Skírnir - 01.04.2012, Page 31
SKÍRNIR
UNIR AUGA ÍMYND ÞINNI
29
þeir eru kallaðir og haldnir góð skáld, en hafa ei utan þá grein íþróttarinnar,
sem nefnist hagmælska.57
Máli sínu til stuðnings vitnar hann í latneska skáldið Hóras („Hora-
tíus“), erindi sem hefst svo í íslenskri þýðingu hans:
Þú skalt ei kalla skáld þann hvern sem vísu
gjörir, eðr einsog vér yrkir sléttu tali nær.
Framhaldið er nokkuð óskýrt í þýðingunni en felur í sér að skáld
skuli þann einan kalla sem yrki um háleit efni á háleitu tungumáli.58
Þannig yrkir ekki Jónas, heldur einmitt, eins og Hóras, á máli
„sléttu tali nær“, og er því ekki skáld fremur en hann.59 I samræmi
við það hefjast „Hulduljóð", kvæðaflokkurinn um Eggert Ólafs-
son, á írónískri vísun í þýðingu hans á orðum Hórasar:
Skáld er eg ei, en huldukonan kallar
og kveða biður hyggjuþungan beim. (I, 116)
Eins og í mörgum kvæðum Jónasar er ljóðmælandi skáld, karl-
maður, sem talar í fyrstu persónu, hrópar, ákallar og spyr. Það er
þungt yfir honum, og hann „þrumir“ (I, 116) á bergi (Parnassos?),
hulinn þoku og án þess að geta ort. Huldukonan, sem blæs honum
57 Eggert Ólafsson 1832:5.
58 Eggert Ólafsson 1832:7. Erindið sem Eggert vitnar til, bæði á latínu og íslensku,
reynist vera úr Satiarum Liber 1, IV (línur 41-44), þar sem Hóras er að gera grín
að sjálfum sér og telur sig ekki skáld af því hann yrki á einföldu máli um einföld
efni. Eggert misskilur þetta, sér ekki íróníuna. Það gerir ekki heldur breski út-
gefandi satírunnar (á latínu og ensku) í eftirfarandi athugasemd við erindið: „The
attributes of a poet Horace considers essential, are genius, inspiration; and digni-
fied sentiments, and language suited to high subjects" (Hóras 1853:368).
59 „Ég er ekki skáld, eins og þú veist,“ segir Jónas í stuttu gamanbréfi til eins af
Fjölnismönnum, birtu að honum forspurðum í Fjölni (1837:30), og vísar í einhver
ummæli, fleyg orð, sem viðtakandi á að þekkja. Þá segir Benedikt Gröndal frá því
í ævisögu sinni að þegar hann var í efri bekk Bessastaðaskóla (sem mun hafa verið
veturinn 1843-44) hafi Grímur Thomsen komið frá Kaupmannahöfn, dvalist á
Bessastöðum og umgengist þá skólapilta: „Grímur var ákaft hrifinn af Bjarna
Thorarensen og hefur ritað um hann á dönsku í ,Gæa‘; hann hafði það sí og æ á
vörunum við okkur: ,Bjarni Thorarensen er skáld, en Jónas Hallgrímsson ekki
skáld.‘ Grímur hefur, að minnsta kosti þá, haft undarlega skoðun á skáldskap"
(Benedikt Gröndal 1923:109).