Morgunblaðið - 06.05.2017, Page 37
MINNINGAR 37
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. MAÍ 2017
Góður vinur er
fallinn frá langt fyrir
aldur fram. Ægir
var vanur að segja
„lífið heldur áfram“
þegar spjallið snerist að hinum
ýmsu uppákomum í lífinu og
landsmálum. En nú er eins og lífið
og tíminn stöðvist og tómarúm er
þar sem Ægir var fyrir augna-
bliki. Við bjuggumst ekki við
þessu. Að veikindi gætu í einu vet-
fangi lagt að velli vin okkar, fíl-
hraustan sjóarann á besta aldri.
Manninn sem stýrði skipi heilu og
höldnu með mannskap og farmi
gegnum brotsjói Atlantshafsins.
Ægir hafði unun af lestri góðra
bóka og vildi hafa myndlist á
veggjunum. Hann var líka unn-
andi íslenskrar náttúru og naut
sín vel á göngum, veiðum eða jafn-
vel á kajak við strendur landsins.
Ótal ferðir voru farnar með fjöl-
skyldunni og var hálendið í sér-
stöku uppáhaldi. Þó aðhann væri
löngu kominn í skrifstofuvinnu í
landi rann sjómannsblóð í æðum
og tengsl við sjóinn og lands-
byggðina voru sterk. Fyrir tveim-
ur árum hafði draumurinn um að
eignast hús við sjávarsíðuna orðið
að veruleika. Ægir og Helga
keyptu gamalt timburhús í Stykk-
ishólmi. Þar var okkar maður í
essinu sínu. Meiningin var að
dvelja þar sem mest í fríum og
draumurinn var að eignast bát
með tímanum og geta róið út á
Breiðafjörðinn. Við hugsuðum
okkur gott til glóðarinnar að geta
kíkt í kaffi í Hólminum.
Heilsteyptur, hlýr, traustur og
greiðvikinn. Skemmtilegur félagi
og hnyttinn í tilsvörum. Hann vildi
allra síst láta hafa fyrir sér og
gerði lítið úr eigin erfiðleikum.
Hann vildi hafa hlutina einfalda,
„ekkert vesen“ var viðkvæðið. Og
kannski var það sú afstaða sem
byrgði manni sýn á hve alvarlegur
sjúkdómurinn var sem greindist
rétt fyrir síðustu jól. Hann var
duglegur að halda vinatengslum
og tilbúinn að hlaupa frá öðrum
verkum ef aðstoð þurfti í vina-
hópnum. Alltaf til staðar tilbúinn,
klár maður á réttum stað. Ægir og
Helga voru líka sú fjölskylda sem
Pétur bróðir Ægis átti að eftir að
foreldrar þeirra bræðra féllu frá.
Hugurinn er með Helgu og
dætrunum Ástu og Silju sem og
Pétri bróður.
Hörður og Jón Páll.
Í dag kveðjum við góðan vin,
göngu- og veiðifélaga sem langt
fyrir aldur fram lést af völdum
krabbameins. Þrátt fyrir æðru-
leysi og baráttuvilja varð Ægir að
lúta í lægra haldi eftir skamm-
vinna baráttu.
Minningarnar streyma fram
þegar kemur að kveðjustund og
allar eru þær góðar.
Fyrst kemur upp í hugann ferð
gönguhópsins, sem samanstóð af
Helgu, Ægi, Áslaugu, Smára,
Auði og Þóri, til Berchtesgaden
þar sem við gistum í góðu yfirlæti
hjá Helgu Eder í Friedwiese. Þar
sigldum við, renndum okkur í
Saltnámunum, skoðuðum Arnar-
hreiðrið og gengum upp í heiðar-
dali og leituðum að Heiðu, klöpp-
uðum kúnum og nutum
stundarinnar. Þangað kom svo
vinafólk okkar, Brynja, systir
Helgu Eder og Atli.
Að áeggjan Ægis keyptum við
strákarnir (nema Atli sem átti
slíkar buxur) þjóðlegar skinnbux-
ur sem hann nefndi svo oft „leder-
hosen“ og munu myndirnar frá
seinasta kvöldinu okkar hjá Helgu
Ægir Steinn
Sveinþórsson
✝ Ægir SteinnSveinþórsson
fæddist 25. júlí
1964. Hann lést 17.
apríl 2017.
