Skírnir - 01.04.2012, Page 178
176
RAGNAR JÓHANNSSON
SKÍRNIR
fannkoma hafi verið geysimikil á fjöllum og aðallega sé það „Kjal-
hraun sjálft, sem bindur fannir, þegar svo fellur, og þó einkum
suðurhluti þess,“ en þar tjölduðu Staðarmenn. Guðmundur segir
meira að segja „allar líkur benda til þess að fjárbreiðan og það, sem
henni fylgdi, hafi sokkið á mjög skömmum tíma. Beinin lágu svo
þétt, að sýnilegt er, að féð hefur verið bælt þarna og verið sokkið
áður en sá tími var liðinn, sem venja þess var að rísa á fætur.“
6. Atburðir íjúní 1781
Næstu mannaferðir yfir Kjöl svo vitað sé er ferð þeirra Jóns Egils-
sonar á Reykjum, Sigurðar sonar hans og Björns Illugasonar, þess
hins sama og fylgt hafði Grafar-Jóni á jólaföstu. Þessi ferð var fjár-
kaupaferð. Svo virðist sem feðgarnir Jón og Sigurður hafi verið að
kaupa fé fyrir sig sjálfa en Björn verið sendur af Reynistaðar-
hjónum því enn vantaði fé á Reynistað. Björn hafði þá nýlega farið
um Kjöl, kunnugur staðháttum og því tilvalið að hann færi þessa
för. Þeir hljóta að hafa lagt upp snemma vors, áður en Kjölur
verður ófær vegna krapa og aurbleytu. Þeir fóru austur fyrir hraun
að eigin sögn, ekki yfir hraunið heldur fylgdu þeir hraunjaðrinum
suður í Eystri Svartárbotna og komu sömu leið til baka með féð að
sunnan. Ljóst er að þeir hljóta að hafa keypt fé í Hreppum og þá
væntanlega ær sem voru búnar að bera. Þeir hafa sennilega tekið
við fénu að fráfærum og stekkjatíð lokinni sem er um sex vikur frá
sauðburði. Það er því í þann mund sem Kjalvegur er orðinn nógu
þurr til ferðalaga.
Um leið og fært varð á Kjöl voru einnig mannaferðir að norðan.
Þar var um að ræða menn á vegum Hólastaðar — einnig í kaupaferð
á leið suður Kjöl. Fyrir þeim fór Tómas Jónsson á Flugumýri, lestar-
stjóri Hólastóls. Hann hafði séð um skipulag allra meiri háttar inn-
kaupa og flutninga fyrir Hólastað. Það hefur verið vandastarf og
því eflaust traustur maður og athugull valinn til þess verks. Með
honum voru Þórður Símonarson í Beingarði í Hegranesi, Runólfur
Jakobsson og Dagur Grímsson, báðir frá Hólum í Hjaltadal (Sig-
urður Ólason 1969a). Ólíkt þeim feðgum frá Reykjum og Birni fóru
þeir yfir hraunið á leið sinni suður. Því varð það að þeir riðu fram