Skírnir - 01.04.2011, Blaðsíða 61
SKÍRNIR
HALLDÓR LAXNESS OG ...
59
þeim tíma meðan þeir lifðu á graut, eða hátt í tvöþúsund árum
seinna, í furstadæmi uppí sveit í Þýskalandi, þar sem geheimráð
voru haldin ofar mönnum ..." (HS 30). Annars staðar telur Halldór
eddukvæðin til orðin á tímum bókvits, en það virðist mér ekki
skipta miklu máli. Ef þau voru ort á ritmáli, var það hvort eð er í af-
skekktu, borgalausu og miðstjórnarlausu bændaþjóðfélagi; og „al-
skapaðar" eru líka að hans mati sumar Islendingasögur. Með þessu
er gefið í skyn, þótt hvergi sé fullsagt, að algildar reglur listsköp-
unar geti náð sígildu stigi í tiltölulega einföldu en annars mismun-
andi þjóðfélagsumhverfi. Allt bendir til þess að Halldór líti á þetta
sem frumfyrirbæri (Urphanomen, svo að notað sé orðalag Speng-
lers), og þar með sem endimörk allra söguskýringa. Sú hugmynd er
augljóslega ekki óskyld hugleiðingum hans um listsköpunina sem
„kjarna hlutanna".
5. Frá þessari nálgun liggur engin leið til annarra sjónarmiða.
Enn er þó eftir að geta eins efnisþráðar í skrifum Halldórs um forn-
sögur og rætur þeirra; sá þáttur málsins er í sérflokki og tengist ekki
bókmenntasögu sem slíkri á sama hátt og hinir fjórir. Trúarheimur
norrænna manna fyrir kristni var, eins og áður er getið, þegar til
umræðu í „Minnisgreinum um fornsögur“. Halldór hélt áfram að
velta þessu rannsóknarefni fyrir sér; í síðari ritgerðum er örlagatrúin
ekki lengur lykilatriði, en í þess stað koma fram nýjar hliðar á
heiðnu trúarlífi. Ytarlegust verður umfjöllun Halldórs í ritgerðinni
„Forneskjutaut“, skrifaðri 1973. Tvennt er þar athyglisvert. Annars
vegar bendir Halldór á þau beinu og óbeinu áhrif, sem kristin
guðfræði og kirkjuskipan hafa haft á síðari tíma hugmyndir um
heiðindóm (síðastnefnda orðið verður af þeim ástæðum að teljast
vafasamt, og Halldór talar gjarnan um forneskju). Þessi aðlögun að
kristnum forsendum hefur komið fram á tvennan hátt: úr heiðnum
dómi verður hliðstæða eða róttæk andstæða kaþólskunnar. Líkindin
eru efst á blaði þegar siðaskiptunum er lýst sem átökum tvenns
konar rétttrúnaðar; þeir sem gera meira úr gagnstæðum eiginleikum
leggja oft heiðindóm og fjölgyðistrú að jöfnu. Þessi kristnitengdu
viðhorf hafa aldrei verið bundin við kristilega sannfæringu, og
skipta enn svo miklu máli að gagnrýni Halldórs á erindi til fleiri les-
enda en þeirra sem fást við norræn fræði. Kristin viðmið og rök