Skírnir - 01.04.2012, Side 251
SKÍRNIR
LANDNÁMSMENN
249
Gunnar en hann fór aðra leið, varð fyrsti atvinnuhöfundurinn á íslensku á
20. öld, tók forystu á bókmenntavettvanginum og sótti þaðan til annarra
landa. Þetta sveið Gunnari alla tíð, eins og Jón Yngvi lýsir vel.
Þótt Gunnar ungi sé um margt hrífandi er sá Gunnar sem birtist okkur
í seinni hluta bókarinnar ekki alltaf sympatískur; alvörugefinn og þung-
stígur og ekki laus við beiskju og ofsóknarhugmyndir. Hér fellur Jón Yngvi
kannski í þá gryfju sem ég hef lent ofan í sjálfur, að draga sögulokin um of
á langinn, fara of hægt yfir þar sem söguefnið er orðið heldur rýrt og sníða
þá persónu sinni fullþröngan stakk; þá verður persónan stór í sigrum sínum
og lítil í ósigrum. Mótunar- og sköpunartími Gunnars sem höfundar er
auðvitað miklu áhugaverðari fyrir nútímalesanda en þeir áratugir þar sem
sagnasjóðurinn er tómur og hann situr við að þýða sjálfan sig á íslensku, líkt-
og hann sé búinn að snúa við ferlinu sem hann lýsti í bréfinu til Sumarliða
hér að ofan, þurfi nú að skrifa á íslensku til að afla sér nafns og álits heima.
Auðvitað dofnaði yfir Gunnari þegar á leið, eins og okkur öllum. Á fjórða
áratugnum samdi hann fyrirlestur um örlagahugsun, og þar standa þessi
orð: „Þetta hér er lífið — þú ert staddur í því miðju. Þú ert staddur í miðju
því sem var og er og verður. Þú ert staddur í sköpuninni miðri og eilífðin
er í kringum þig. Breyttu samkvæmt því!“ Þegar hann þýddi lokaorðin
sjálfur tuttugu árum síðar hljóðuðu þau svona: „Minnstu þess og hegðaðu
þér í samræmi við þá vitund.“2
I heildina er Gunnar dreginn skýrum dráttum og samúð höfundar með
aðalpersónu sinni ljós, þótt hann gæti líka krítískrar fjarlægðar. Persónu-
sköpun sögumanns er líka vel heppnuð; lesandanum líður vel í návist þessa
fulltrúa höfundar, og það sem meiru skiptir, hann trúir honum. Framsetn-
ingin er nútímaleg að því leyti að Jón Yngvi þykist ekki alvitur sögumaður,
hann er ekki að segja síðasta orðið, hann segir frá rannsóknum sínum og um-
hugsunarefnum og á óhikað orðastað við aðra sem skrifað hafa um Gunnar,
þar á meðal undirritaðan, svo því sé til skila haldið. Það gerir hann oftast vel
þótt einstaka sinnum gæti óþarfa yfirlætis, eins og þegar hann skýrir fyrir
lesendum af hverju ég átta mig ekki á hugmyndastefnu skandínavismans:
„það er algengur skortur á söguhyggju sem birtist hjá Halldóri þegar hann
kallar Gunnar nítjándu aldar mann“ (225). Af því að höfundur víkur
nokkrum sinnum að þessu er rétt að taka fram að þetta ber auðvitað ekki
að taka bókstaflega heldur er vísað til þess að menningarsögulegar rætur
Gunnars séu á nítjándu öld. Tökum dæmi: Flest helstu verk Gunnars á
2 Sjá Halldór Guðmundsson. 2006. Skáldalíf: Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á
Skriðuklaustri, Reykjavík: JPV-útgáfa, bls. 278.