Morgunblaðið - 16.11.2018, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 16.11.2018, Blaðsíða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. NÓVEMBER 2018 Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (Valdimar Briem) Ingibjörg Ragnarsdóttir. Ingibjörg Bjarnadóttir eða Stúlla eins og hún var alltaf kölluð er farin frá okkur allt of snemma. Stúlla var hluti af lífi okkar hjóna í hartnær 30 ár. Við erum afar þakklát fyrir að hafa fengið að vera í hennar vinahring þetta lengi en hún var alltaf til í að opna sína arma eða leggja til eyru og hlusta eða spjalla. Ekki var hún bara vinkona okkar hjóna heldur reyndist börnum okkar, Hlöðveri og Matthildi, góður vinur. Stúlla var mikil drottning sem eftir var tekið alls staðar. Hún hafði sinn stíl á hlutunum og lagði talsvert á sig til að passa upp á útlitið. Hárið, hæl- arnir og varaliturinn voru alltaf upp á sitt besta alveg sama hvað gekk á í veðri og vindum. Og það var ekki bara einhvern veginn, ónei, allt upp á tíu þeg- ar kom að útlitinu enda fór þar glæsileg og gullfalleg kona sem passaði upp á sinn stíl. Minningarnar um og með Stúllu sem tengjast okkar lífi eru margar og allar tengjast þær mikilli gleði, léttleika, hlátri og alls kyns bröndurum sem við gátum hlegið að sem líklega enginn annar gæti skilið og fullt af fíflaskap sem ekki er hægt að skrifa á blað. Það var oft alls kyns vesen á Stúllu, þá meinum við það á já- kvæðan hátt. Það þurfti að skutlast, sækja sígó, kaupa sokkabuxur og hendast hingað og þangað sem allt skilur eftir sig alls kyns sögur og fyndnar stórkostlegar uppákomur sem lifa með okkur alla ævi. Margir sem þekktu til Stúllu vita að hún var vel tengd við heima sem við hin sjáum ekki og þekkjum ekki en Stúlla gat oft laumað á mann skilaboðum að handan. Stundum komu skilaboðin upp úr þurru og þá sagði hún oft „ég er helvíti góð í þessu“ og hló með sínum dul- arfulla, kómíska hlátri. Stúlla var fyrst og fremst dóttir, móðir og amma og sá ekki sólina fyrir börnunum sín- um og talaði oft og iðulega um þau við okkur með miklu stolti. Fjölskyldunni vottum við okkar dýpstu samúð. Elsku Stúlla, takk fyrir allar okkar frábæru stundir og góða vinskap sem lifir að eilífu. Sigurður, Þorbjörg, Hlöðver og Matthildur. Við kynntumst Stúllu fyrir um það bil 20 árum í gegnum sameiginlegan vin frá þeim tíma, okkur fannst hún strax mjög heillandi persóna með mikla töfra og tókst með okkur frábær vinskapur sem entist til hinsta dags. Stúlla var mjög sérstakur karakter og vakti athygli hvert sem hún fór, það fór ekkert á milli mála þegar drottningin var mætt. Ef maður sagði Ingi- björg við Stúllu kom bara upp hlátur, hún var aldrei kölluð neitt annað en Stúlla, það þekktu hana flestir undir því nafni. Hún lét breyta nafninu á sjúkrahúsinu í Stúlla því þegar fólk kom í heimsókn og spurði um hana var hana hvergi að finna. Hún hafði gott skopskyn og oft var stutt í gamansemina hjá henni. Stúlla var með afbragðsgott minni sem við urðum oft undr- andi yfir og minnti hún okkur oft á stálminni sitt þegar hún rifjaði upp eitthvað sem hún hafði sagt mörgum árum áður, jafnvel eitthvað sem manni fannst kannski ekkert merki- legt þá. Stúlla hafði hæfileika sem við fæst höfum og bar það ekkert sértaklega á torg, en þeir sem þekktu hana vissu af hennar hæfileikum, hún var kölluð miðill, spákona eða galdrakona í gamansömum tón. Fyrir okkur var hún bara Stúlla og vinur okkar sem var alltaf hægt að leita til. Hún hjálpaði mörgum í erfiðum að- stæðum sem tóku oft mjög á