Bókasafnið - 01.07.2017, Síða 4
4 Bókasafnið
Þann 12. maí skrifuðu fulltrúar Félags um skjalastjórn, Sagnfræðingafélagsins og Upplýsingar undir viljayfirlýsingu um
þátttöku í útgáfu ritrýnds tímarits á fræðasviðum þessara fagfélaga. Vinnuheiti þessa tímarits er 01 : Tímarit um skráningu,
varðveislu og miðlun, og vísar til þeirrar stafrænu vinnu sem nú er unnin við skráningu, varðveislu og miðlun gagna. Auk
þess yrði tímarit með þessu heiti fremst í öllum tímaritalistum. Undirbúningshópur að þessu verkefni lauk þar með sínum
þætti. Í þeim hópi voru Sigrún Klara Hannesdóttir, Njörður Sigurðsson, Kristjana Kristinsdóttir, Jóhanna Gunnlaugsdóttir,
Sigurjón Baldur Hafsteinsson og ritstjóri Bókasafnsins. Sigrún Klara leiddi starf hópsins og eru henni þökkuð vel unnin
störf, sem og öllum öðrum sem komu að þessari vinnu. Nú tekur við hjá fagfélögunum að skipa útgáfunefnd (ritnefnd) sem
mun bæði sjá um að setja upp verklag á nýju riti, stjórna útgáfu þess og reka útgáfufélag. Sú nefnd getur einnig ákveðið
annað heiti á tímaritinu.
Með því að stofna nýtt ritrýnt rit er vonast til að ritið nái fljótlega að verða metið sem fræðilegt rit. Vonandi skapast núna
góður vettvangur fyrir fræðilegar greinar á þessum fagsviðum, og sérstaklega greinar um efni sem varðar sérstaklega þessar
fagstéttir á Íslandi. Ef greinar verða birtar á íslensku, ætti þetta rit að styðja notkun íslensks tungutaks á þessum fagsviðum.
Um langt skeið hefur vísindaheimurinn fjallað um þann vanda sem skapast af því að útgáfa vísindarita er í miklum mæli
í höndum útgáfurisa sem sýna ofurhagnað ár eftir ár. Þessi hagnaður kemur af því að stofnanir sem sinna rannsóknum
og háskólakennslu borga í raun þrisvar fyrir útgáfu greinanna. Í fyrsta skipti þegar fé er veitt til rannsókna og greinar um
niðurstöður þeirra eru skrifaðar, síðan þegar aðrir starfsmenn rýna greinarnar og í þriðja skiptið þegar þarf að kaupa áskrift
að tímaritum eða kaupa greinarnar til lestrar. Þetta viðskiptalíkan hefur staðið birtingu niðurstaðna úr vísindarannsóknum
fyrir þrifum. Helsta lausnin sem hefur fundist er að birta greinar í opnum aðgangi og taka á sig kostnað af útgáfu. Það leiðir
til mun meiri dreifingar á niðurstöðum og er ódýrara kerfi til langs tíma en áskriftartímaritin. Fagstéttir í upplýsingafræð-
um hafa vonandi ekki bara metnað til að auka útgáfu rannsóknagreina á sínu sviði, heldur einnig til að vinna með að þessari
lausn í útgáfumálum.
Bókasafnið heldur áfram á þeirri braut sem kynnt var á síðasta ári, að bjóða upp á greinar um ólík atriði sem snerta starf
félagsmanna Upplýsingar. Fyrst ber að geta viðtala við kennara og nemanda úr upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Þá
fylgja grein um menntunarkosti bókavarða sem ekki hafa lokið háskólagráðu og grein um einmana bækur. Þá eru greinar
um ráðstefnur sem staðið var fyrir á Íslandi, Creating Knowledge og afmælisráðstefnu vegna 60 ára kennslu í bókasafns- og
upplýsingafræði. Formaður og ritari Upplýsingar segja frá þátttöku í heimsráðstefnu IFLA. Sagt er frá nýjungum í starfi,
foreldramorgnum í Bókasafni Hafnarfjarðar, verkefni þar sem börn lesa fyrir hunda í Borgarbókasafni, RDA-innleiðingu,
auknu aðgengi að einkaskjalasöfnum, verkefni kennt við Opin vísindi og heimsverkefninu Bláa skildinum og hvernig það
er útfært á Íslandi. Sagt er frá vinnu við einkabréf, skráningu landfræðilegra heimilda, aðstoð við höfunda til að gefa út
gamalt fræðilegt efni í opnum aðgangi. Farið er yfir þróun fagstéttarinnar frá 2001 til 2015 og að lokum eru þrjár minn-
ingargreinar. Viðtölin og greinarnar endurspegla fjölbreytt viðfangsefni þeirra fagstétta sem vinna við upplýsingar og sýna
vonandi hvað er efst á baugi hjá þeim sem vinna að þessum málum.
Bókasafnið þakkar höfundum greina fyrir sitt framlag, Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga fyrir styrk til stofn-
unar ritrýnds tímarits, Tim Richardson og Kristínu Benedikz fyrir veitta aðstoð.
01: Tímarit um skráningu,
varðveislu og miðlun og Bókasafnið