Dagblaðið Vísir - DV - 11.04.2017, Blaðsíða 60
60 menning Páskablað 11. apríl 2017
S
jálfvirknivæðing mun á
næstu árum og áratugum
taka yfir æ fleiri störf verka-
fólks, gervigreind og sífellt
flóknari sjálfvirk vélmenni
munu gera fjölda starfsstétta óþarf-
ar. Þetta óttast verkalýðshreyfingar
og verkamannaflokkar víða um heim
og hafa í mörgum tilfellum tekið af-
stöðu gegn þróuninni – en kannski
eiga þessir hópar þvert á móti að
fagna henni.
Það er að minnsta kosti sú skoðun
sem sett er fram í bókinni Inventing
the Future: Postcapitalism and World
After Work eftir Nick Srcnek og Alex
Williams, sem kom fyrst út árið 2015
en var endurútgefin með nýjum við-
auka á dögunum. Bókin hefur vak-
ið mikla athygli sem hvatningaróp
til vinstrihreyfinga samtímans um
að afneita ekki tækninýjungunum
heldur horfa á möguleikana sem fel-
ast í þeim í þágu fjöldans, ákall um
að stefnt verði að framtíð þar sem
tæknin verður nýtt til þess að gera
hefðbundna launavinnu óþarfa
og sanngjarna dreifingu lífsgæða
mögulega. „Nýr heimur verður ekki
byggður á rústum þess gamla heldur
á há þróuðustu þáttum nútíðarinnar,“
skrifa höfundarnir.
Inventing the Future hefur hrist
upp í hugsun margra, sérstaklega yst
á vinstri væng breskra stjórnmála,
með einlægum útópisma og heiðar-
legri tilraun til að setja fram raun-
hæfar leiðir um hvernig skuli komast
þangað.
Þess vegna hefur vinstrið dalað
Eitt helsta vandamál vinstrihreyf-
inga, allt frá mótmælahreyfingun-
um í kringum 1968, í gegnum fall
Sovétríkjanna og til okkar daga er
að þær hafa æ meiri tilhneigingu
til að aðhyllast það sem Srnicek og
Williams kalla alþýðu-pólitíska hugs-
un (e. folk-politics), það er að leggja
áherslu á og hampa nálægð í pólitísk-
um aðgerðum og aðferðum. Þetta er
því tilhneiging til að leggja áherslu á
staðbundin viðbrögð frekar en þver-
þjóðlega hugsun, áhersla á beinar
varnaraðgerðir vegna tiltekinna
ákvarðana frekar en áætlanagerð til
langs tíma, áhersla á beina ákvarð-
anir og flata valdastrúktúra frekar
en að þróun skilvirks stofnanakerf-
is, áhersla á hið siðferðilega frekar en
hið stjórnmálalega, á persónulegar
tilfinningar frekar en úthugsuð rök.
Þeir segja alþýðu-pólitíkina vera
skiljanleg viðbrögð við æ flóknari
heimsmynd og vantrú á hina hefð-
bundnu verkamannaflokka. Við-
brögðin séu góðra gjalda verð en
vandamálið sé að þeim sé yfir-
leitt ekki ætlað, og þeim sé jafnvel
ómögulegt, að stækka, dreifast og
fara lengra. Þau séu óhjákvæmilega
bundin við takmarkaðan fjölda fólks,
ákveðinn tíma eða tiltekinn stað.
Slík verkefni séu nauðsynlegt
fyrsta skref en ef hugmyndin sé að
ráðast gegn stefnu nýfrjálshyggjunn-
ar og bjóða upp á raunhæfan valkost
við hana nægi þau alls ekki. Ef það
eigi að vera möguleiki að ögra hnatt-
rænum kapítalisma, þurfi nálgunin
að vera stórhuga, íhuguð, margþætt,
hnattvædd. Yfirlýst markmið bók-
arinnar er hefja slíka sameiginlega
íhugun um möguleg framtíðarmark-
mið og leiðirnar þangað.
Taka innblástur frá nýfrjáls-
hyggjunni
Í einum kafla bókarinnar líta höf-
undarnir til hugmyndastraumsins
sem nefndur hefur verið nýfrjáls-
hyggja og leggja til að vinstrimenn
rýni í og fái innblástur frá þeim að-
ferðum sem upphafsmenn hans not-
uðu til að gera róttækar hugmyndir
sínar að viðteknum sannindum.
Þeir fjalla lítið um hið umdeilda
hugtak nýfrjálshyggju, enda er hún
sjálf ekki umfjöllunarefnið, en þeir
álíta að samkvæmt henni sé mikil-
vægasta hlutverk ríkisins að búa til
markaði hvar sem mögulegt er og
viðhalda þeim – samkeppnin eigi
að ríkja sem víðast í mannlegu sam-
félagi jafnvel þar sem markaður
sprettur ekki upp af sjálfum sér. Ríkið
eigi svo að halda að sér höndum að
öðru leyti og umfram allt minnka við
sig í velferðarhlutanum.