Útför Ægis fór
fram 28. apríl 2017.
Eder ylja okkur um
hjartaræturnar um
ókomna tíð. Á þeim
erum við öllsömul á
leið á veitingastað
ásamt Helgu Eder.
Konurnar stórglæsi-
legar og við karlarn-
ir sperrtir í „leder-
hosen“.
Árið 2008 stofnuð-
um við strákarnir
(Ægir, Smári, Óli
Stef. og Þórir) óformlegt ævin-
týra- og veiðifélag þegar við
ákváðum að læra „Snarefangst“ í
Norður-Noregi. Þar ókum við
hundasleðum til Mollesjokk hytta
nálægt Isejavri upp frá Alta-ánni í
Norður-Noregi. Ætluðum okkar
reyndar að veiða rjúpur til matar
með snörum sem við lærðum að
útbúa þar en aflinn var rýr svo við
átum í staðinn hreindýrakjöt með
beinum og mergsugum þau og
þótti þetta herramannsmatur.
Gengum mikið á gönguskíðum og
fórum í viðarkynnt gufubað að
finnskum sið og stungum okkur í
læk eftir að hafa brotið vök í ísinn.
Renndum til Alta til að horfa á
upphaf Finnmarkslöpet sem er
stærsta hundasleðakeppni Evr-
ópu og jafnvel þótt víðar væri leit-
að. Misstum af flugvél til Óslóar
og urðum að redda okkur öðru
flugi, en alltaf voru æðruleysið og
rólegheitin í fyrirrúmi hjá Ægi
þótt eitthvað bjátaði á. Þar sem
oftar sýndi Ægir hversu úrræða-
góður hann var og beinskeyttur ef
þurfti.
Í þessari ferð kom stýrimanns-
kunnátta Ægis vel fram og alltaf
vorum við strákarnir vissir um
hvert bæri að stefna þótt myrkur
og hríðarveður skylli á og við langt
frá byggð enda varð Ægi aldrei
tækja eða annars búnaðar vant og
„siglingatækin“ alltaf í gangi.
Sömuleiðis minnumst við Auð-
ur ákaflega góðra stunda sem við
áttum með Ægi og Silju. Við geng-
um þá saman „Laugaveginn“ á
þremur dögum með allt á bakinu.
Smári ók okkur í Landmanna-
laugar þar sem við gistum um
nóttina áður en gangan hófst. Silju
hafði mikið langað að fara í svona
gönguferð og þótti okkur einmitt
tilvalið að núna yrði af því. Silja
stóð sig eins og hetja og þarna
fékk hún greinilega fjallabakter-
íuna og gekk í hjálparsveit stuttu
síðar.
Fyrir hönd göngu-, ævintýra-
og veiðiklúbbsins viljum við þakka
Ægi kærlega fyrir samfylgdina og
sendum innilegar samúðarkveðj-
ur til Helgu, Silju og Ástu.
Auður og Þórir Dan.
Það er eitthvað við æskuvini,
sem greinir þá frá öðrum vinum,
sem síðar koma. Ekki endilega að
æskuvinirnir séu betri vinir, en
þeir deila með manni rótunum og
bernskuminningum þeim tengd-
um.
Okkar rætur voru í Barðavog-
inum og fleiri góðir vinir sem
skutu þar rótum – sumir bjuggu í
öðrum endanum meðan aðrir
bjuggu í hinum. En yfirleitt var
allt hvort sem er á öðrum endan-
um svo það skipti ekki öllu máli
hvorum maður tilheyrði. Barða-
vogurinn var á þessum tíma ómal-
bikaður og því gott að eiga sæmi-
leg torfæruhjól til að komast ferða
sinna. Man eftir þínu flotta Coo-
per-hjóli, sem pabbi þinn kom með
af sjónum.
