Skírnir - 01.04.2012, Page 152
150
ALDA BJÖRK VALDIMARSDÓTTIR
SKÍRNIR
lítið úr syni sínum Magnúsi þegar hann heimsækir hana og hefur
gaman af því að hrekkja tengdadótturina sem stendur í skilnaði við
Magnús með því að senda henni tölvubréf undir dulnefni. Hún á í
sambandi við margt fólk á Fésbók en gengur þá undir ýmiss konar
nöfnum og gervum, m.a. skrifast hún á við Bakari Matawu frá Zim-
babwe undir nafni og andliti Lindu Pétursdóttur.
Herbjörg María og sú Brynhildur sem kemur fram í ævisögunni
eru ekki líkar þótt þær eigi valkyrjunafnið sameiginlegt og séu báðar
flökkukindur, sérstaklega þó Brynhildur. Herbjörg María fæðist á
ísafirði 1929 og elst upp hjá móður sinni í Svefneyjum á Breiðafirði.
Árið 1936 hittir hún föður sinn í fyrsta sinn og flyst fjölskyldan þá
til Lubeck í Þýskalandi. Þegar stríðið skellur á fer Herbjörg með
móður sinni til Sveins afa og ömmu Georgíu sem búsett eru í Kaup-
mannahöfn þar sem hún gengur í danskan skóla. Árið 1941 flytur
hún ásamt móður sinni til föðursystur sinnar, Kylle, sem býr á Sjá-
landi og þaðan heldur hún til eyjunnar Amrum.
Æska Brynhildar Georgíu Björnsson er um margt ólík lýsingu
Hallgríms. Hún fæddist í Svíþjóð 1930 og ólst upp í Hamborg með
móður sinni og föður sem skildu 1938. Móðir hennar hélt til Islands
en hún varð eftir í umsjón föður síns. Hún fluttist til afa Sveins og
ömmu Georgíu í Kaupmannahöfn og gekk í danskan skóla. Árið
1941 er henni komið fyrir hjá móðursystur sinni, Kylle, á Sjálandi
og um vorið 1942 hjá vinafólki á Amrum. Það er helst þar og svo á
Sjálandi og í Kaupmannahöfn sem frásagnirnar falla saman. Báðar
eru lagðar í einelti í dönskum skólum sem verður síðan ástæðan
fyrir Danahatri þeirra. Brynhildur orðar það sjálf svo að eineltið
hafi „orðið kveikja að vissri Dana-andúð, sem hefur aldrei horfið
að fullu" (Steingrímur St. Th. Sigurðsson 1983: 16).
Brynhildur Björnsson finnur bersýnilega ekki frið og festir
hvergi rætur. Sú kona sem birtist í ævisögunni er hlýleg, svipmikil og
hörkudugleg. Hún kann að bjarga sér, er húmoristi, en virðist þó
aldrei hafa náð sér eftir sviplegt fráfall tveggja barna sinna. Hún er
náttúruunnandi, með greinilegan trúarstreng, í senn einfari og félags-
vera, sem talar vel um fólk og er rausnarleg við þá sem hafa reynst
henni vel á lífsleiðinni og henni þykir vænt um. En Ellefu líf segir ekki
frá síðustu 25 árum Brynhildar því að ævisagan kom út 1983.