Morgunblaðið - 07.01.2018, Blaðsíða 21
FRÉTTIR 21Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2018
Ráðstefnan „Þögnin, skömmin og
kerfið“ var haldin í Háskólanum í
Reykjavík í gær, en þar var fjallað um
nauðgun í víðu samhengi. Fjöldi
fræðimanna, sálfræðinga og lög-
manna og fulltrúa lögreglu fluttu er-
indi, ásamt öðrum sem starfað hafa
með brotaþolum.
„Þarna talar fjöldi fagaðila saman
og lýsir sinni sýn á þessu. Ég held að
allir fagaðilar græði á því að eiga
samtal hver við annan,“ segir Helga
Vala Helgadóttir, lögmaður og al-
þingismaður, en hún flutti erindið
„Viðhorf og viðmót. Reynsla og sýn
réttargæslumanns“ á ráðstefnunni.
Sjálf hefur hún verið lögmaður á
Neyðarmóttöku Landspítalans í
nokkur ár. „Við erum í þeirri stöðu að
geta verið í góðum tengslum við alla
aðila, hjúkrunarfræðinga, lækna,
löggur, af því að við fylgjum brota-
þola öll skrefin.“ Helga Vala segir til-
ganginn með ráðstefnu eins og þeirri í
dag, sé að efla þjónustu við brotaþola.
„Tilgangurinn er alltaf að efla þjón-
ustuna, að gera málsmeðferðina fag-
legri sem á að leiða til þess að fleiri
mál sem upplýsist, af því að það er
líka forvörn í því.“
Hún telur hlutverk réttargæslu-
manns vera fyrst og fremst að gæta
hagsmuna brotaþola, en það sé vissu-
lega hægt að nýta stöðu réttargæslu-
mannsins til að tengja saman þá fag-
aðila sem komi að málsmeðferð
kynferðisbrotamála.
„Réttargæslumaður er lögmaður,
alltaf, og hlutverk lögmannsins er að
gæta hagsmuna brotaþola í gegnum
allt ferlið,“ segir Helga Vala m.a.
Að hennar mati er afar mikilvægt
að halda vel utan um brotaþola í með-
ferð kynferðisbrotamála, ekki síst
vegna hversu viðkvæm málin er, en
einnig vegna veikrar stöðu brotaþola.
„Aðild brotaþola í sakamálum er svo
veik af því að brotaþolar eru vitni í
eigin málum.“
Helga Vala segir brotaþolann vera
á kantinum á meðan ákæruvaldið,
það er hið opinbera, lögregla eða sak-
sóknari, og ákærði, eða sakborning-
ur, eru miðja málsmeðferðar nauðg-
unarmála. „Brotaþolinn kemur inn í
mál sem vitni sem er mjög sérstakt,
hann upplifir sig stundum svolítið
hliðsettan þó að málið varði árás á
viðkomandi. Það er svolítið skrýtin
staða.“
Stofnanir og félagasamtök
stóðu að ráðstefnunni
Ráðstefnan var haldin á vegum
lagadeildar og sálfræðisviðs Háskól-
ans í Reykjavík í samstarfi við Rann-
sóknamiðstöð gegn ofbeldi við HA,
lögreglustjórann í Vestmannaeyjum,
lögreglustjórann á höfuðborgarsvæð-
inu og Aflið – Samtök gegn kynferðis
og heimilisofbeldi. Ráðstefnan stóð
frá kl. 13 til 17 og ráðstefnustjóri var
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómari
við Hæstarétt Íslands. Svala Ísfeld
Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR,
setti ráðstefnuna og Sigríður Á. And-
ersen dómsmálaráðherra flutti ávarp.
Á dagskrá voru eftirtalin erindi auk
erindis Helgu Völu: „Ég ætlaði ekki
að segja neinum frá.“ Hindranir og
hvatar til að segja frá sem Bryndís
Björk Ásgeirsdóttir dósent og Rann-
veig S. Sigurvinsdóttir, nýdoktor við
sálfræðisvið HR fluttu. „Ég var köll-
uð lygari og fleira þaðan af verra“.
Ákvörðun um að kæra nauðgun flutt
af Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósent við
lagadeild HR. „Ég vissi að það myndi
enginn trúa mér, því ég er karlmað-
ur,“ sem Sigrún Sigurðardóttir, lekt-
or og formaður Rannsóknamiðstöðv-
ar gegn ofbeldi við HA, flutti. „En,
hvað ef þetta var mér að kenna?“ flutt
af Jokku G. Birnudóttur, starfskonu
hjá Aflinu. Erindi um vilja til að mæta
þörfum brotaþola var flutt af Sigríði
Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra
á höfuðborgarsvæðinu. Reynslusaga
var flutt rétt fyrir kaffihlé. „Ég missti
allan kraft og lamaðist af hræðslu“,
viðbrögð við nauðgun var flutt eftir
hlé af Svölu Ísfeld Ólafsdóttur og
Guðrúnu Katrínu Jóhannesdóttur fé-
lagsfræðingi. „Ætti ég að kæra?“Á-
skoranir þolenda sem leita á Neyð-
armóttöku við ákvörðun um kæru var
flutt af Berglindi Guðmundsdóttir, yf-
irsálfræðingi sálfræðiþjónustu Land-
spítala og dósent við læknadeild HÍ.
Jón H.B. Snorrason, saksóknari
við embætti ríkissaksóknara, flutti
erindið „Pressar lögreglan um of á
þolendur að kæra?“ Erindið „Lög-
gæsla í þágu þolenda.“ var flutt af Pá-
leyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra
í Vestmannaeyjum, og síðasta erind-
ið: „Trúið þið mér ekki?“ flutti Sigríð-
ur Hjaltested héraðsdómari. Í lok
málþingsins fóru fram umræður og
málþinginu var síðan slitið.
Ræddu um þögn og
skömm á ráðstefnu í HR
Fagaðilar komu saman og fjölluðu um nauðganir
Morgunblaðið/Hari
Ráðstefna Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti ávarp.