Skírnir - 01.04.2012, Page 134
132 SIGRÍÐUR DÚNA KRISTMUNDSDÓTTIR SKÍRNIR
Grunnkenning Lévi-Strauss í sifjum, svonefnd „théorie de l’alli-
ance“, er að sifjakerfi séu gjafaskiptakerfi. Hópar skiptist á konum
til hjúskapar og myndi þannig tengsl sín á milli sem síðan eru
grundvöllur samstöðu og þar með samfélags. Hvaða hópar megi
þiggja konur frá hverjum og hverjir gefa hverjum konur segir síðan
heilmargt um stöðu hópanna innbyrðis. Þeir sem gefa konur eru
venjulega rétthærri en þeir sem þiggja konur. Þróunarhyggju ofan-
verðrar 19. aldar skýtur hér og þar upp í kenningasköpun Lévi-
Strauss og þar á meðal finnum við upprunaspurningar eins og:
Hvernig byrjaði þetta allt saman, þetta sem við köllum menningu og
samfélag? Hann kemst að þeirri niðurstöðu að í banni við sifja-
spellum og hjúskaparreglu um útvensl sé að finna uppruna mann-
legra samfélaga.
Bann við sifjaspellum, í ýmsum útfærslum, hefur fylgt mann-
kyni svo lengi sem sögur herma. Þetta bann þýðir vanalega að
bræður geta ekki kvongast systrum sínum. Undantekningar frá því
má til dæmis finna meðal faraóanna í Egyptalandi en systkinahjú-
skapur var í því tilviki til marks um að faraóarnir væru ekki mann-
legir heldur guðaverur. Bann við sifjaspellum vísar því til mennsku
mannsins sem öllu skiptir að varðveita. Þess vegna hafi karlar orðið
að leita sér kvonfangs út fyrir fjölskylduna sem þýddi í byrjun að
bræður skiptust á systrum til hjúskapar (regla um útvensl). Þar með
mynduðust félagsleg tengsl á milli óskyldra sem urðu forsenda
mannlegra samfélaga (Lévi-Strauss [1949] 1969).
I Regnskógabeltinu raunamædda segir Lévi-Strauss að hann eigi
sér þrjár hjákonur; marxisma, jarðfræði og sálgreiningu (Lévi-
Strauss [1955] 2011: 64-66). Hvað marxismann varðar virðist mér
hann nefna hann vegna þess að hann var í tísku á þessum árum í
áhrifamiklum hópum í frönsku menningarlífi. Áhrifin frá marxisma
á kenningarsköpun Lévi-Strauss, ef einhver eru, er helst að finna í
smættunarhyggju, því að láta aragrúa af staðreyndum koma saman
í eina kenningu, og, ef menn vilja, í því að beita afleiddri grein-
ingaraðferð eða að byrja með tilgátu og leiða greininguna af henni.
Þetta þurfti Lévi-Strauss ekki að sækja til marxisma, nóg var að hafa
lesið Hegel og það gerði hann örugglega í heimspekinámi sínu í
París.