Skírnir - 01.04.2012, Page 129
SKÍRNIR
AÐ SKILJA HEIMINN OG ...
127
Því fer þó fjarri að Lévi-Strauss hafi verið tilfinningasamur en
slíkt tengja sumir við listsköpun. Deliége ([2001] 2004) segir til
dæmis að listir hafi haft vitsmunalegt fremur en tilfinningalegt gildi
fyrir Lévi-Strauss. I svipaðan streng tekur Simone de Beauvoir í
endurminningum sínum, en þau Lévi Strauss voru saman í æfinga-
kennslu í menntaskóla á námsárum sínum í Sorbonne-háskóla. Hún
segir að Lévi-Strauss hafi verið einstaklega laus við tilfinningasemi
í allri framgöngu og að bráðfyndið hafi verið þegar hann messaði af
vísindalegri nákvæmni yfir menntaskólastrákunum um glópsku
ástríðnanna (de Beauvoir [1958] 1970: 294).
Lévi-Strauss nam heimspeki og lög við Sorbonne-háskóla og var
í náminu samferða öðrum frönskum andans mönnum sem síðar
urðu, eins og Simone de Beauvoir, Jean-Paul Sartre og Maurice
Merleau-Ponty.3 Að prófi loknu árið 1932 réðst Lévi-Strauss til
kennslu við menntaskóla í Suðvestur-Frakklandi, en algengt var að
nýútskrifaðir kandídatar frá Sorbonne færu í slík störf, þar á meðal
þeir samferðamenn hans í náminu sem áður voru nefndir. Þannig
gátu menn unnið fyrir sér á meðan þeir lögðu drög að verkum
sínum. Lévi-Strauss leiddist þó fljótt kennslan, fannst hún stagl, og
árið 1934 sótti hann um og fékk stöðu kennara við Háskólann í Sao
Paolo í Brasilíu. Lévi-Strauss var gyðingur, móðir hans dóttir rabb-
ína, og Pétur Gunnarsson veltir því fyrir sér í formála þýðanda að
Regnskógabeltinu raunamœdda hvort Lévi-Strauss hafi fundið til
fjarlægðar milli sín og samfélagsins franska vegna landlægra gyð-
ingafordóma og því viljað komast burt. Það getur verið. Ljóst er að
uppgangur nasismans á þessum árum hefur varla gert gyðingum í
Frakklandi auðveldara fyrir og auk þess var mönnum enn í fersku
minni hið illræmda Dreyfusar-mál þar sem fordómar gagnvart
gyðingum áttu stóran hlut að máli.4
3 Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre kannast flestir við en ásamt þeim var Mer-
leau-Ponty meðal áhrifamestu franskra heimspekinga á ofanverðri 20. öld. Fram-
lag hans var einkum á sviði fyrirbærafræði en hann hafði einnig mikil áhrif á vinstri
væng stjórnmálaumræðunnar í Frakklandi, m.a. sem stjórnmálaritstjóri tímarits-
ins Les Temps modernes.
4 Alfred Dreyfus, sem var gyðingur og liðsforingi í franska hernum, var árið 1894
dæmdur af herrétti fyrir landráð og í lífstíðarfangelsi á Djöflaeyju. Snemma
vöknuðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu og úr varð hitamál sem klauf