Skírnir - 01.04.2012, Side 46
44
HELGA KRESS
SKÍRNIR
Kvæðið minnir í mörgu á eitt síðasta kvæði Guðnýjar Jónsdóttur frá
Klömbrum, samtímaskálds Jónasar, en fyrsta erindi þess hljóðar
svo:
Sit ég og syrgi mér horfinn
sárt þreyða vininn,
er lifir í laufgræna dalnum
þótt látin sé ástin.
Fjöll eru og firnindi vestra,
hann felst þeim að baki.
Gott er að sjá þig nú sælan,
þá sigrar mig dauðinn.88
Aðstæður skáldanna eru þó gjörólíkar, karlskáldið Jónas er í stór-
borg erlendis, en hún kvenskáldið á Melrakkasléttu, einum nyrsta
hjara landsins, hann þekktur, hún óþekkt, en bæði deyjandi. Guðný
yrkir til eiginmanns síns sem yfirgaf hana, manns sem allir vissu
hver var, og hún ásakar hann í ljóðinu. Jónas gefur hins vegar ekki
upp nafnið, og hann kennir sér um, karlinn er gerandinn, ástæða
ógæfunnar — og í yfirfærðri merkingu — dauðans, í báðum kvæð-
unum:
Mér er þetta mátulegt,
mátti vel til haga,
hefði ég betur hana þekkt
sem harma ég alla daga. (I, 223)
„Hefði ég betur hana þekkt“ kallast á við sama orðalag um landið/
konuna í „Islands minni“ sem Jónas áminnir Islendingana um að
ekki megi gleyma, hér í viðtengingarhætti, þar sem áminning,
staðhæfing, ósk: „Þið þekkið fold með blíðri brá.“ Um leið sækir
hann í kvenlega orðræðu Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu sem
svarar syni sínum í gátu þegar hann spyr hvaða manni hún hafi
unnað mest: „Þeim var eg verst / er eg unni mest“,89 og hefur boðið
88 Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum [1951]: 103. Kvæði Guðnýjar birtist fyrst í
Norðurfara 1848, en gekk áður manna á milli í afskriftum, eins og einnig önnur
kvæði hennar, m.a. „Endurminningin er svo glögg“ sem birtist í Fjölni 1837. Sjá
nmgr. 14.
89 Laxdœla saga 1934:228.