hana. Fjölmiðlar leituðu til hennar til að fá hana til viðtals en það þáði hún aldrei enda ekki í leit að neinum frama fyrir sjálfa sig í þessum málum frekar en öðr- um, hún hafði frekar hljótt um sig þó að hún hefði verið áber- andi persóna. Þetta kann að hljóma mótsagnakennt en engu að síður staðreynd. Hún hafði ákveðnar skoðanir og fór ekki alltaf troðnar slóðir í þeim efnum, hún gaf lítið fyrir upphrópanir annarra sem höfðu litla innistæðu fyrir þeim, fór ekkert í kringum málefnin og sagði hlutina eins og þeir voru en ekki eins og þú vildir heyra þá. Hún hafði ótrúlegt innsæi á flesta hluti og var vel inni í öll- um málum, maður kom aldrei að tómum kofunum hjá henni. Ég minnist þess aldrei að hafa heyrt hana tala um þriðja aðila varðandi mál sem voru á hennar borði. Hún var mjög trygg viðmælendum sínum. Við Stúlla ræddum um öll málefni sem komu upp í dag- legu lífi okkar, hvort sem það var fótbolti, viðskipti, þjóðmál eða ýmis önnur mál. Alltaf hafði hún innlegg í umræðuna sem maður tók eftir að var ekki bara innantómt hjal heldur var innistæða fyrir, hún vissi sínu viti. Nú er komið að leikslokum og búið að flauta leikinn af en minningin um yndislega konu með einstakan karakter lifir um ókomna tíð. Missir fjölskyld- unnar er mikill en Stúlla og Dagmar voru einstaklega sam- rýndar og missir hennar er mikill. Við fjölskyldan sendum henni okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Símtölum er lokið í bili. Þín verður sárt saknað en hafðu þökk fyrir allt, elsku vinkona. Hvíl í friði. Sævar Jónsson. Fáir í þessum heimi munu komast með tærnar þar sem Ingibjörg Bjarnadóttir var með hælana. Enda hælarnir hennar Stúllu fleiri tommur á hæð. Hún klæddist ávallt svörtu „catsuiti“ og bar einhverja þá alfallegustu aukahluti sem fyr- irfinnast. Síð kápa, aðeins yfir axlirnar þó, feldur, töskur af fínustu gerð, gullkeðjur, skart og steinar settu þó aðeins punktinn yfir i-ið, því þrátt fyr- ir allt góss, limaburð og líkama kom fegurð Stúllu fyrst og fremst innan frá. Stúlla vakti athygli fólks hvar sem hún fór. Upplifun okkar var í einlægni sú að það var eins og allt og allir stopp- uðu þegar hún mætti á svæðið. Allir mændu á þessa guðdóm- lega fallegu konu sem var alltaf eins og kvikmyndastjarna og passaði engan veginn inn í ís- lenskan hversdagsleika. Tíminn leið líka hægar með Stúllu. Allt fór með einhverjum undraverðum hætti í „slow motion“ þegar maður var með henni. Ekkert skipti máli nema núið. Stúlla vissi um hvað lífið snýst, hvað er mikilvægt, merkilegt og hvað er ómerki- legt. Hún vissi miklu lengra en hennar fallega nef náði. Hún gat alltaf sagt manni hvernig, hvenær og af hverju. Stúlla velti sér ekki upp úr smáatriðum. Hún gat útskýrt hið óútskýranlega, séð hamingjuna í hinu sorglega. Hún gat leið- beint, gefið ráð og þau eru ein- hver þau bestu sem við höfum fengið. Hún hjálpaði ótalmörgum og okkur mikið. Leiðbeindi og miðlaði af sinni alkunnu og ein- stöku snilld og leyfði öðrum fúslega að njóta hæfileika sinna. Þeir voru miklir. Stúlla kom víða við. Hennar tengingar og ráð hafa hjálpað fólki um víða veröld. Stúlla var áhrifavaldur. Hún var líka ein- hver besti vinur sem hugsast getur. Ást er falleg. Hún var ástvin- ur okkar. Frásagnir og minningar henni tengdar eru svo ótal margar og allar svo óútskýr- anlega ljúfar. Stúlla hafði ein- staka kímnigáfu. Hún sá hlut- ina alltaf eins og þeir eru og talaði aldrei undir rós. Sögurnar frá Ítalíu eru með þeim fyndnustu og skemmtileg- ustu sem maður hefur heyrt. Við sáum