Skírnir - 01.04.2012, Síða 6
Frá ritstjóra
Forseti Hins íslenska bókmenntafélags, Sigurður Líndal, varaði við því í nýlegri grein
að pólitísk umræða í íslensku þjóðfélagi einkenndist sífellt meira af merkingarleysi;
hún væri borin uppi af kappræðu fremur en rökræðu, en þegar rökum væri beitt
væri það iðulega rök gegn manni fremur en málefni, og þar með skólabókardæmi
um rökþrot. Skírnir hefur alla tíð verið óhræddur við að fást við málefni liðandi
stundar en jafnan í því skyni að efna til rökræðu fremur en pólitískrar þrætubókar.
Þegar þetta hefti Skírnis birtist er stutt í forsetakosningar þar sem óvenju margir
frambjóðendur gefa kost á sér, auk þess sem mikil umræða hefur verið um nýja
stjórnarskrá og tillögur þar að lútandi. í Skírni er að finna þrjár greinar þar sem rætt
er um valdsvið forseta, sögulega þróun embættisins og tillögur stjórnlagaráðs, eftir
ólíka höfunda með ólíkar áherslur: Svan Kristjánsson, Eirík Bergmann og Þorvald
Gylfason. Vonandi geta þessar greinar stuðlað að vitlegri rökræðu um íslenska
stjórnskipan og hlutverk embættis forseta íslands.
Að öðru leyti er efni Skírnis með fjölbreyttasta móti. Helga Kress skrifar grein
um landið, skáldskapinn og konuna í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar sem á eftir að
breyta sýn okkar á skáldið. En bókmenntir halda sem betur fer áfram að hreyfa við
okkur; t.d. hafa allnokkrar umræður spunnist um fyrirmynd aðalpersónunnar í
síðustu skáldsögu Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000°. Alda Björk Valdimars-
dóttir, sem skrifað hefur bók um verk Hallgríms, ber saman skáldsöguna og ævi-
söguna Ellefu líf. Guðmundur Arason biskup hefur löngum verið íslendingum
ráðgáta, en hér leitast Hjalti Hugason við að greina hann út frá meðferðarfræðum nú-
tímans. Að skilja heiminn og sjálfan sig í heiminum, nefnist grein Sigríðar Dúnu
Kristmundsdóttur um mannfræðinginn Claude Lévi-Strauss sem rituð er í tilefni af
útgáfu þýðingar Péturs Gunnarssonar á höfuðverki hans, Regnskógabeltinu rauna-
mxdda. Ennfremur er í Skírni forvitnileg og rökstudd tilgáta Ragnars Jóhannssonar
um afdrif Staðarbræðra, sem löngum hafa verið íslendingum hugleikin, Atli Harðar-
son vekur máls á álitaefnum um Aðalnámskrá framhaldsskóla og ritstjórinn skrifar
um nýja ævisögu Gunnars Gunnarssonar, þótt honum sé málið skylt — eða kannski
þess vegna.
Að þessu sinni er farin önnur leið með þáttinn myndlistarmaður Skírnis. Þekkt-
asti núlifandi málari íslendinga, Erró, verður áttræður í sumar og af því tilefni báðum
við Danielle Kvaran, sem er allra fróðust um listamanninn, að skrifa um uppáhalds-
verk sitt eftir hann.
Þetta er síðasta hefti Skírnis sem ég ritstýri. Ég vil nota tækifærið og þakka höf-
undum og lesendum ánægjuleg kynni, forráðamönnum Hins íslenska bókmennta-
félags það traust sem mér hefur verið sýnt, og Agli Baldurssyni og Þorvaldi
Kristinssyni sérstaklega ánægjulegt samstarf.
Góða skemmtun!
Halldór Guðmundsson