Morgunblaðið - 25.06.2018, Blaðsíða 16
16
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 25. JÚNÍ 2018
Stundum erengu líkaraen að fínir
fjölmiðlar og virtir
ráði ekki við ósk-
hyggju sína. Vest-
ur í Bandaríkjunum var mikill
meirihluti þeirra algjörlega
viss um það að Donald Trump
myndi aldrei fá kjör sem forseti
Bandaríkjanna. Það dytti eng-
um með fullu viti í hug að kjósa
hann. Þessir sjálfsefjuðu fjöl-
miðlar ýttu undir Trump í próf-
kjöri repúblikana. Þeir sáu
Trump fyrir endalausum bein-
um útsendingum frá stórfund-
um hans með einkaþotuna risa-
vöxnu í baksýn. Ekki heyrðist
hósti eða stuna frá Hillary
Clinton eða kosningastjórn
demókrata yfir þessari „þjónk-
un“ og ókeypis útsendingum
fyrir þann frambjóðanda sem
síst þurfti á því að halda að fá
hlutina frítt. Hún vissi að
„þjónkunin“ kom ekki til af
góðu. Demókratar voru sam-
mála fjölmiðlunum um að ynni
Trump prófkjör repúblikana
eftir að hafa uppnefnt og traðk-
að á 18 hæfum frambjóðendum
væri komin upp óskastaða fyrir
þá í bandarískum stjórnmálum.
Hinn hlutlausi yfirrannsakandi
FBI á tölvumálum Hillary og
síðan á „rússagaldri“ Trumps,
Peter Strzok, fullyrti að ekki
mundi nokkur vitiborinn maður
kjósa Trump í forsetakosning-
unum!
Demókratar töldu (og ýmsir
flokkshestar repúblikana) að
bóka mætti sem öruggt að tæk-
ist Trump að vinna prófkjörið,
myndi flokkurinn koma
sprunginn og tættur inn í sjálf-
ar forsetakosningarnar. Það
yrði því formsatriði fyrir
Hillary að vinna þær.
Fylgiskannanir ýttu sann-
arlega undir það mat. Og vissu-
lega var Repúblikanaflokkur-
inn vankaður í upphafi barátt-
unnar. En Donald Trump gerði
ekkert með það. Hann hélt sínu
striki og það strik virtist ekki
endilega sigurstranglegt, að
mati hefðbundnu stjórnmála-
fræðinganna. Repúbikanar
börðu í brestina enda áttu þeir
ekki annan kost.
Hinn ómögulegi og ófyrir-
séði sigur Trumps er aðal-
ástæðan fyrir þeim tryllingi
sem andstæðingar hans eru
enn haldnir og þá ekki síst fjöl-
miðlarnir sem hafa áratugum
saman stutt demókrata, en ver-
ið hlutlausir að öðru leyti. Þótt
senn séu tvö ár frá kjöri
Trumps og samsæriskenningin
um Rússana sé orðin grátleg
dregur lítt úr tilfinningalegum
tryllingi.
Nú er svo komið að sendar
eru sveitir á vettvang með
tilbúin spjöld frá auglýs-
ingastofum ef boð berast um
það að embættismenn Hvíta
hússins sitji að
snæðingi í veit-
ingahúsi með fjöl-
skyldum eða vin-
um. Slík skrílslæti
eru óþekkt í
Bandaríkjunum. Sumir fjöl-
miðlar kalla þau eins og kjánar
„viðbrögð almennings“. Trump
er sannfærður um að slík læti
styrki stöðuna í kosningunum í
nóvember. Þá skiptir höfuðmáli
að fá kjósendur á kjörstað.
Fréttir af persónulegum árás-
um í „fenjamýrum höfuðborg-
arinnar“ séu líkastar útkalli til
að fá kjósendur Trumps til að
kjósa, þótt hann sé ekki í kjöri
nú.
En óskhyggja fréttaskýr-
enda sést víðar. Nú síðast í
tyrknesku kosningunum.
Síðustu vikur hafa evrópskir
fjölmiðlar lagt vaxandi áherslu
á að vindar væru að snúast í
Tyrklandi. Nú teldu ýmsir að
veldi Erdogans gæti hrunið í
kosningunum. Loksins hefði
verðugur andstæðingur farið í
framboð og um hann myndu
andstæðingar forsetans sam-
einast. Stækkandi hópur væri
kominn með upp í kok vegna
valdasöfnunar og ofríkis. And-
stæðingum forsetans væri
hrúgað í þúsundatali í fangelsin
með vísun í valdaránið, þótt
útilokað væri að svo margir
hefðu komið að því. Enda hefði
það þá spurst út fyrirfram.