persónur þar ljóslif- andi fyrir okkur þegar hún sagði frá, eins og í kvikmynd í hæsta gæðaflokki. Raunveruleiki sem ekki allir sjá í sama ljósi eða geta sagt jafn vel frá og Stúlla. Lýsing- arnar á lífi samferðafólks þar suður frá eru ógleymanlegar. Margs er að minnast. Tíma sorgar og söknuðar sem Stúlla hjálpaði okkur að komast í gegnum og tíma gleði og kátínu þar sem hún var í aðalhlut- verki. Fólkið sem starði á okkur á rauðu ljósi þegar við ókum henni á Drottningarbílnum í hárgreiðslu í Hafnarfjörð, með litinn í hárinu, kemur upp í hugann. Hún bað okkur alltaf að spila Massachusetts með Bee Gees þegar við vorum í miklu stuði. Nú syrgjum við hana. Við erum þakklátir fyrir að hafa átt Stúllu okkar sem vin. Hún mun ávallt eiga stóran stað í hjörtum okkar og við vit- um að hún tekur fagnandi á móti okkur með ísköldu Boll- inger og brjóstaknúsi þegar þar að kemur. Ást og friður, Jóhann og Ragnar (Joey Boy & Raggio). Í dag kveð ég mína góðu vin- konu, Stúllu. Stúllu kynntist ég fyrir um það bil 25 árum, þegar ég stundaði samkvæmisdansa af miklu kappi með Berglindi vin- konu minni. Stúlla aðstoðaði okkur þá við andlegan undir- búning, bæði fyrir og á keppn- ismótum. Við náðum miklum árangri á þeim vettvangi og Stúlla átti sinn þátt í því. Ég hélt sambandi við Stúllu fram til dauðadags. Það var alltaf gott að leita ráða hjá henni ef mikið lá við – þá var hægt að fara yfir málin og fá aðra sýn á hlutina. Það má segja að Stúlla skilji eftir sig fingraför víða í sam- félaginu. Í áratugi aðstoðaði hún af fórnfýsi fólk á öllum sviðum lífsins til að ná árangri og markmiðum sínum. Hún vann mikið með afreksfólki í íþróttum, stjórnendum fyrir- tækja og hverjum þeim sem þarfnaðist stuðnings eða sálu- hjálpar vegna veikinda eða áfalla. Það standa margir í þakkarskuld við Stúllu. Ekki liðu nema tæpir tveir mánuðir frá því að Stúlla veikt- ist alvarlega og þar til hún lést. Ég gat sem betur fer heimsótt hana nokkrum sinnum á sjúkra- húsið og fékk þannig tækifæri til að kveðja mína kæru vin- konu og þakka henni fyrir þann stuðning og hlýju sem hún sýndi mér á langri vináttu. Hún var sannarlega haukur í horni. Ég minnist Stúllu með hlý- hug og þakklæti og sé hana ljóslifandi fyrir mér, glettna á svip með eldrauðan varalit og filterslausan Camel milli fingra. Hvíl í friði elsku vinkona. Benedikt Einarsson. Stundum kemur inn í líf manns fólk sem breytir því al- gjörlega hvernig maður sér heiminn. Einhvern veginn verð- ur allt litríkara, fallegra, skemmtilegra, áhugaverðara og hefur meiri tilgang. Þessi áhrif eru svo sterk að hvort sem við- komandi er með okkur lengur eða ekki virðist allt saman vera eitthvað aðeins öðruvísi en það var áður en maður kynntist þeim. Það er þetta fólk sem við geymum ávallt í hjarta okkar, minningarnar eru svo skemmti- legar, góðar og sterkar að við gleymum þeim aldrei. Snædís var ein af þessum manneskjum sem gjörbreyttu mínu lífi og hvernig ég sé lífið og umhverfið í dag, þær eru óteljandi stund- irnar sem við fjölskyldan höfum grátið úr hlátri yfir einhverju sem Snædís sagði eða gerði. Nefni sem dæmi þegar ég gekk á eftir henni um ranghala Rúmfatalagersins, sem var klár- lega hennar uppáhaldsbúð, hún hafði enga hugmynd um að ég væri þar, en þegar hún sneri sér við og sá mig, maður minn, því- líkt öskur sem kom. Ég held að enginn sem var inni í verslun- inni hafi misst af því, grunar að það hafi heyrst yfir í Hagkaup. Hver annar en Snædís (ET) kaupir sér fimm pör af nákvæm- lega eins skóm, bara til þess að spreyja fjögur