Skírnir - 01.04.2012, Page 14
12
HELGA KRESS
SKÍRNIR
texti, fjallar um sjálfa sig á skrifandi stund. Þetta kemur skýrt fram
þegar frændinn hefur með aðstoð systurinnar náð takmarki sínu,
grösunum, en þá stígur hann út úr sögunni og ávarpar lesendur sína
sem höfundur hennar: „Ég vonast til að sumir af lesendum mínum
muni til sín þegar þeir hafa í fyrsta sinni fundið svo mikil grös að þeir
væru vissir um að geta tekið þar byrði sína fyrirhafnarlaust að
kalla." (I, 287) Hér kemur hann fram sem hróðugur höfundur
spennandi sögu sem hann opinberar lesendum sínum, andstætt
systurinni sem felur kvæði sitt og biður eina lesandann að segja
engum. Urdrátturinn „fyrirhafnarlaust að kalla“ er írónísk viður-
kenning á nauðsynlegri fylgd systurinnar því án hennar hefði „litli
frændinn“ hvorki komist á fjallið né getað fyllt peysuna sína af
grösum — og í yfirfærðri merkingu af skáldskap.
Sjálfsmynd sína sem skáld sækir hann til hennar. Hún kann
þýsku, tungumál skáldskaparins, sem hann kann ekki en biður
hana að kenna sér: „Þú átt gott að geta skilið þjóðverskuna og það
væri vel gert af þér að kenna mér dálítið líka. Mér er kvöl í að skilja
ekkert af því sem þeir hafa gert, hann Schiller og aðrir á Þjóðverja-
landi.“ (I, 293) Með því að miðla honum af þekkingu sinni opnar
hún honum leið að heimsbókmenntunum. Einnig er hún fyrsti
gagnrýnandi hans, kallar vísurnar um sig „bull“ (I, 294) og þýð-
ingin á kvæði Oehlenschlágers finnst henni tilgerðarleg og dauf:
„það er nokkurs konar indæl og barnaleg angurblíða í öllu frum-
kvæðinu og hennar sakna ég mest hjá þér, frændi minn!“ (I, 292) Þá
verður hún að sitja þétt við hliðina á honum, „en þó svo, að ég sæi
vel framan í hana því þá gekk mér alltént betur að segja frá“ (I, 288).
Þannig speglar hann sig ekki aðeins í því sem hún segir heldur
einnig í andliti hennar og svipbrigðum. Þá kemur fyrir að skáld-
legar lýsingar hennar flæða yfir í skrifaðan texta hans eins og þær
væru hans eigin skáldskapur. Þetta má m.a. sjá í lok langrar lýsingar
á fallegu útsýni þar sem sjónarhornið færist smám saman frá
skýjunum yfir gróðursælu landslaginu í byggð að blámanum og
sólskininu í fjarska:
Lengra í burtu var að sjá fagurblá fjöll með sólskinsblettum og það breiddi
nokkurs konar gleðiblæ yfir allt hitt eins og þegar vonin skín yfir rósama
lífstund góðs manns.