En eins og aldrei gleymist þá
frétti Erdogan sjálfur ekki af
valdaráni hersins fyrr en
sprengjuþotur stefndu að
sumarhöll hans. Það var sím-
hringing frá Pútín, forseta
Rússlands, sem gaf Erdogan
ráðrúm til að komast út úr
skotmarkinu. Engu mátti
muna. Erdogan náði svo að
brjóta byltinguna á bak aftur
með algjörlega einstökum
hætti. Eftir slíka atburðarás
þarf ekki að undra að þungt sé
lengi í forseta Tyrklands. En
það afsakar þó ekki hversu
hörð og víðtæk viðbrögðin hafa
verið. Þau viðbrögð, samfara
vaxandi kúgun og offorsi, hafa
ýtt undir skiljanlega óskhyggju
fjölmiðla, sem eru öðru vanir.
En óskhyggjan kom ekki upp
úr kössunum. Raunveruleikinn
gerði það. Erdogan vann í
fyrstu atrennu og var með
helmingi fleiri atkvæði en aðal-
andstæðingur hans. Seinni um-
ferð kosninga var því óþörf.
Ásakanir um kosningasvindl
vakna sjálfsagt. Þær verða
seint sannaðar og eru reyndar
ólíklegar. En þar sem fjöldi
blaðamanna er á bak við lás og
slá og bíður yfirheyrslna og
dóms vegna aðildar að valda-
ráni og starfsbræðurnir óttast
sömu örlög er á mikinn bratta
að sækja. En innstæðulaus ósk-
hyggja eykur aðeins von-
brigðin.
Óskhyggjan og
úrslit kosninganna
áttu ekki samleið}
Óskhyggja ónýt heimild
BAKSVIÐ
Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
Vandinn er margþættur ogspilar þar inn í bæðistarfsumhverfi og launa-mál,“ segir dr. Sigrún
Gunnarsdóttir, dósent við við-
skiptafræðideild Háskóla Íslands
og Háskólans á Bifröst. Vísar hún í
máli sínu til skorts á hjúkrunar-
fræðingum hérlendis, en Sigrún
segir að áætlað sé að nú þegar
vanti um 500 hjúkrunarfræðinga til
starfa í landinu.
Að sögn Sigrúnar er skortur á
hjúkrunarfræðingum ekki nýr af
nálinni enda hafi fyrstu viðvör-
unarljós kviknað fyrir um 20 árum.
Í doktorsritgerð Sigrúnar um
stjórnun og starfsánægju hjúkr-
unarfræðinga á Landspítala sem
birt var fyrir 13 árum var þessi
vandi til skoðunar. Niðurstöður
rannsóknarinnar á Landspítala
voru bornar saman við niðurstöður
í öðrum löndum. Þrátt fyrir að nið-
urstöður hér á landi væru að
mörgu leyti mjög jákvæðar voru
greinileg merki um neikvæða þró-
un í starfsmannamálum á Land-
spítala. Sigrún segir að þróunin
hafi haldið áfram síðan þá og nú sé
svo komið að bregðast þurfi við af
festu og samtakamætti.
Kallar á margþættar lausnir
„Þetta hefur verið að þróast í
mörg ár og ástæðurnar þar að baki
eru margar. Launin hafa mikið
verið nefnd í umræðunni en þau
eru bara eitt fjölmargra atriða. Frá
mínum bæjardyrum séð og sam-
kvæmt rannsóknum hérlendis og
erlendis skiptir starfsumhverfi
miklu máli, t.d. vinnutími, aðbún-
aður, stjórnun, samskipti, áhrif á
eigin störf og tækifæri til að þróa
sig í starfi,“ segir Sigrún og bætir
við að laun hjúkrunarfræðinga end-
urspegli ekki menntun, álag og
ábyrgð starfsins. Þá sé stór hluti
vandans sá að um 1.000 menntaðir
hjúkrunarfræðingar starfi utan
heilbrigðisgeirans.
„Ef við myndum fá allt þetta
fólk til að koma og vinna sem
hjúkrunarfræðingar væri vandinn
leystur. Það er hins vegar ástæða
fyrir því að þetta fólk starfar utan
geirans og það þarf að laga,“ segir
Sigrún.
Spurð um hvað sé til ráða seg-
ir Sigrún að margþættum vanda
þurfi að mæta með margþættri
lausn. „Það þarf að fjölga í stétt-
inni, auka innspýtingu fjármagns
og endurskoða starfsumhverfið.
Þetta þarf hins vegar að skoða
gaumgæfilega svo vel sé gert,“
segir Sigrún, en að hennar sögn
eru hjúkrunarfræðingar með um
20% lægri laun en sambærilegar
stéttir.
