagt til að það skref verði stigið strax að fjárstjórnarvald færist til kirkjuþings,
enda eðlilegt að handhafi æðsta valds innan kirkjunnar stýri þeim fjármunum sem ætlaðir
eru til rekstrar kirkjunnar.
Orðalag tillagna þessara styðst við orðalag frumvarps þess sem lagt var fram á
kirkjuþingi 2012.
Um einstök ákvæði
Um 1. gr.
Lagt er til að brott falli ákvæði 1. ml. 1. mgr. 16. gr. þjóðkirkjulaga en 1. ml. ákvæðisins er
svo hljóðandi: „Vígslubiskupar skulu vera tveir með aðsetur á hinum fornu biskupsstólum, í
Skálholti í Biskupstungum og á Hólum í Hjaltadal.“
Um 2. gr.
Lagt er til að ákvæði 19. gr. laganna falli brott. Ákvæðið er svo hljóðandi: „Biskup
Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir og nánar skal kveðið á
um í starfsreglum, sbr. 59. gr. Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna,
helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu og gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og
prófastsdæma til kirkjuþings, sbr. 50. gr.“
Um 3. gr. og 4. gr.
Lagt er til að niðurlagi ákvæðis 1. mgr. 20. gr. verði breytt á þann veg sem greinir í tillögu
þessari. Núgildandi ákvæði er svohljóðandi: „Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum
þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka“.
Lagt er til að þess í stað segi: „nema lög mæli annan veg“. Er það mun skýrara og
afdráttarlausara ákvæði en það sem nú er í gildi. Fer þá ekkert á milli mála að kirkjuþing
fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, nema annað sé sérstaklega tekið fram með
skýrum hætti.
Í samræmi við þá hugsun að kirkjuþing fari með æðsta vald þjóðkirkjunnar er rökrétt
og eðlilegt að fjárstjórnarvaldið sé um leið skilgreint sem eitt af ábyrgðarsviðum þingsins
en vart er unnt að hugsa sér að stjórnvald fari með æðsta vald en hafi ekki fjárstjórnarvald.
Annars væri um mótsögn að ræða. Eðlilegt er og í samræmi við löggjöfina að öðru leyti að
kirkjuþing setji starfsreglur um tilhögun fjárstjórnarvaldsins. Þá er í því sambandi eðlilegt
að fella brott 2. mgr. og 3. mgr. 27. gr. laganna til að tryggja að fjárstjórnarvaldið færist að
öllu leyti til kirkjuþingsins.
Um 5. gr.
Lagt er til að ákvæðið verði fært í átt til þess sem frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum
mælir fyrir um. Þar segir í skýringum við ákvæði 20. gr. frumvarpsins um embættisgengi:
„Efnisatriði þessarar greinar koma fram í 38. gr. núgildandi laga. Ekki er lengur talað