Skírnir - 01.04.2012, Page 84
82
SVANUR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
og hún yrði að víkja. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hall-
grímsson, fór þess formlega á leit við forseta Islands að fá í hendur
umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Á sama tíma hafði for-
sætisráðherrann, Ólafur Jóhannesson, lagt fyrir forseta bréf um
þingrof og óskað eftir undirritun hans. Kristján leitaði ráða hjá Jó-
hannesi Elíassyni bankastjóra og Baldri Möller ráðuneytisstjóra í
ráðuneyti dómsmála. Báðir studdu þingrofsbeiðni forsætisráðherra.
Forsetinn skrifaði undir og varð þar með við ósk forsætisráðherra
um tafarlaust þingrof og kosningar í kjölfarið. Stjórnarandstæðingar
vildu að þingrofið tæki ekki gildi fyrr en á kjördegi þannig að
ráðrúm gæfist til mynda nýja meirihlutastjórn fyrir kosningarnar.
Að eigin sögn þurfti hins vegar Ólafur Jóhannesson „að losa sig við
þingið". Forsetinn var honum sammála og samþykkti tafarlaust
þingrof og kom þar með í veg fyrir að Alþingi gæti samþykkt van-
traust á ríkisstjórnina. Forsetinn tryggði semsagt setu ríkisstjórnar
Ólafs Jóhannessonar fram yfir komandi þingkosningar.37
Þingrofið vakti eðlilega mjög hörð viðbrögð stjórnarandstöð-
unnar. Björn Jónsson þingmaður SFV og fyrrum ráðherra lýsti ó-
ánægju sinni í viðtali við Morgunblaðið. Þar sagði hann meðal ann-
ars að forseti gæti ekki beðið forsætisráðherra að segja af sér því
þingmenn hefðu verið sviptir umboði til að mynda meirihluta og
ekki væri unnt að halda þing. Þingmenn væru kjörnir samkvæmt
stjórnarskrá og kosningalögum og hefðu samkvæmt þeim umboð
fram á kjördag. Þessu umboði væru þeir sviptir af aðilum sem ekki
gætu svipt þá því samkvæmt réttum þingræðis- og lýðræðisreglum.
37 Sjí Guðna Th. Jóhannesson 2005: 85-107, hér 97-103. Varla var við hæfi að for-
setinn leitaði ráða hjá Jóhannesi Elíassyni um hvernig hann ætti að bregðast við
beiðni Ólafs Jóhannessonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokks-
ins, um að rjúfa þing tafarlaust. Sem vararitari flokksins var Jóhannes einn af
sex valdamestu mönnum í Framsóknarflokknum og átti sæti í framkvæmda-
stjórn hans. Forystumenn Framsóknarflokksins unnu markvisst að því að fá
Kristján Eldjárn til að gefa kost á sér í forsetakjör og gegndi Jóhannes Elíasson
þar lykilhlutverki, sbr. t.d. Þórarin Þórarinsson 1987:180: „Um skeið virtist því
úr sögunni að Kristján gæfi kost á sér. Þá gerðist það, að í ljós kom í viðtali Jó-
hannesar Elíassonar bankastjóra við Pétur Benediktsson bankastjóra og alþingis-
mann, að hann væri reiðubúinn til að styðja Kristján opinberlega. Það átti sinn
þátt í því, að Kristján gaf að lokum kost á sér og varð fyrstur til að tilkynna
framboð sitt.“