Þetta segja þeir hafa verið virki-
lega róttæka jaðarhugmynd í upphafi
en á nokkrum áratugum hafi hún
orðið að viðteknum sannindum inn-
an fjölmargra valdastofnana. Grein-
ingin á uppgangi nýfrjálshyggjunn-
ar er alls ekki núanseruð og örlítið
samsæriskenningaleg en þarna virð-
ist skipta mestu máli að sýna hvernig
hægt sé að hafa gríðarleg áhrif á ríkj-
andi hugmyndir í samfélaginu.
Þeir álíta að langtímahugsun
nokkurra þeirra sem aðhylltust hug-
myndafræðina, til dæmis með stofn-
un þankaveitunnar Mont Pelerin
Society, hafi haft afgerandi áhrif. Þeir
hafi skapað frjóan vettvang fyrir sam-
tal og skoðanaskipti, þar sem hugs-
aðar voru upp langtímaleiðir til að
vinna hugmyndunum brautargengi,
en þar hafi einnig myndast sterkt
tengslanet og í kjölfarið hafi fjölda
tengdra þankaveita og stofnana verið
komið á fót víða um heim. Þegar
efnahagslegir erfiðleikar dundu yfir
á áttunda áratugnum voru nýfrjáls-
hyggjumennirnir ekki aðeins tilbúnir
með svör og hugmyndir um viðbragð
við krísunni, heldur voru fjölmargir
aðilar í ólíkum valdastöðum orðnir
gegnsósa af slíkum hugmyndum.
Vinnukrísa í kortunum
Hvatningaróp Srnicek og Williams
felst ekki í að endurtaka aðferðir ný-
frjálshyggjumannanna heldur að
hugsa heildstætt til langrar framtíðar
frekar en í einstökum málum og kjör-
tímabilum.
Þá eigi vinstrimenn umfram allt
að eigna sér aftur hugmyndina um
framtíðina, frekar en að horfa stöð-
ugt til glæsilegrar fortíðar, hvort sem
það er til gullaldar sósíaldemókrata
eða til ættbálkasamfélaga og moldar-
kofa. Lengst af hafi möguleikar tækn-
innar, hugmyndir um framþróun og
framtíðina verið tengt við vinstrið, en
á síðustu áratugum hafi það í sífellt
meira mæli orðið að einkaeign frjáls-
hyggjunnar.
Að sama skapi vilja þeir að vinstrið
gangist við því að ákveðin almenn
gildi þurfi til að drífa hugsjónabar-
áttuna áfram, gildi sem séu þó ekki
útilokandi. Kannski ein af ástæðun-
um fyrir því að talað er um hið óljósa
hugtak „eftir-kaptítalismi“ í undir-
titli bókarinnar frekar en (hið gildis-
hlaðna) „sósíalismi“ er að þeir álíta
að gagnlegast sé að stefna að frelsi
hvers einstaklings frekar en algjörum
jöfnuði í samfélaginu.
Frelsið sé þó ekki fyrst og fremst
formlegur réttur til að sleppa við öll
höft hins opinbera – frelsi frá tak-
mörkunum eins og hægrimenn gera
yfirleitt ráð fyrir – heldur jákvætt
frelsi sem þeir kalla „tilbúið frelsi.“ Án
getunnar til að nýta formlegan rétt til
að gera eitthvað, er rétturinn gagns-
laus að mati höfundanna. En eftir því
sem geta manns er meiri því frjálsari
er maður til að gera það sem maður
vill. Frelsið er því ekki óbreytanleg-
ur náttúrulegur eiginleiki heldur er
hægt að smíða það og stækka (út í hið
óendanlega). Þó að maður í hjóla-
stól hafi formlegan rétt til að fara um
alla borgina býr hann ekki við raun-
verulegt ferðafrelsi vegna ýmissa
áþreifanlegra hindrana – frelsi hans
er aukið með því að fjarlæga slíkar
hindranir.
Srnicek og Williams leggja áherslu
á að sú framtíð sem stefnt sé að megi
ekki vera úr öllu samhengi við núver-
andi samfélag, heldur sé nauðsynlegt
að draga línurnar út frá raunveruleg-
um tilhneigingum sem eru í samfé-
laginu og nýta þær sér til framdráttar.
Sú tilhneiging í nútímanum
sem þeir leggja áherslu á og telja að
mögulegt sé að nýta í þágu fjöldans,
eru þeir erfiðleikar sem þeir telja
hagkerfi heimsins standa nú frammi
fyrir í tengslum við sjálfvirknivæð-
ingu. Ekki takist að skapa nógu mörg
störf á móti þeim sem glatast vegna
tækniframfara, og á næstu áratugum
muni æ færri góð störf verða sköp-
uð á móti hinum glötuðu. Þeir telja
að samhliða þessu muni vinnu öryggi
verkafólks í ríkari löndum hraka,
fjöldi fólks í sárri fátækt aukast, bilið
á milli ríkra og fátækra í þéttbýli
stækka, háskólamenntun þróast yfir í
starfsnám (í örvæntingarfullri tilraun
til að fjölga fólki sem getur tekist á við
sérhæfð tæknistörf) og vöxturinn í
hagkerfinu verði áfram hægur.