Sigríður Gunnarsdóttir, fram-
kvæmdastjóri hjúkrunar á Land-
spítala, segir að skortur á hjúkr-
unarfræðingum einskorðist ekki við
Ísland. „Þetta er alþjóðlegt vanda-
mál sem bregðast þarf við með
markvissum aðgerðum. Það hefur
ýmsum tekist vel til í þeim málum,
t.d. Bandaríkjamönnum. Stjórnvöld
þurfa hins vegar að stíga fyrsta
skrefið með aðgerðaáætlun,“ segir
Sigríður og bætir við að auka þurfi
nýliðun enda sé áhuginn svo sann-
arlega til staðar. Nú í sumar sóttu
samtals 435 manns um laust pláss í
hjúkrunarfræði við Háskólann á
Akureyri og Háskóla Íslands í
haust. Færri komust að en vildu,
en alls sátu 255 eftir með sárt enn-
ið. „Á sama tíma og við bætum
við fólki þarf að
bæta kaup og kjör,
vinnutíma og vinnuaðstæður
hjúkrunarfræðinga, bæði til
að halda í þá sem þegar eru í
starfi og eins til að laða
hjúkrunarfræðinga til starfa
sem í dag sinna öðrum störf-
um,“ segir Sigríður.
Langvarandi vandi
sem kallar á lausnir
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Hjúkrunarfræðingur Að sögn sérfræðinga þarf að takast á við langvar-
andi alvarlegan skort á hjúkrunarfræðingum með margþættum lausnum.
Á síðasta löggjafarþingi lagði
Oddný G. Harðardóttir, þing-
maður Samfylkingar, fram
fyrirspurn um hvernig stjórn-
völd ætluðu að bregðast við
skorti á starfandi hjúkrunar-
fræðingum hérlendis. Í svari
Svandísar Svavarsdóttur heil-
brigðisráðherra kom fram að
nauðsynlegt væri að tryggja að
fjöldi heilbrigðisstarfsmanna
sé í samræmi við þjónustu- og
öryggisstig heilbrigðisstofn-
ana.
Þá sé ráðgert að farið verði í
gerð mannaflaspár fyrir heil-
brigðiskerfið til næstu 5-10
ára. Að því loknu verði hægt
að móta leiðir í samvinnu
við fagstéttir í þeim til-
gangi að skapa eftir-
sóknarverðan starfs-
vettvang fyrir
heilbrigðisstarfsfólk
og betri
heilbrigðis-
þjónustu.
Ætla sér að
bregðast við
BÆTT STARFSUMHVERFI
Oddný G.
Harðardóttir
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
L
ífið er saltfiskur segir einhvers
staðar. En hvað er lífið fyrir
þig, hvað er lífið fyrir mig? Ég
valdi mér ákveðið hlutverk
seint og um síðir. Ég verð að
viðurkenna að það var ekkert í áttina að
því sem ég hafði hugsað mér. Nei, það ein-
hverra hluta vegna þróaðist í risastóra
hugsjón þar sem fjölskyldur og fátækt fólk
spiluðu stærsta hlutverkið. Ég trúði því
vart að hér væri ríkjandi önnur eins fátækt
og örbirgð og raun ber vitni.
Bæði hlakkaði til og kveið fyrir. Við sex
manna fjölskyldan vorum að flytja suður til
Reykjavíkur vegna þess að ástin mín eina
var að ljúka námi í rafeindavirkjun. Það er
ekki eins og allir hafi hlakkað til að flytja úr fallega
firðinum okkar Ólafsfirði, ó nei, börnin okkar grétu
og vildu ekki fara.
Ég lít í anda liðna tíð segir í ljóðinu fagra. Það er
það sem ég geri líka. Hvernig get ég mögulega gert
meira gagn, hvernig get ég mögulega hjálpað öllum
þeim sem þurfa svo sárlega á hjálp minni að halda?
Í þessum litla pistli langar mig að stíga út fyrir
rammann, vera ég með ykkur sem mér þykir svo ofur
vænt um og langar að helga ykkur það sem eftir er
af mér, hugsjóninni um kærleika og ást.
Staðreyndin er sú að án ykkar get ég
ekkert. Það er alfarið í ykkar höndum að
planta mér þar sem þið viljið að ég beri
ávöxt. Í mínum huga er það óskiljanlegt
hvernig mögulegt er að velja til valdsins
aðila sem alfarið vinna að sérhags-
munagæslu í stað þess að huga að al-
mannahag. Hvernig má það vera að tæp-
lega 10% barnanna okkar líða hér
mismikinn skort og það í boði kjósenda
sem láta sér fátt um finnast!
Ég get ekki með nokkru móti skilið
hvernig mögulegt er að kjósa yfir sig
stjórnvöld sem kúga og pína fólkið sitt.
Sem lofa bót og betrun en standa ekki við
neitt. Stjórnvöld sem segja að fátækt fólk
geti ekki beðið eftir réttlæti en samt bíður það enn
og örbirgðin einungis vex. Að hugsa sér að í okkar
ríka landi þar sem talið er að smjörið drjúpi af
hverju strái skuli vera tugir þúsunda samlanda okkar
sem hrópa á hjálp.
Ég segi enn og aftur: „Tökum saman höndum hvar
í flokki sem við stöndum, útrýmum fátækt í fallega
landinu okkar og gerum það saman.“
ingasaeland@althingi.is
Inga Sæland
Pistill
Lífið er saltfiskur
Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen