Skírnir - 01.04.2012, Page 132
130 SIGRÍÐUR DÚNA KRISTMUNDSDÓTTIR SKÍRNIR
frönsku menningarlífi og höfðu verk hans gríðarleg áhrif á flestar ef
ekki allar félags- og mannvísindagreinar fram eftir öldinni. Verkin
komu hvert á fætur öðru: Tristes tropiques (Regnskógabeltið rauna-
mœdda) árið 1955, greinasafnið Antropologie structurale (Form-
gerðarmannfræði) árið 1958, Le Totémisme aujourd’hui (Tótemismi
í skilningi nútímans) og La Pensée sauvage (Hin frumstæða/villta
hugsun eða villifjólan) árið 1969, og hið mikla verk Mythologiques
(Goðsagnarökfræði) í fjórum bindum á árunum 1964-1971 svo
nokkuð sé nefnt. Hann setti á laggirnar rannsóknarstofnun í
mannfræði við Sorbonne-háskóla, Laboratoire d’Anthropologie So-
ciale, stofnaði tímaritið L’Homme, sem birti það nýjasta í
mannfræðinni, og tók að sér verkefni fyrir UNESCO. Óhætt er að
telja að á ofanverðri 20. öld hafi enginn franskur mannfræðingur
haft meiri áhrif en Claude Lévi-Strauss.
Frœðileg áhrif á kenningasköpun Claude Lévi-Strauss
Eins og margir franskir fræðimenn á hans tíma, sama hvaða fræði-
grein þeir tilheyrðu, átti Claude Lévi-Strauss sér grunn í heimspeki
svo sem fram er komið. Hann segir að vísu í Regnskógabeltinu
raunamœdda að þau fimm ár sem hann nam heimspeki við Sor-
bonne-háskóla hafi snúist um að ná tökum á hugarleikfimi sem
ruglaði saman hugarsmíð og þekkingu, ræktaði skilninginn en svelti
andann (Lévi-Strauss [1955] 2011: 57). Hvað sem því líður er mann-
fræði Lévi-Strauss heimspekilegri en til dæmis sú mannfræði sem
þróaðist handan Ermarsunds. Breskir og franskir mannfræðingar
áttu kenningar Émile Durkheim og Année-skólans svonefnda sam-
eiginlegar en hvorir með sínum hætti.8 Bretarnir nýttu sér áherslu
Durkheim á hið félagslega, á félagslegar staðreyndir og félagsleg
tengsl sem rannsóknarefni, en Frakkarnir tóku frekar upp hug-
8 Franski félagsfræðingurmn Emile Durkheim (1858-1917) stofnaði tímaritið
L’Année Sociologique árið 1898 og þar birtust greinar eftir hann og nemendur
hans næsta aldarfjórðunginn. Durkheim var afar áhrifamikill kenningasmiður eins
og fram kemur í umfjöllun þessarar greinar, og eru kenningar hans um virkni og
gerð samfélaga, sem hann og nemendur hans þróuðu, oft kenndar við tímaritið
og nefndar „Année-skólinn“.