Við urðum ekki bestu vinir
strax – en mig minnir, að þegar ég
fékk líka hjól af sjónum þá hafi ég
hjólað í þig. Og eftir það var ekki
aftur snúið. En talandi um Barða-
vog og hjól, þá kemur þessi saga
hjólum ekkert við. Það var sem
sagt þannig að þú áttir stóran am-
erískan kagga, ég Austin Mini –
túrbó vildi ég meina. Þar sem þú
tókst því mátulega trúanlega var
tekin spyrna, sem hófst á þínum
enda og endaði á mínum. Um úr-
slitþess glæfraaksturs verður ekki
fjölyrt hér.
Í Vogaskóla vorum við að sjálf-
sögðu. Þegar honum sleppti opn-
aði ég hurðina yfir í MS meðan þú
spreyttir þig annars staðar. Þessi
menntaskólaár eru minnisstæð og
þótt við værum hvor í sínum skól-
anum voru samverustundir marg-
ar. Alltaf gott að koma heim til
þín, þar sem Áslaug móðir þín tók
á móti manni með hlýju og um-
burðarlyndi gagnvart þeim nátt-
úruseyðum sem við tókum inn
annað slagið með tilheyrandi lát-
um. Síðan lá leiðin í Fræðina, eins
og þú kallaðir hana alltaf. Var sem
sagt viðskiptafræðin sem við
nokkrir félagarnir ákváðum að
glíma við. Kom í ljós að eitthvað
hefði menntaskólinn mátt búa
okkur betur undir það nám. En
líklega var það ekki menntaskól-
anum að kenna. Samt var tekist á
við þetta af glettilegri einurð,
hlunkuðumst oft fjórir inn í lítinn
Dæhatsjú, sem ég hafði stundum
til umráða – og hlógum svo vestur
Miklubrautina.
Það einkennir góða vini, að þótt
stundir líði milli funda eru fund-
irnir jafneinlægir fyrir það. Þann-
ig var það hjá okkur. Þú hafðir líka
þann góða mannkost, að leyfa ekki
vinum að hverfa. Þeir voru bara
pikkaðir upp ef þeir ætluðu að
sýna vinskapnum einhverja lin-
kind. Þegar við hittumst var svo
alltaf þetta glott á þér – nánast
byrjaður að hlæja áður en nokkuð
hafði verið sagt. Og stundum hlóg-
um við bara af því hvað það var
eitthvað fyndið að sjá hvor annan.
En þessi léttleiki kom ekki í veg
fyrir, að fáa vini hef ég átt, sem
betra er að tala við um erfiðleika.
Þá tókum við stundum góða
göngutúra og fórum yfir það sem
á bjátaði. Þá fékk maður alla þá
athygli sem þurfti þá stundina.
Tæpir tveir metrar af traustum
vini voru alltaf til staðar.
Ég ætla ekki einu sinni að
reyna að skilja af hverju þú ert
kvaddur burt á þessum tíma-
punkti. En greinilega var það eitt-
hvað aðkallandi sem beið þín
þarna uppi.
Um leið og ég þakka fyrir ein-
staka vináttu, kæri vinur, sendi ég
henni Helgu þinni, Silju, Ástu og
Pétrinum mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Haukur.
Við sögðum alltaf að við hefðum
kynnst í sandkassanum á Barða-
vogsróló og fylgst að í gegnum líf-
ið síðan þá. Ægir reyndist mér
traustur vinur, meira eins og besti
bróðir. Jákvæður og hvetjandi
með sinn húmor og tilsvör sem
gleymast seint. Aldrei bar skugga
á, þannig var hann.
Ægir þurfti mjög snemma að
axla mikla ábyrgð vegna fjöl-
skylduaðstæðna. Áslaug móðir
hans veiktist óvenju ung af Alz-
heimer og Sveinþór faðir hans var
mikið í burtu sem skipstjóri hjá
Sambandinu, en á þeim árum voru
túrarnir taldir í mánuðum. Að
auki var Pétur, eldri bróðirinn,
fatlaður og þurfti mikla umönnun
og aðhald og stofnanakerfið ekki
það sem síðar varð. Eitt af þeim
heilræðum sem Sveinþór gaf Ægi
í veganesti var „ekki láta standa
upp á þig“. Því fylgdi hann alla
ævi. Mjög ræktarsamur við fjöl-
skyldu og vini og dugnaðarforkur í
leik og starfi.
