Skírnir - 01.04.2012, Síða 135
SKÍRNIR
AÐ SKILJA HEIMINN OG ...
133
Söguskilningur Lévi-Strauss er einnig andstæður hinum día-
króniska eða línulega söguskilningi marxismans. Söguskilningur
hans er synkrónískur eða samstilltur og kennir þar áhrifa jarðfræð-
innar. Eins og jarðfræðingur grefur Lévi-Strauss sig niður í gegnum
jarðlög, en í hverju jarðlagi má finna leifar eldri tíma, steingervinga
eða trjábúta svo dæmi séu tekin. Þannig er fortíð jarðlagsins hluti af
samtíð þess og þess vegna er fortíð samfélaga hluti af nútíð þeirra.
Þannig er til dæmis Jón Sigurðson forseti sprelllifandi í nútíð Is-
lendinga eins og við höfum orðið vör við.9 Fortíðin er því goðsaga
í nútíð okkar. Og ef fortíðin er goðsaga í nútíð okkar má rannsaka
goðsögur, sem ævinlega vísa til fortíðar, sem tímalausan vitnisburð
um menningu manna og samfélag. Skiptir þar engu máli hver aldur
goðsögunnar er eða hvernig hún hefur breyst í ritun og umritun,
hún er alltaf sami vitnisburðurinn.
En vitnisburður um hvað? Jú, segir Lévi-Strauss, vitnisburður
um það hvernig við hugsum því að þar sem maðurinn hefur alls
staðar sams konar heila og skynfæri, eru lögmál hugsunar hans alls
staðar þau sömu. Þannig eru lögmál hugsunar „frumstæðra“ manna
sams konar og okkar og hugsun þeirra sem á undan eru gengnir
sams konar og okkar. Þessi hugsunarlögmál eru varðveitt í knöppu
formi í goðsögum mannkyns og því séu goðsögur upplagt rann-
sóknarefni til að grafast fyrir um grunnformgerð mannlegrar hugs-
unar. Lévi-Strauss lét ekki sitt eftir liggja á því sviði eins og hið
mikla fjögurra binda verk hans, Mythologiques, ber vitni um.
En hvað eru þá þessi hugsunarlögmál sem Lévi-Strauss les úr
goðsögum? Hér kemur sálgreiningin eða freudisminn til sögunnar.
Þessi lögmál, segir Lévi-Strauss, eru manninum ómeðvituð, þau eru
í undirvitundinni og við notum þau til að hugsa án þess að taka eftir
því. Rétt eins og sálgreiningaraðferðin leitar að duldum þáttum í
undirvitund manna, þáttum sem geta gefið vísbendingar um það
hvers vegna menn haga sér eins og þeir gera eða finna til á einn eða
annan hátt, leitar Lévi-Strauss að duldum grunnþáttum mannlegrar
hugsunar. Það er hugsunin, vitsmunalífið, sem Lévi-Strauss leitast
við að skýra, ekki tilfinningarnar.
9 Sjá t.d. Pál Björnsson 2011 og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur 2011.