Skírnir - 01.04.2012, Page 64
62
SVANUR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ismenn væru t.d. að skipa sjálfa sig formlega í ráðherraembætti. Því
var ákveðið ári seinna að Alþingi kysi ríkisstjóra sem færi með vald
konungs. Sveinn Björnsson var kjörinn ríkisstjóri Islands til eins
árs, enda var litið svo á að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða.
I innsetningarávarpi bar Sveinn mikið lof á Kristján X konung Is-
lands (og Danmerkur) fyrir að virða fullkomlega reglur þingræðis
og láta þar með Alþingi alfarið um stjórn landsins. Kvaðst ríkis-
stjóri ætla að gera slíkt hið sama.13
Hægt er að dagsetja með nákvæmni nær Sveinn Björnsson taldi
sig knúinn til að skipta um skoðun á hlutverki sínu. I október 1941
var samstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks
komin að fótum fram vegna innbyrðis ágreinings. Forsætisráðherra,
Hermann Jónasson, gekk á fund ríkisstjóra og baðst lausnar. Sam-
kvæmt fyrri starfsreglu hefði ríkisstjóri umsvifalaust átt að
samþykkja beiðni forsætisráðherra en fela honum að sitja þar til
flokksforingjar hefðu náð samkomulagi um nýja ríkisstjórn sem nyti
meirihlutastuðnings á Alþingi. Á meðan ætti handhafi æðsta valds-
ins að halda að sér höndum enda væru völd hans eingöngu formlegs
eðlis; í reynd skyldi allt vald vera hjá Alþingi. Viðbrögð Sveins voru
hins vegar allt önnur. Hann neitaði að samþykkja lausnarbeiðni for-
sætisráðherra og gaf honum fyrirmæli um að ríkisstjórnin skyldi sitja
áfram. I kjölfarið tók við tími athafna hjá handhafa konungsvaldsins:
1. Ríkisstjóri átti ítarlegar viðræður við forystumenn í stjórn-
málum og leitaði lausna á stjórnarkreppunni í landinu.
2. Ríkisstjóri lagði sjálfstætt mat á hverjum hann veitti umboð
til að mynda ríkisstjórn.
3. Ríkisstjóri velti upp þeim möguleika að hann skipaði utan-
þingsstjórn og ræddi við vin sinn, Björn Þórðarson, um að
veita slíkri stjórn forsæti.
13 Sveinn Björnson sagði m.a.: „Af ábyrgðarfrelsinu um stjórnarathafnir leiðir að
minni skoðun það, að ríkisstjórinn verður að gæta þess vandlega að gera ekki
neitt í stjórnarathöfnum sínum, sem telja mætti með rétti misnotkun þess
ábyrgðarfrelsis. Hann verður og sérstaklega að gæta þess að víkja ekki af þeirri
braut, sem þeim manni ber að þræða, sem falið er æðsta valdið, samkvæmt viður-
kenndum venjum nútímans, þar sem þetta æðsta vald er þingbundið“ (Alþing-
istíðindi B 1941: 1292-1293).