Skírnir - 01.04.2012, Page 131
SKÍRNIR
AÐ SKILJA HEIMINN OG ...
129
„villimanna“, sem breski félagsheimspekingurinn Hobbes hafði á
17. öld lýst sem „einmanalegu, fátæklegu, andstyggilegu, ruddalegu
og stuttu“, í góðri fjarlægð (Hobbes [1651] 1973: 65). Var Lévi-
Strauss löngum gagnrýndur fyrir skort á nálægð við veruleika þeirra
sem hann fjallaði um, en skilningur byggður á umfangsmikilli vett-
vangskönnun í viðkomandi samfélagi var af flestum talinn góð
mannfræði, annað ekki.
Árið 1939 hélt Lévi-Strauss til Frakklands. Skömmu síðar braust
heimsstyrjöldin síðari út og ljóst var að sem gyðingi var honum
bráð hætta búin í Evrópu. Með hjálp góðra manna, ekki síst banda-
ríska mannfræðingsins Robert Lowie, komst hann til New York
þar sem hann kenndi meðal annars við New School for Social Re-
search. I New York hófst nýtt mótunartímabil; hann kynnti sér
bandaríska mannfræði og ekki síður etnógrafíu Ameríku sem síðar
átti eftir að reynast honum notadrjúgt. Þar kynntist hann einnig
málvísindamanninum Roman Jakobson sem opnaði fyrir honum
heim málvísinda og formgerðargreiningar eða strúktúralisma. Það
varð afdrifaríkt því að á grunni gerðar-málvísinda þróaði Lévi-
Strauss síðar sína eigin gerðarhyggju, sem á íslensku hefur verið
nefnd formgerðarhyggja.7
Eftir störf sem menningarmálafulltrúi franska sendiráðsins í
New York á árunum 1946-1947 sneri Lévi-Strauss aftur til Frakk-
lands. Árið 1948 varði hann doktorsritgerð sína, Les Structures éle-
mentaires de la parenté (Grunnformgerð sifja), við Sorbonne-
háskóla og er það fyrsta meginverk hans. Verkið kom út ári síðar,
hafði gífurleg áhrif og skóp mannfræði nýjan sess í frönsku menn-
ingarlífi. Með þessu verki var talið að mannfræðin hefði klifið nýjar
vitsmunalegar hæðir og í menntaðri umræðu urðu menn að kunna
skil á skiptireglum hjúskapar og hvernig þær lögðu grunn að mann-
legu samfélagi. Verkið varð lykilverk.
Lévi-Strauss bjó og kenndi í París þá sex áratugi sem hann átti
ólifaða. Hann varð sannkallaður páfi í franskri mannfræði og
7 Heitið structuralism hefur verið þýtt á íslensku sem gerðarhyggja. Gerðarhyggja
Lévi-Strauss hefur verið nefnd formgerðarbyggja á íslensku í mannfræði til
aðgreiningar frá bresku félagsgerðarhyggjunni (e. social structuralism).