Skírnir - 01.04.2012, Page 107
SKÍRNIR
ÁFALLATENGT ÁLAGSHEILKENNI ...
105
sem hann lenti í (Hjalti Hugason e.d.). Hér er ekki tekin afstaða
gegn slíkri túlkun. Á miðöldum voru sálræn áföll ugglaust almennt
skilin, tjáð og túlkuð með orðfæri kristinnar trúar. I þessari grein
verður aðeins leitast við að beita fleiri skýringarlíkönum.
Uppvöxturinn
Guðmundur Arason fæddist að Grjótá í Hörgárdal 26. september
1160 eða 1161. Foreldrar hans voru Ari Þorgeirsson og Ulfheiður
Gunnarsdóttir (d. 1200), frilla hans. Hún hafði áður verið gefin
manni nauðug. Hjónaband hennar var því ógilt að kirkjulegum
skilningi. Áttu þau fjögur börn saman, stúlku og þrjá syni, einn
andaðist í æsku en annar komst upp auk Guðmundar (Sturlunga
saga 1 1946: 118, 382, 399; Gunnar F. Guðmundsson 2001: 21). Ari
var af höfðingjaættum, sonur Þorgeirs Hallssonar í Hvassafelli í
Eyjafirði en í móðurætt kominn af Reyknesingum. Hann var
löngum utanlands og í liði Erlings skakka (d. 1179) jarls og Magn-
úsar konungs V (1156-1184, kon. frá 1161) sonar hans í átökunum
sem stóðu um krúnuna í Noregi um þetta leyti og féll þar þegar
Guðmundur var fimm ára (Sturlunga saga I 1946: 118, 382, 399;
Gunnar F. Guðmundsson 2001: 21). Var Guðmundur fyrstu árin í
fóstri með Þorgeiri afa sínum og dvaldi móðir hans þar með honum.
Þorgeir gekk í klaustur að Munkaþverá 1168 eins og höfðingjar
gerðu stundum á ævikvöldi og dó þar ári síðar. Þá var Guðmundur
sjö eða átta ára að aldri {Sturlunga saga I 1946: 120, 122-123).
Guðmundur var óskilgetinn og var frændum hans því ekki skylt
að gefa honum eftir föðurarf eða hlutdeild í auði og völdum ættar-
innar á annan máta (Auður Magnúsdóttir 2011: 32). Var brugðið á
það ráð sem var algengt þegar svo stóð á að „setja hann til bækur“,
það er náms, en það hlaut að leiða hann til prestskapar. Þannig
tryggðu aðalsættir Evrópu löngum framtíð þeirra ungmenna sem
ekki stóðu til fullra erfða. Eldri skilgetnir synir tóku við eignum og
völdum ættanna en þeim yngri eða óskilgetnu var ætlaður kirkju-
legur frami. Einn föðurbræðra Guðmundar, Ingimundur (d. 1189),
var prestur og því einboðið að hann tæki að sér uppeldi og menntun
Guðmundar. Virðist þetta hafa verið ákveðið strax og fréttir bárust