Skírnir - 01.04.2012, Page 39
SKÍRNIR
UNIR AUGA ÍMYND ÞINNI
37
Skær eru hin háu
himinljós,
fögur foldarblóm.
Unir auga
ímynd þinni,
saknar sjálfrar þó.76
Þrá skáldsins eftir raunverulegri konu kemur hér beinlínis upp á
yfirborðið, eftir „henni sjálfri", sem hann talar til í ljóðinu en er
ekki til, og heyrir því heldur ekki orð hans. Þess í stað unir hann
við „ímynd“ hennar sem hann býr sér til og birtist honum í mynd-
máli skáldskaparins, sólinni og fegurð náttúrunnar. Þannig er hún
bæði fjarlægur líkami og nálæg náttúra. Um leið er hún samnefnari
allra kvenna, „sólbjört mey“ (I, 50), sólin sjálf sem lýsir upp myrkr-
ið, eins og sólfagra meyjan Hulda í „Hulduljóðum“ sem er ekki í
„Man eg þig, mey! en Jónas flytur með sér inn í „Söknuð“: „Sól-
bjartar meyjar / er eg síðan leit / allar á þig minna“ (I, 50). Sólbjarta
meyjan hans, er hins vegar fjarlæg, og aðskilnaðurinn við hana leiðir
til dauða, gott ef ekki heimsendis. I stað faðmlagsins við skáld-
skapargyðjuna Huldu í „Hulduljóðum" og fang systurinnar, skáld-
konunnar, í „Grasaferð", styður hann sig „að steini", hörðu, köldu
og lífvana efni.77 Um leið hverfist kvæðið í metatexta, ljóðmælandi
er skáld, hann missir málið, tunga hans „stirðnar“ og kvæðinu lýkur:
76 Jónas Hallgrímsson 1965:41.
77 í grein sinni „Styð eg mig að steini“ ber Dick Ringler „Man eg þig, mey!“ saman
við erfikvæði um Guðrúnu Stephensen sem Jónas orti um svipað leyti, en í því
kvæði er maður hennar, Magnús Stephensen, látinn styðja sig „harmbeygður“ (I,
57) við stein, á sama hátt og ljóðmælandi í „Man eg þig, mey!“ Steininn í erfi-
kvæðinu telur Ringler vera legsteininn yfir Guðrúnu og sviðið kirkjugarðinn þar
sem hún er grafin. Sama eigi við um „Man eg þig, mey!“ sem sé því ekki ástar-
ljóð, „spillt af tilfinningasemi og sjálfsdekri“ (Ringler 1995:9), heldur „sorgar-
orð sem mælt eru í kirkjugarði eftir sólsetur af manni sem styður sig við legstein
... með öðrum orðum harmljóð, elegía, ort í orðastað karlmanns um konu sem
er dáin og um sorgina yfir missi hennar“ (Ringler 1995:11). Við svo raunsæislega
útleggingu er það að athuga að legsteinn var ekki settur yfir leiði Guðrúnar í fjöl-
skyldugrafreiti þeirra Stephensena í Viðeyjarkirkjugarði fyrr en 1933, rúmri öld
eftir lát hennar, og steinninn liggur flatur, sbr. Inga Sigurðsson 1996:169. Auk þess
er ekkert sem bendir til þess að stúlkan í kvæði Jónasar sé dáin, heldur varðar
dauðamyndin í því ljóðmælanda sjálfan.