Skírnir - 01.04.2012, Page 236
234
ÞORVALDUR GYLFASON
SKÍRNIR
hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn
fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á
jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkall-
anlegs forræðis yfir auðlindunum.
Með „fullu verði“ er átt við fullt markaðsverð — þ.e. hæsta verð sem
nokkur er fús til að greiða fyrir nýtingu tiltekinnar auðlindar, hvort heldur
á uppboði eða samkvæmt samkomulagi af öðru tagi við ríkið sem fulltrúa
rétts eiganda, sem er þjóðin sjálf. Þarna er gengið á hólm við gildandi skipu-
lag, en eins og allir vita fékk takmarkaður hópur útgerðarmanna fiskikvóta
í raun að gjöf þó seinna hafi ríkið tekið að innheimta málamyndagjald fyrir.
I þessu fólst misrétti sem gekk í berhögg við gildandi stjórnarskrá sam-
kvæmt bindandi áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (2007).
Auðlindaákvæðið er ásamt ákvæðum um umhverfisvernd í sérstökum kafla
frumvarpsins sem ber heitið „Mannréttindi og náttúra“. Því var svo fyrir
komið til að hnykkja á því að heilnæmt umhverfi og vernd umhverfis og
auðlinda heyra undir mannréttindi. Takið eftir orðalaginu að auðlindirnar
séu „sameiginleg og ævarandi eignþjóðarinnar". Margar stjórnarskrár (t.d.
Angóla, Gana, Irak, Kína, Kúveit, Rússland og Síle) kveða á um að nátt-
úruauðlindir séu eign ríkisins. Aðrar nefna þetta alls ekki eða á fremur
óljósan hátt, svo sem stjórnarskrá Nígeríu þar sem segir að „efnalegar
auðlindir þjóðarinnar eru nýttar og þeim dreift eins vel og verða má í sam-
eiginlega þágu“.
Orðalag frumvarpsins er reist á skýrum fræðilegum greinarmun á
„þjóðareign" og „ríkiseign“. Ríkiseignir, svo sem skrifstofuhúsnæði, getur
ríkið selt eða leigt að vild eða veðsett. Þjóðareign er hins vegar eign sem
„aldrei má selja eða veðsetja". Orðalagið „ævarandi eign þjóðarinnar" er
fengið úr lögum frá 1928 um þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem segir að
land Þingvalla skuli vera „undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku
þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja“. 1 orðalaginu um þjóðareign
felst að núlifandi fólk deilir jafnt Þingvöllum sem náttúruauðlindunum með
komandi kynslóðum og má ekki eyða þeim eða tefla þeim frá sér. Þessar
hömlur eiga bæði við um auðlindirnar sjálfar og réttinn til nýtingar á þeim.
Meðal annars til að meitla þennan mun á þjóðareign og ríkiseign er 32.
grein um menningarverðmæti orðuð á svipaða lund:
Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo
sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til
varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.