Skírnir - 01.04.2012, Page 223
SKÍRNIR HUGMYNDIR UM NÁMSMARKMIÐ ... 221
sem eru aðalsmerki menntaðs manns og leiðarstjörnunum sem slíkur maður
fylgir. Við týnum með öðrum orðum niður miklu af því sem gerir lærdóm
að menntun.
Sumt í nýju aðalnámskránni má ef til vill skilja og túlka sem góðar og
gildar leiðarstjörnur. Hér hef ég einkum í huga það sem segir í kafla 2 um
að skólastarf skuli hafa sex meginþætti (sem kallaðir eru ,,grunnþættir“).
Þeir eru læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og
velferð, sköpun. En tæknihugsunin í þeim hlutum textans sem fjaila um
markmið og skipta þeim öllum í þrjá flokka er að mínu viti varhugaverð, því
áhersla á markmið sem hægt er að ná og áætla hvað taki langan tíma að ná
er í reynd áhersla á það hverfula og lítilsverða. Markmiðin sem skipta máli
eiga fremur samleið með hefðbundnum aðferðum við námskrárgerð þar
sem einfaldlega er byrjað á að skipta tímanum milli námsgreina eða við-
fangsefna og kennsla hvers fags svo hugsuð með hliðsjón af leiðarstjörnum
eða opnum markmiðum.
Ef til vill er árangur skólastarfs mestur og bestur þegar menntunin gerir
nemendum kleift að koma á óvart og gera hluti sem ekki var hægt að sjá
fyrir. Það segir sig sjálft að ef við viljum að þeir komist lengra en við höfum
náð þá getum við ekki varðað alla leiðina sem þeir eiga að ganga — þá
getum við í besta falli bent á leiðarstjörnur. Meðal lærðra manna í nám-
skrárfræðum sem bentu á þetta á síðustu öld var breskur maður, Lawrence
Stenhouse (1926-1982) að nafni, framarlega í flokki. Hann sagði:
Sá hluti menntunar sem leiðir til þess að nemendur öðlast þekkingu
heppnast að svo miklu leyti sem atferli þeirra verður ófyrirsjáanlegt.
Hugsum okkur að það sé verið að fara yfir söguritgerðir. Sá sem fer yfir
þær þarf að lesa mikinn fjölda af þeim. Sem hann les stendur hann oft
frammi fyrir þeirri dapurlegu staðreynd að þær eru hver annarri líkar.
En það leynist samt ein og ein í staflanum sem er frumleg, kemur á
óvart, sýnir merki um sjálfstæða hugsun. Þessar ófyrirsjáanlegu, það
eru þær sem eru bestar. (Stenhouse 1975: 82)
Stenhouse útilokar ekki að lokuð markmið, sem hægt er að ná eða ljúka, eigi
rétt á sér. En stundum hentar markmiðssetning af þessu tagi ekki. Þetta er
meðal annars vegna þess að menntun á að gera menn færa um að hugsa út
fyrir rammann. Við getum ekki bæði viljað að nemandi komi kennara
sínum á óvart og að kennarinn lýsi því nákvæmlega fyrirfram hvað úr
honum skal verða. Það er líka misskilningur að menntun geti snúist um það
eitt að nemendur nái markmiðum sem námskrárhöfundar eða kennarar hafa
ákvarðað fyrirfram. Fyrir þessu hef ég tilgreint þá ástæðu að mikilvægustu