Skírnir - 01.04.2012, Page 137
SKÍRNIR
AÐ SKILJA HEIMINN OG ...
135
meðtaka og tjá fyrirbæri sem annars geta verið býsna flókin. Öll
þekkjum við til dæmis táknrænu þjóðfána sem við notum til að geta
tjáð orðalaust sjálfstæði þjóða. Fánar eru einfaldlega góðir til að
hugsa með um fyrirbæri sem annars þyrfti að skýra í löngu máli.
Fánaborgir vegna atburðar á alþjóðavettvangi tjá til dæmis orðalaust
hvaða ríki eru saman komin.
Hitt atriðið, og það er grundvallaratriði í formgerðarhyggju
Lévi-Strauss, er að litirnir í dæminu af umferðarljósunum fái merk-
ingu sína af tengslum þeirra hvers við annan. Hér gætir áhrifa
gerðarmálvísinda Romans Jakobson og fleiri. Hljóð eins og til
dæmis [a] er í sjálfu sér ekki merkingarbært. Það er ekki fyrr en
hljóðið er komið í samhengi við annað hljóð að merking verður til,
aka, ata, til dæmis. Merkingin liggur því í tengslum hljóðanna. Sama
er að segja um einingarnar/táknin sem mannshugurinn notar, merk-
ing þeirra fer eftir tengslum þeirra við önnur sambærileg tákn.
Tungumál eru að sjálfsögðu hluti þeirrar menningar sem manns-
hugurinn skapar og engin ástæða er til að ætla annað en að aðrar af-
urðir mannshugans lúti sömu hugsunarlögmálum og þau.
Það er því tengslanet táknanna sem við erum að rannsaka og
greina. Lévi-Strauss segir á einum stað að formgerðargreining felist
í því að raða táknum upp í töflu með öllum hugsanlegum tvístæð-
um. Síðan er það þessi tengslatafla sem greina skal til að finna merk-
ingu táknanna og þar með formgerð þeirrar menningar sem raðar
þeim upp (Lévi Strauss [1958] 1963b). Eins og gefur að skilja yrði
slík tafla óbærilega umfangsmikil enda notar hann sjálfur ekki þessa
aðferð nema að litlu leyti. Eftir stendur að merking táknanna felst í
tengslum þeirra.
Grunnkenning Lévi-Strauss er þá sú að mannshugurinn, sam-
kvæmt ómeðvituðum lögmálum sínum, vinnur úr skynjunum
mannsins með því að raða þeim upp í tvístæðar andstæður og miðla
á milli þeirra. Þegar komið er niður á botn í jarðsögu menningar-
innar/undirvitund hennar, til dæmis í goðsögum, finnum við grunn-
andstæður mannlegrar tilvistar, andstæður eins og líf og dauða,
náttúru og menningu, karl og konu, borinn af einum en getinn af
tveimur og svo framvegis. Þetta eru óbrúanlegar andstæður og því
óbærilegar. Við getum ekki svarað því til dæmis hvernig lífið