Það var mikið gæfuspor þegar
Ægir ákvað að fara í röðina við
Þjóðleikhúskjallarann eitt sumar-
kvöldið og tók þar Helgu Hönnu
tali. Það kvöld endaði með því að
hann ákvað að lána henni hljóm-
flutningstækin sín sem var stórt
skref fyrir græjukallinn. Fljótlega
fylgdi hann eftir á Ránargötuna
og skildi hamsturinn eftir einan.
Þetta var upphafið að ástríku
sambandi þeirra tveggja. Þegar
dæturnar Ásta og Silja voru
komnar í heiminn steig Ægir ann-
að gæfuspor, ákvað að fara í land
og hætta sem stýrimaður. Gefa
upp á bátinn drauminn um að
fylgja í fótspor föður síns og vinna
sig upp í skipstjórastöðu. Það
gerði hann vegna þess að hann
vildi lifa eðlilegu fjölskyldulífi í
stað þess að endurtaka munstrið
sem þeir Pétur og Áslaug móðir
þeirra upplifðu á sínum tíma.
Hann lifði fyrir stelpurnar og
Helgu og lét ekki standa upp á sig
í þeim málum né neinum öðrum.
Var alltaf fróðleiksfús og forvitinn
um lífið og tilveruna. Sótti sér
MBA-gráðu og dró mig með sér á
nokkur námskeið í Íslendingasög-
um. Útivistarmaður sem hugsaði
vel um heilsuna og því kom sjúk-
dómsgreiningin í lok síðasta árs
eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Var kominn á lygnan sjó í lífinu,
húsið í Hólminum beið eftir að
vera tekið í gegn, dæturnar glæsi-
legu og efnilegu á beinu brautinni
í námi og þau Helga samhent í lífi
og starfi. Lífið var ljúft. „Þetta er
meira vesenið á mér,“ sagði hann
fárveikur, vildi frekar gefa af sér
áfram eins og hann gerði á sinn
hógværa hátt í gegnum lífið.
Elsku Helga, Ásta, Silja og Pét-
ur, við Vala vottum okkar dýpstu
samúð. Far vel, kæri vinur.
Pétur Hjálmtýsson.
Nú ríkir mikil sorg á skrifstofu
Félags skipstjórnarmanna og
Farmanna- og fiskimannasam-
bands Íslands vegna ótímabærs
fráfalls okkar góða vinar og sam-
starfsmanns, Ægis Steins Svein-
þórssonar, sem lést á líknardeild
að morgni annars páskadags eftir
snarpa baráttu við krabbamein.
Ægir hóf störf hjá F.s. og FFSÍ
í mars 2005 á vettvangi hags-
munagæslu og þjónustu fyrir
skipstjórnarmenn undir merkjum
Félags skipstjórnarmanna og
Farmanna- og fiskimannasam-
bands Íslands. Kynnin sem hófust
2005 voru frá upphafi einstaklega
góð. Ægir var fljótur að setja sig
inn í þau fjölbreyttu verkefni sem
undir hann heyrðu. Samskipti,
þjónusta og kjarasamningsgerð
fyrir hönd farmanna, ferjumanna,
hafnsögumanna, skipstjórnar-
manna LHG ásamt undirbúningi
að kjarasamningi fyrir skipstjórn-
armenn við laxeldi og á hvala-
skoðunarbátum. Auk þessa sá
hann um móttöku og afgreiðslu á
öllu því sem sneri að Sjúkra- og
styrktarsjóði Félags skipstjórnar-
manna ásamt ýmsu fleiru sem of
langt væri að nefna í stuttri minn-
ingargrein. Ægir var fljótlega eft-
ir að hann hóf störf kjörinn vara-
forseti FFSÍ og gegndi því
embætti til dauðadags. Vinnudag-
ur okkar hófst oftast nær á stutt-
um spjallfundi þar sem farið var
yfir málefni líðandi stundar þar
sem tekist var á um menn og mál-
efni. Þar kom glöggt fram sú
mikla réttlætiskennd sem ein-
kenndi viðhorf Ægis í garð þeirra
sem eiga undir högg að sækja.
