Skírnir - 01.04.2012, Page 82
80
SVANUR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Sumir stuðningsmenn Kristjáns vildu augljóslega að horfið yrði
frá því að líta á forsetaembættið sem valdaembætti. Meginhlutverk
forseta Islands var að þeirra mati annað og æðra allri stjórnmála-
baráttu:
Þjóðin vill að forseti lýðveldisins sé óbundinn af öllum stjórnmálaviðjum.
Hann á að vera sameiningartákn þjóðarinnar, hafinn yfir deilur einstak-
linga, stétta og stjórnmálaflokka.
Þjóðin vill að forsetinn sé kurteis maður og virðulegur, en þó alþýð-
legur og ljúfur í viðmóti. Hann á að vera jafningi hárra sem lágra en þó
fremstur í flokki jafningja.
Þjóðin vill að forsetinn sé gáfaður maður og vel menntaður, málsnjall
og afreksmaður til andlegra verka.35
Fyrir kosningarnar fjallaði Kristján talsvert um hlutverk forsetans,
taldi sér t.d. til tekna að vera „ópólitískur frambjóðandi“ sem ætti
auðveldara með að meta aðstæður á „hlutlægan hátt“ heldur en „sá
sem lengi hefur tekið þátt í stjórnmálum". Kristján lagði mikla
áherslu á efla samstarfið við Norðurlandaþjóðirnar: „Mér finnst við
eiga að styrkja fjölskylduböndin við þær sem fastast, þær eru okkur
skyldastar og standa okkur næst að hugsunarhætti, menningu og
þjóðfélagsskipan." Kristján tók einnig fram að hann væri ekki
lengur andvígur Atlantshafsbandalaginu enda hafi þátttaka Islands
þar „ekki reynzt eins varhugaverð og ég og margir óttuðust í upp-
hafi“. Á forsetastóli muni hann ekki vinna gegn áframhaldandi aðild
íslands að NATO enda sé það „Alþingis og ríkisstjórnar að meta
viðhorfið og marka stefnuna, þegar þar að kemur. Það er beinlínis
ekki til þess ætlast að forseti beiti sér í slíku máli.“36
I fyrstu innsetningarræðu sinni sagði Kristján Eldjárn m.a.:
Alþingi er kjarni stjórnkerfis vors, og það á að vera oss metnaðarmál að
standa vörð um virðingu þess. Alþingi er elsta og sögufrægasta stofnun
þjóðfélags vors. Heiður þess er heiður þjóðarinnar, og frá ríkisstjórninni
hljótum vér að vænta forustu um úrlausn allra mikilvægra mála. [...] Ég vil,
að því leyti sem í mínu valdi stendur, leggja mig fram um að láta gott af
mér leiða í öllu því sem varðar heill og hamingju þjóðarinnar í veraldlegum
35 30. júní— blað stuðningsmanna Kristjáns Eldjáms, 28. júní 1968.
36 Tilvitnanir eru sóttar í Matthías Johannessen 1968a.