Skírnir - 01.04.2012, Blaðsíða 34
32
HELGA KRESS
SKÍRNIR
gleðja skáldið góða“ (1,119) og bjóða hann velkominn. Hann svarar
þeim og talar við þau í kvæði sem einkennist af kvenlegri nær-
skynjun og myndmáli smæðarinnar: „Smávinir fagrir, foldarskart, /
fífill í haga, rauð og blá / brekkusóley! vér mættum margt / muna
hvert öðru að segja frá.“ (I, 120) Þetta eru endurfundir, þau eru
þarna „öll í haganum enn“ (I, 121), þekkjast og hafa talað saman
áður, sbr. „Þið þekkið fold með blíðri brá“, upphafslínu „Islands
minni". Þótt skáldið hafi farið er landið á sínum stað og má ekki
gleymast. Eins og „Dalvísa" og „Islands minni“ endar kvæði/kveðja
Eggerts á bæn: „Faðir og vinur alls sem er! / annastu þennan græna
reit.“ (I, 120) Landið/náttúran er í hættu og þarfnast karllegrar
verndar. Hinn endanlegi áfangastaður Eggerts er græni reiturinn
þar sem hann staldrar við, hliðstæður græna skúfnum í leiðarlýs-
ingu söngfuglsins í „Ég bið að heilsa“, táknmyndir nálægðarinnar
andstætt blámanum í fjarska.
Kvæðið sem Jónas leggur Eggerti í munn líkist í engu gróteskum
kvæðum Eggerts sjálfs. Það eina sem tengir er foldarskartið, landið
sem skartklædd kona. A samtvinnun þessara yrkisefna leggur Jónas
áherslu í eins konar eftirmælum um Eggert, síðasta hluta „Huldu-
ljóða“, sem hann leggur alþýðuskáldinu, smalanum, í munn:
Kvað hann um fold og fagra mey
fagnaðarljóð er gleymast ei. (I, 123)
Með eftirmælum smalans snýr Jónas upp á „Hulduljóð" í anda róm-
antískrar íróníu og slær því þeim upp í grín, „kímilegt“ oflof um
Eggert.63 Það verður nefnilega tæpast sagt um kvæði hans að þau
samræmist kröfunni um „fagurlega mynd“.64 Það gera hins vegar
63 Sbr. einnig Guðrúnu Nordal 1994:284-286. Um eftirmælin sem sagnadans, sjá
Svein Yngva Egilsson 1999:107.
64 Eggert orti að vísu heilmikið um íslenskar konur, en sjaldnast mjög fagurlega, og
stundum beinlínis klúrt, ef ekki óskiljanlega: I „Konukosningu" gefur hann
körlum ráð um hvernig þeir skuli velja sér konu og hljóðar eitt erindið svo:
„Hrundin líti hýrt til þín með hægu móti / má hún vera, að mínu viti, / mjúk og
ljúf í hvílu striti“ (Eggert Ólafsson 1832:198). Þá hefst kvæðið „Um íslensku
stúlkurnar", sem á líklega að vera dróttkvætt, svo: „Yndisverð á íslandi / eru víf
mjólífuð, / satt er það: / ásján hvít, áþekk mætum / augu hrein gimsteini / í allan
stað ...“ (Eggert Olafsson 1832:199).