Ekki hvarflaði það að manni að
ferð okkar þriggja, sem störfuðum
með Ægi sem ásamt mökum
heimsóttum Berlín í haust, yrði sú
síðasta sem við nytum saman, en
nú blasir þessi dapurlega stað-
reynd við okkur sem eftir stönd-
um. Þessi hávaxni, gerðarlegi
maður sem gengið hafði á fjöll,
ræktað líkamann og bar af okkur
sem með honum störfuðum að lík-
amlegu atgervi er fallinn frá.
Með fráfalli hans sannast að
þeir deyja ungir sem guðirnir
elska og afburðamanni eins og
honum eru örugglega ætluð verð-
ug verkefni á nýju tilverustigi.
Skyndilegt brotthvarf þessa góða
drengs fellur algjörlega að þess-
um sannindum. Oft hóf hann
vinnudag sinn með eftirfarandi
orðum þegar hann mætti til vinnu
að morgni dags: Hvernig er stað-
an í þessu jarðlífi? Staðan hvað
okkur varðar sem með Ægi störf-
uðum er fyrst og fremst þakklæti
fyrir vináttu og samstarf öll þessi
ár og að lokum sendum við Helgu,
Ástu og Silju svo og ástvinum öll-
um okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Árni Bjarnason, Guðjón Ár-
mann Einarsson, Sigrún
Arna Aradóttir og makar.
Margt er í minninga
heimi
mun þar ljósið þitt
skína.
Englar hjá guði þig
geymi,
við geymum svo minningu þína.
(Höf.ók.)
Guðrún Finnbogadóttir góð
vina og félagi í Lionsklúbbnum
Eðnu er látin á 93. aldursári.
Hún var stofnfélagi í Lionessu-
klúbbi Akraness árið 1981 og
síðar í Lionsklúbbnum Eðnu,
sem stofnaður var 1997 og var
hún aldursforseti okkar.
Alla tíð var hún virk í störfum
klúbbsins, sat í ýmsum nefndum
og lagði sig fram um að vinna af
alúð að öllum málum. Guðrún
var einstaklega hlý í viðmóti og
brosmild, laðaði að sér unga sem
eldri. Síðustu árin hennar bjó
hún á hjúkrunarheimilinu Höfða
og fækkaði þá smá saman þeim
stundum sem við áttum með
henni. Stöku sinnum fórum við í
kaffi og spjall til hennar og
leyndi sér ekki að hún var alltaf
jafnstolt af veru sinni í Lions.
Slíkir Lionsfélagar, sem Guðrún
var eru aðal hreyfingarinnar.
Við Eðnukonur blessum minn-
ingu elsku Gunnu Finnboga og
þökkum henni samverustundir
liðin ár. Börnum hennar og fjöl-
skyldum þeirra og öllum, sem
þótti vænt um hana vottum við
innilega samúð.
Guðrún
Finnbogadóttir
✝ Guðrún Finn-bogadóttir
fæddist 24. maí
1924. Hún 23. apríl
2017.
Útför hennar fór
fram 2. maí 2017.
Fyrir hönd
Lionsklúbbsins
Eðnu,
Þóra Björk
Kristinsdóttir.
Elsku Guðrún
mín.
Það er alltaf erf-
itt að kveðja þá sem
manni þykir vænt
um en ég hugsa til
þess með hlýju að núna eruð þið
Eiríkur sameinuð á ný.
Frá fyrsta degi höfum við ver-
ið vinkonur og töluðum við oft
um hversu heppnar við værum,
þú ert amman sem allir ættu að
eiga og var ég svo lánsöm að fá
að eiga part af þér, mín kæra.
Þær eru ófáar stundirnar sem
við áttum í kaffi og spjalli á
Vesturgötunni og var þar rætt
allt á milli himins og jarðar, ekki
má gleyma sólstofunni þarf sem
þér fannst svo gott að vera með
blómunum þínum og nostra við
þau.
Burknarnir sem þú gróður-
settir við innganginn á Vestur-
götunni eru þeir fallegustu sem
ég man eftir og alltaf dáðist
maður að þeim þegar við vorum
að koma til ykkar.
