Skírnir - 01.04.2012, Side 26
24
HELGA KRESS
SKÍRNIR
er sonnetta, sú fyrsta á íslensku. í henni fer saman útlent form og ís-
lenskt efni, og er eins og Jónas vilji með þessu upphefja, eða sameina,
þessar andstæður, Island og útlönd, sem verða að einu í ljóðinu.
Þetta einkennir fleiri ljóð Jónasar, eins og t.a.m. „Gunnarshólma“
sem með lýsingum á íslensku landslagi er að hluta til terzína, eins og
Divina Commedia Dantes, sú fyrsta á íslensku.45 „Eg bið að heilsa“
er kveðja og kemur fjarlægð þess sem í ljóðinu talar, skáldsins er-
lendis, því strax fram í heiti þess. Ljóðið er í senn ástarljóð og ætt-
jarðarljóð, sprottið af aðskilnaði frá landi og konu og þrá eftir þessu
tvennu. Það sem vekur upp þrána eru vorvindarnir þegar náttúran
lifnar og allt stefnir „heim að fögru landi Isa“ (I, 196) nema skáldið
sem kemst ekki. I staðinn sendir það kveðju sem er kvæðið sjálft.
Hann ákallar fyrst vindana og bárurnar sem hann gefur rödd skáld-
skaparins, blíðan róm: „Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum“ (I,
197), en þrengir síðan sjónarhornið að þrestinum, sem er bæði far-
fugl og söngfugl, þ.e. skáld, og biður hann fyrir sérstaka kveðju, en
hún hljóðar svo í eiginhandarriti Jónasar:
Söngvarinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegarleysu
í lágan dal að kveða kvæðin þín,
heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og grænan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! Það er stúlkan mín.46
45 Gott yfirlit yfir bragarhætti Jónasar má fá í ritinu Arfur og umbylting: Rannsókn
á íslenskri rómantík eftir Svein Yngva Egilsson (1999:315-364).
46 Jónas Hallgrímsson 1965:183.1 bréfi til Jónasar, dagsettu í Kaupmannahöfn 10.
apríl 1844, þakkar Brynjólfur Pétursson honum fyrir kvæðið um leið og hann
leggur til breytingar og eru það einkum stúlkan og fuglinn, tvær miðlægustu
myndir kvæðisins, sem verða fyrir barðinu á þeim: „Konráði þykir engillinn vera
of kímilegur, en orðið ,söngvari‘ líkar okkur ekki“ (Brynjólfur Pétursson 1964:
49). Við prentun ljóðsins í Fjölni 1844 hafði fuglinum verið breytt í vorboða (og
þar með dregið úr eiginleikum hans sem skálds), lágum dal í sumardal (fuglinn
látinn boða vor um sumar) og engillinn klæddur upp, græni skúfurinn gerður
rauður (sem er rangur litur á íslenskum skúfum) (Fjölnir 1844:105-106). Með
þessum breytingum hefur kvæðið verið prentað síðan. Um frekari umræðu, sjá
grein mína „Söngvarinn ljúfi: Um orð og myndir í kvæði eftir Jónas Hallgríms-
son“ (Helga Kress 2011).