Sem sagt, þeir telja vinnukrísu
vera yfirvofandi og þetta álíta þeir að
muni leiða til kreppu allra samfélaga
þar sem launavinna er miðlægt fyrir-
bæri – þar sem vinnulaun eru yfirleitt
eina innkoma einstaklinga og launa-
vinna skilgreini enn fremur sjálfs-
mynd þeirra.
Útópískar kröfur
Kröfurnar sem þeir telja að
vinstrihreyfingar samtímans þurfi að
sameinast um þurfa að byggja á slík-
um raunverulegum tilhneigingum í
samtímanum, en á sama tíma álíta
þeir að þær þurfi að hafa útópískan
brodd sem ögrar takmörkunum ríkj-
andi kerfis. Kröfurnar þurfi einnig að
hafa slagkraft í samtímanum og ögra
pólitíska jafnvæginu í dag, en á sama
tíma verði hægt að nýta þær sem ein-
hvers konar stökkpall fyrir frekari
þróun.
Kröfurnar fjórar sem þeir stinga
upp á að geti drifið hreyfinguna
áfram eru vísvitandi ögrandi (og jafn-
vel ómögulegar í framkvæmd) en
vísa þó í rétta átt.
Kröfurnar sem þeir telja að
vinstrið eigi að setja fram og berjast
fyrir eru (1) algjör sjálfvirknivæðing.
Í stað þess að sjá sjálfvirkni sem and-
stæðing þurfi vinstrið að berjast fyrir
henni, krefjast rannsókna og ríkis-
styrkja í verkefni sem stefna að út-
rýmingu ákveðinna starfsstétta. Á
sama tíma þurfi hins vegar að krefj-
ast (2) styttri vinnuviku. Þetta klass-
íska baráttumál verkafólks ætti að
vera tekið upp að nýju enda geti
styttri vinnutími ekki bara bætt líf
fólks heldur einnig bætt upp fyrir hin
glötuðu störf. Þá þurfi að krefjast (3)
skilyrðis lausrar grunnframfærslu, en
leggja áherslu á að hún þurfi að vera
nægjanleg til framfærslu og enn frem-
ur að hún komi ekki í stað velferðar-
kerfis heldur bætist við það. Þeir vilja
meina að þetta muni hafa góðar af-
leiðingar að mörgu leyti, minnki ör-
yggisleysi og valdaleysi verkafólks,
þetta sé femínísk krafa því þar með
sé heimilisvinna metin til jafns við
annað starf. Þegar launavinna verði
valkvæð verði enn fremur nauðsyn-
legt að borga mun hærra kaup fyrir
þau hættulegu, erfiðu og óspennandi
störf sem nú eru láglaunastörf. Þeir
álíta að stærsta hindrunin sem standi
grunnframfærslunni fyrir þrifum sé
alls ekki hagfræðileg, heldur pólitísk
og menningarleg, og því þurfi raunar
að krefjast (4) minni áherslu á vinnu-
siðferði.
Williams og Srnicek leggja áherslu
á að engin ein einföld lausn sé í boði,
svarið sé ekki aðeins á þingi, aðeins
í verkalýðshreyfingum, á vettvangi
tækninnar eða annars staðar, heldur
þurfi að hugsa um allt vistkerfi sam-
félagslegra breytingaafla, og gang-
ast við því að á mismunandi aðferðir
virki á mismunandi stöðum.
Þrátt fyrir ýmsa vankanta og
mikla einföldun er Inventing the
Future ansi merkileg lesning. Hún er
ögrandi og pólemísk en með henni
hefur höfundunum tekist að stilla
tækninni upp sem einu mikilvæg-
asta pólitíska baráttumáli samtím-
ans. Hún er ekki síst merkileg vegna
þess hversu skammarlaust útópísk
hún er. Helstu hugsuðir á vinstri
væng stjórnmálanna undanfarna
áratugi hafa einbeitt sér að gagnrýni
á ríkjandi ástand, en það er virki-
lega ferskur andblær að lesa skýr-
ar hugmyndir um hvert skuli stefna,
útópískar hugmyndir sem settar eru
fram í fúlustu alvöru og einlægni, auk
heiðarlegra tilrauna til að setja fram
raunhæfar leiðir til að gera þær að
veruleika. n
Sósíalismi 21. aldarinnar
verður tækni-útópía
Horft handan kapítalisma í átt til samfélags án launavinnu
Þjóðnýtt vélmenni sjá um störfin Nick Srnicek og Alex Williams telja að í framtíðinni verði launavinna fólks óþarfi vegna þess hversu
stóran hluta vinnunnar vélmenni muni sinna. Mynd EPA
„Bókin hefur vakið
mikla athygli
sem hvatningaróp til
vinstrihreyfinga samtím-
ans um að afneita ekki
tækninýjungunum held-
ur horfa á möguleikana
sem felast í þeim í þágu
fjöldans.
Kristján Guðjónsson
kristjan@dv.is
Bækur
Inventing the Future:
Postcapitalism and a
World Without Work
Höfundar: Nick Srnicek og Alex Williams.
Útgefandi: Verso.
Útgáfuár: 2015.
256 bls.