Skírnir - 01.04.2011, Blaðsíða 42
40
JÓHANN PÁLL ÁRNASON
SKÍRNIR
Öll þessi umræðuefni tengir Halldór við fjórða sjónarmiðið og
fer þar með út fyrir takmörk hefðbundinnar sagnfræði. Oswald
Spengler er hvergi nefndur í „Minnisgreinum um fornsögur", en
mér virðast áhrif hans á nálgun Halldórs engu minni en í Alþýðubók-
inni hálfum áratug áður. Enn sem fyrr er þó augljóst, að Halldór
vill endurskoða nokkur lykilatriði í sögutúlkun Spenglers og færa
rök að sínum eigin niðurstöðum. I Alþýðubókinni var reynt að sýna
fram á að hnignun Vesturlanda næði ekki til Islands; í „Minnis-
greinum um fornsögur“ er fortíð vestrænnar menningar endur-
metin, að vísu á sömu forsendum og þeim sem Spengler tók gildar,
og hlutur norræna heimsins í henni gerður stórum veglegri en í
Untergang des Abendlandes. En því til stuðnings sem hér fer á eftir
er rétt að minna á meginatriðin í lýsingu Spenglers á vestrænum
miðöldum sem vaxtarskeiði hinnar fástísku menningar. Hann telur
hvorki samkristna né sérkristna menningu hafa verið til (og hvort
söguhetjan sem fástísk menningareinkenni bera nafn af getur talizt
fullkristin er a.m.k. álitamál). Kristna heiminum er skipt í tvö aðal-
sögusvæði, mörkuð af gerólíkum hámenningum, magískri eða arab-
ískri og fástískri. Sú þriðja var að dómi Spenglers í mótun í Rúss-
landi, en það er önnur saga. Menningin sem hann kallaði magíska eða
arabíska varð til á fyrstu öldum okkar tímatals í löndunum um-
hverfis eystri hluta Miðjarðarhafs; til hennar teljast bæði frum-
kristindómur og íslam, og áhrifasvæði þeirra nær til vesturhluta
rómverska heimsins fyrir og eftir upplausn keisaravaldsins á þeim
slóðum. Eím anda eða heimsmynd þessarar menningar þarf ekki að
fjalla hér. Spengler verður tíðrætt um hellinn sem heimstákn (die
Welt als Höhle)w, og áherzlan á lokað rúm og leyndardóma þess
sýnir bezt hve andstæð hin magíska heimssýn er þeirri sem síðar
varð ráðandi á Vesturlöndum. Báðar þessar menningarheildir
10 Spengler 1972: 225. Spengler lýsir andstæðunum milli magískrar og fástískrar
menningar frá ýmsum hliðum, en meginatriðið er það að í hinum magíska heimi
getur — vegna óskoraðrar undirgefni trúarsamfélagsins undir æðri máttarvöld
— ekki orðið til það sem hann kallar hið hugsandi, trúandi og vitandi sjálf (das
denkende, glaubende und wissende Ich — 844). Heimssýn hins vestræna kristin-
dóms, sem stuðlaði að tilurð sjálfsins — og þar með fástískrar menningar — er
gerólík frumkristindómnum (Spengler kallar hann Jesusreligion), þótt ýmis hug-
tök, siðir og helgisagnir séu sameiginleg.