Skírnir - 01.04.2012, Side 33
SKÍRNIR
UNIR AUGA ÍMYND ÞINNI
31
ávarpar þau til skiptis: „Sólfagra mey! eg sé — nú leit minn andi /
þann seglið vatt í byrnum undan Skor / og aldrei síðan aftur bar að
landi — / Eggert! ó hyggstu þá að leita vor?“ (I, 117) I „Huldu-
ljóðum“ er mikið um retórískar spurningar sem eru ýmist látnar
standa opnar eða ljóðmælandi svarar sér sjálfur. Þannig spyr hann
af hverju Eggert hafi yfirgefið sjóinn og gengið á land þótt hann viti
svarið:
ó, hve hann hefir eftir þráð að líta
ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta. (I, 118)
Ástarlandið sem Eggert þráir er Island, það sama og sjá má í
kvæðum hans, skautbúin kona með háan fald, fjöllótt land með jök-
ultinda.62 Hér tengist það hins vegar ekki móðurinni, eins og í
kvæðum hans, heldur Huldu, skáldskapargyðjunni, ástargyðjunni,
sem vakti hann upp. „Þú elskar hann, þess ann eg honum glaður,“
segir Ijóðmælandi við hana í samsömun sinni við Eggert, aftur-
genginn tvífara sinn. „Ástin er rík, og þú ert hennar dís.“ (I, 119)
Hugmyndin um (ást)konuna sem uppsprettu skáldskapar er þó
hvergi að finna í kvæðum Eggerts, hún er alfarið frá Jónasi komin.
I myndinni af Eggerti, þar sem hann sem stígur „upp af bárurn"
(1,118) eins og hafmeyja og varpar af sér „marblæju votri“, felst viss
kvengerving sem fylgir lýsingu hans til enda, þótt hann sé einnig
„sterkur og frjáls og fríður“ (1,121). Á land kominn „svipast" hann
um „með tárum“ og á skoðunarferð sinni um barngerða náttúruna,
sem móðirin hefur svæft, „svífur“ (I, 121) hann eins og hún,
„svásúðleg mynd“ (I, 121) og fögur: „Ó, Eggert! hversu er þinn
gangur fagur!“ (I, 118) Hann „líður yfir ljósan jarðargróða“ og sér
það lága og smáa, „litfögur blóm“ (I, 119) sem „smálíta upp að
62 Þessi mynd af fjallalandinu/tignarfaldinum sem Eggert þráir kallast skemmtilega
á við heimþrárkvæði hans „Heimsótt", sem hann útskýrir svo í aðfararorðum:
„Um girnd útlendra manna að vitja aftur föðurlandsins, einkum íslendinga og
annarra, sem á fjöllóttum löndum eru aldir" (Eggert Ólafsson 1832:116). Kenn-
ing hans, bæði um heimþrána sem sótt (sjúkdóm) og að hún sæki einkum á þá sem
eru frá fjöllóttum löndum, kemur nákvæmlega heim og saman við kenningar
Simons Bunke (2009) sem í riti sínu Heimweh skilgreinir heimþrána sem sjúk-
dóm og tekur sérstaklega fyrir bókmenntir frá fjallalandinu Sviss (m.a. barna-
söguna Heidi eftir Johanna Spyri frá 1879).