Skírnir - 01.04.2012, Page 141
SKÍRNIR
AÐ SKILJA HEIMINN OG ...
139
andi þess. Ekki bætti úr skák að í Regnskólabeltinu raunamœdda
lýsir Lévi-Strauss aðferð mannfræðingsins þannig að hann leitist við
„að þekkja og meta manninn af hæfilega háum og fjarlægum sjónar-
hóli í því skyni að aðskilja hann frá sértækum aðstæðum ákveðins
samfélags eða menningar“ (Lévi-Strauss [1955] 2011: 61). Þessi
aðferðafræðilega sýn er gersamlega öndverð sýn Bretanna sem töldu
að manninn, samfélag hans og menningu, yrði einmitt að rannsaka í
sínum sértæku aðstæðum og að rannsakandinn yrði að vera þátt-
takandi í því samfélagi sem hann leitaðist við að skilja, en ekki horfa
á það utan frá.12 Mannfræði Lévi-Strauss vantaði því alla jarðteng-
ingu að áliti bresku félagsgerðarhyggjumannanna, hún var hugar-
leikfimi, nokkurs konar merkingarfræðileg algebra, skýjabólstra-
fræði sem ættu lítið skylt við veruleikann. Er sú afstaða ekki ósvipuð
gagnrýni Lévi-Strauss á heimspekina.
Þetta sjónarmið Bretanna varð ég áþreifanlega vör við í grunn-
námi mínu í mannfræði í einu höfuðvígi bresku félagsgerðarhyggj-
unnar og vettvangsrannsókna, The London School of Economics
and Political Science. Lítið var fjallað um verk Lévi-Strauss í nám-
inu og þegar ég vildi nota aðferð hans til að greina þær goðsögur
Gylfaginningar, sem áður er getið, sem lokaverkefni í náminu komst
ég að raun um að kennarar deildarinnar voru ófúsir að leiðbeina
mér. Sumir töldu formgerðarhyggjuna villukenningu og að ég gerði
sjálfri mér engan greiða með að skrifa lokaverkefni byggt á henni.
12 Vettvangsrannsóknir eiga sér gildar forsendur en sú mikla áhersla sem breskir
mannfræðingar lögðu á þessa rannsóknaraðferð eftir 1920 má að hluta til telja til
viðbragða við þróunarhyggjunni. Sú hyggja, sem var ráðandi í mannfræði á síðari
hluta 19. aldar og fram á þá tuttugustu, miðaðist við að setja fram línulega skala
um félagslega þróun mannkyns frá frumstæðu til siðmenntaðs. Þessi kennistefna
rímaði vel við hagsmuni nýlenduveldanna sem þar með gátu réttlætt athafnir
sínar með því að þau væru að koma „frumstæðu" fólki til manns. Einnig notuðu
margir af þeim fræðimönnum sem rituðu innan þessarar hyggju ónákvæmar
upplýsingar fengnar frá öðrum, fóru ekki á vettvang en voru „sófamann-
fræðingar". Þessir fylgifiskar þróunarhyggjunnar og aðferðir hennar voru eins og
beiskt bragð í munni mannfræðinga þegar kom fram á 20. öld. Þeir sneru við
blaðinu, meðal annars með því að leggja gífurlega áherslu á vettvangsrannsóknir
sem undirstöðu kenningasköpunar. Það er því ekki að furða að aðferðir Lévi-
Strauss hafi ekki átt upp á pallborðið hjá vettvangssinnuðum mannfræðingum.
Hugsun þróunarhyggjunnar lifir hins vegar góðu lífi sums staðar í fræðunum og
ekki síður utan þeirra.