Alltaf varstu jákvæð, glöð og
kát og þegar við vorum að heim-
sækja þig inn á Höfða þá tókstu
á móti okkur með bros á vör og
stundum fylgdu með létt dans-
spor, þú hallaðir alltaf höfðinu
og blikkaðir til okkar þegar við
sögðum eitthvað við þig sem þér
fannst gott að heyra og geymi
ég þá minningu í hjarta mér.
Elsku vinkona og (amma),
takk fyrir allt og allt.
Ólöf Linda.
Þann 29. apríl
hefði elskuleg móð-
ursystir mín orðið
sextug ef hún hefði
fengið að dvelja ör-
lítið lengur hjá okk-
ur, en hún lést 1. apríl síðastliðinn
eftir erfiða baráttu við krabba-
mein. Árný frænka hefur alltaf
verið mér fyrirmynd. Þegar ég
var lítil og við bjuggum á Fá-
skrúðsfirði hjálpaði hún mömmu
með okkur systkinin á sumrin.
Frá því að ég var um það bil 6 eða
7 ára vorum við systkinin mikið
hjá ömmu á meðan mamma var í
vinnu og skóla.
Árný var því stór partur af lífi
okkar systkinanna þegar við vor-
um að alast upp. Hún var alla tíð
mjög virk í kristilegu starfi, fyrst
í KFUK og KSS og síðar í starfi
Breiðholtskirkju þar sem Gísli
hennar var sóknarprestur. Hún
tók trúarlegt uppeldi mitt að
mestu að sér, fór með mig í
sunnudagaskólann og síðar í
KFUK þar sem hún var leiðbein-
andi. Einnig fékk ég að fara með
henni í Vindáshlíð áður en ég
hafði náð tilskildum aldri þar sem
hún var í sumarvinnu og tók að
sér að bera ábyrgð á mér á með-
an ég dvaldi þar.
Árný var hér um bil mitt á milli
mín og mömmu í aldri og þegar
okkur mömmu varð sundurorða
fannst mér hún alltaf skilja mig
og hún náði iðulega að róa mig
niður þegar ég tók mín frekju-
köst eða „ákveðniköst“ eins og ég
kýs að kalla þau.
Lengi vel hittist fjölskyldan
alltaf hjá ömmu á jólunum en
Árný Albertsdóttir
✝ Árný Alberts-dóttir fæddist
29. apríl 1957. Hún
lést 1. apríl 2017.
Útför hennar var
gerð 10. apríl 2017.
þegar amma lést tók
Árný við og bauð
okkur systkinunum
til sín á aðfanga-
dagskvöld þar sem
foreldrar okkar
bjuggu erlendis.
Eftir að mamma
flutti aftur heim
skiptust þær systur
á að halda sameigin-
leg jólaboð með öll-
um þeirra afkom-
endum. Þá var margt um
manninn og alltaf glatt á hjalla.
Auk þess stuðlaði Árný að því að
stórfjölskyldan hittist reglulega í
kringum jólin. Síðastliðin jól tók
ég að mér að feta í fótspor hennar
og smala fólki saman, þar sem
Árný var fjarri góðu gamni vegna
sinna veikinda.
Árný hefur alltaf verið gleði-
gjafi, húmoristi og bara almennt
séð besta frænka sem hægt er að
hugsa sér og hennar er sárt sakn-
að.
Ég mun tendra ljós í minningu
þína, elsku frænka, í tilefni sex-
tugsafmælisins og knúsa fólkið
þitt. Nú ert þú komin til frelsara
þíns og lausnara sem stóð þér við
hlið og styrkti í baráttunni við
þennan illvíga sjúkdóm og til
ömmu og afa sem munu án efa
taka vel á móti þér.
Ég læt upphafs- og lokaversið
úr ljóðinu Minning eftir Ingi-
björgu Gunnarsdóttur fylgja með
þakklæti fyrir samfylgdina:
Sumir hverfa fljótt úr heimi hér.
Skrítið stundum hvernig lífið er.
Eftir sitja margar minningar,
þakklæti og trú.
Og þegar tími minn á jörðu hér
liðinn er, þá er burt ég fer,
þá ég veit að þú munt vísa veg
og taka á móti mér.
Drífa Björk Guðmundsdóttir.