Skírnir - 01.04.2012, Page 102
100
HJALTI HUGASON
SKÍRNIR
Fylgdi hann mun alþýðlegri trúarháttum og kom að því leyti fremur
fram sem fulltrúi gamals tíma en nýs. Til dæmis virðist hann ekki
mótaður af þeirri vaxandi einstaklingshyggju sem tók að gera vart
við sig á 12. öld (Gurevitj 1997: 20-21,136-155,162, 215,228; Hjalti
Hugason 2003: 171-173,188).
Það er einkum á hinu kirkjupólitíska sviði sem Guðmundur
virðist hafa verið í fullkomnum takti við það sem gerðist í nálægum
löndum og þá einkum í Niðaróss-erkibiskupsdæmi í tíð biskupanna
Eysteins Erlendssonar (1158/1159-1188) og Eiríks Ivarssonar
(1188-1205), vígsluföður Guðmundar. Má líta á átök hans við Kol-
bein Tumason (um 1173-1208) og aðra helstu höfðingja norðan-
lands sem spegilmynd af átökum norsku erkibiskupanna við Sverri
konung Sigurðsson (1177-1202) enda blandaðist fjölskylda Guð-
mundar inn í valdabaráttuna í Noregi á þessum tíma. En faðir hans,
Ari Þorgeirsson, féll í henni er Guðmundur var barn að aldri (1166)
(Hjalti Hugason 2003: 166-170; Hjalti Hugason 2009:137-147). Má
að verulegu leyti skýra bæði kirkjupólitíska stefnu Guðmundar og
þá hörku sem hann sýndi í því að framfylgja henni með tilvísun til
fyrirmynda frá Noregi og aðstæðna þar.
Guðmundur átti sér líka annars konar fyrirmyndir sem hann
hefur líklega samsamað sig við og mótað biskupsdóm sinn eftir. Þar
er átt við dýrlingana Ambrosius frá Mílanó (á 4. öld), Anselm af
Kantaraborg (á 11. öld) og Thomas Becket (1118-1170) erkibiskup
af Kantaraborg sem allir áttu í hatrömmum átökum við veraldar-
valdið (Gunnar F. Guðmundsson 2000: 49; sjá einnig 29, 70, 72, 73,
74, 296; Gunnar F. Guðmundsson 2001: 22; Hjalti Hugason 2003:
183-185).
Þrátt fyrir það sem hér var sagt virðist sú þversagnakennda
spenna sem fylgdi Guðmundi þegar í augum samtímamanna hans og
lifir góðu lífi allt fram á þennan dag ekki skýrð til fulls með tilvísun
til þessara þátta.
Viðfangsefni og aðferðafræðileg vandamál
Ólafur Lárusson (1885-1961) lagaprófessor er einn þeirra sem feng-
ist hefur við mótsögnina sem lesa má út úr atferli Guðmundar Ara-