Skírnir - 01.04.2012, Page 225
ÞORVALDUR GYLFASON
Eftir hrun: Ný stjórnarskrá
I. Inngangur
Þjóðir bregðast oft við miklum skakkaföllum með því að skoða lög sín
og stjórnarskrá til að leita að brestum sem vörðuðu veginn fram af bjarg-
brúninni.1 Þess var krafist á útifundum á Austurvelli búsáhaldabyltingar-
veturinn 2008-2009 að ný stjórnarskrá yrði samin handa íslandi. Rann-
sóknarnefnd Alþingis (2010: 8, 184) lagðist á sömu sveif. Endurskoðun
stjórnarskrárinnar hefur raunar áratugum saman verið á stefnuskrá helstu
stjórnmálaflokka landsins en ekkert orðið úr.
Norski heimspekingurinn Jon Elster (1995) greinir sjö áfanga í stjórn-
arskrárgerð eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna 1776. Fyrst tóku
Bandaríkin, Pólland og Frakkland upp stjórnarskrár 1780-1791 og síðan
Svíþjóð 1809 og Noregur 1814. Því næst samþykktu ýmis Evrópuríki nýjar
stjórnarskrár í kjölfar byltinga í álfunni 1848 en þær urðu fæstar langlífar
því að byltingarnar voru bældar niður. Þriðji áfanginn fólst í því að fjöldi
nýrra stjórnarskráa varð til í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöldina 1914-1918,
í Póllandi, Tékkóslóvakíu, hinu sigraða Þýskalandi og fleiri löndum. Eftir
síðari heimsstyröldina 1939-1945 gerðist hið sama en þá má segja að sigur-
vegarar í stríðinu hafi lesið hinum sigruðu þjóðum, Itölum og Japönum,
fyrir nýjar stjórnarskrár; bandamenn settu Þjóðverjum einnig fyrir að semja
nýja stjórnarskrá, sem Þjóðverjar settu sér síðan sjálfir árið 1949.1 fimmta
lagi skal nefna stjórnarskrár sem nýfrjáls ríki í Afríku og Asíu tóku upp
eftir að hafa losnað undan yfirráðum Breta, Frakka og annarra nýlendu-
velda. Það gerðist á nokkru árabili eftir heimsstyrjöldina. Sjötti áfanginn
telur stjórnarskrár sem Grikkland, Portúgal og Spánn tóku upp eftir að
einræðisstjórnir þar voru hraktar frá völdum 1974-1978. Eftir að komm-
únisminn hrundi í Evrópu 1989-1991 voru skömmu síðar samþykktar
1 Frumgerð þessarar ritsmíðar, „From Collapse to Constitution: The Case of Ice-
land“, birtist fyrst í ritröð Háskólans í Múnchen í Þýskalandi í mars 2012. Illugi
Jökulsson þýddi og stytti ensku gerðina. Þeir sem höfundurinn þakkar neðanmáls
í frumgerðinni eiga jafnframt þakkir skilið fyrir hjálpina við íslensku útgáfuna.
Skímir, 186. ár (vor2012)