pör í öðrum lit? Hún var alltaf svo praktísk, of háir hælar? – ekki málið, hún sagaði bara neðan af þeim og málið var leyst. Snædís sá aldrei vandamál, bara lausnir – eins og t.d. að láta mig gleypa einn tóm- at á dag, þótt mér þyki þeir vondir. Það er svo stórt skarð sem Snædís skilur eftir sig, svo stórt, en á meðan við sem eftir erum höldum minningu hennar á lofti verður hún áfram með okkur. Við erum svo miklu ríkari að hafa fengið að kynnast henni, átt með henni frábærar stundir við gróðursetningu, á hestbaki, reyna að baka kökur (sem gekk nánast aldrei) eða hlæja saman við matarborðið. Ég er fullur af sorg yfir því að Snædís er farin frá okkur, en umfram allt er ég fullur þakk- lætis fyrir að hafa fengið að kynnast henni og eiga hana sem tengdamóður. Pálmi Steingrímsson. Snædís Gunnlaugsdóttir var mágkona okkar í rúm 40 ár. Hún lést 66 ára að aldri hinn 22. október 2018. Snædís tilheyrði stórri þjóð- kunnri fjölskyldu, barmafull af einstökum gáfum, sérvisku og hæfileikum, en hún þurfti aldrei neina leikræna tilburði til að bera af, hvar sem hún var. Hún var gift inn í fjölskyldu uppfulla af metnaði, dugnaði og sérlund- uðu fólki en þurfti aldrei nema sína eðlilegu framkomu til að bera af öllum öðrum. Glæsileg hugsjónakona. Frumleg og skjótráð, bókstaf- lega leiftrandi. Kom hugsjónum sínum í framkvæmd og lét verk- in tala. Eðlileg og elskuleg í allri framkomu við háa sem lága. Alltaf upplifun og tilhlökkun að Snædís Gunnlaugsdóttir ✝ Snædís Gunn-laugsdóttir fæddist 14. maí 1952. Hún lést 22. október 2018. Bálför Snædísar fór fram í kyrrþey, en kveðjuhóf í hennar anda verð- ur á Kaldbak í kringum afmæl- isdag hennar í maí 2019. hitta Snædísi. Öll- um er afmarkaður tími. Hvernig sá tími er notaður er aðalsmerki hverrar manneskju og tími Snædísar var vel nýttur, landinu, náttúrunni, fjöl- skyldunni og ég leyfi mér að segja almættinu til góða. Þegar ekki var lengur gerlegt vegna forboða að vera hnarreist og dreifa bros- mildri jákvæðni og koma hug- myndum í verk var hennar tími kominn. Við virtum Snædísi í hennar lífi og lífsstarfi með væntum- þykju og aðdáun og við virðum hana og það sem hún stóð fyrir látna. Fjölskyldur okkar sakna hennar úr okkar hópi. Núna þegar hún er horfin úr þessum heimi standa eftir verk hennar, hugsjónir og glæstur hópur af- komenda. Hnípnir ástvinir geta hins vegar verið stoltir í harmi sínum og við erum þakklátir fyr- ir að hafa verið fálátir þátttak- endur í lífshlaupi sem var sér- stakt, einstakt, var hennar. Guðmundur Benediktsson, Stefán Benediktsson. Haustið 1972 hóf nokkur fjöldi stelpna nám við lagadeild HÍ. Ein í hópnum var Snædís Gunnlaugsdóttir. Hvar sem Snædís fór var eftir henni tekið. Hún var glæsileg, ófeimin, greind og frumleg. Hún vakti fljótt athygli í tímum með spurningum og athugasemdum sem við hin höfðum ekki þorað að spyrja en á þeim árum tíðk- uðust enn þéringar hjá einstöku kennurum Úr háskólanum er minnis- stætt þegar Snædís bauð til veislu á Fálkagötuna í tilefni af skírn Sylgju Daggar haustið 1973 því hópurinn hafði tekið þátt í nafnavalinu eða kvenna- verkfallið 1975, Snædís með borða sem á stóð: „Konur skríð- ið upp úr pottunum“. Engin lognmolla í kringum Snædísi. Það fækkaði í stelpuhópnum fyrstu árin og vorum við sex stelpurnar sem lukum laganám- inu 1977. Við höfum haldið sam- an hópinn síðan. Snædís skipaði þar stóran sess. Eitt sumarið voru Snædís og Sigurjón með Sylgju litla á Héraði þar sem Sigurjón var í vinnu það sum- arið. Eftir sumardvölina á Litlu- Brekku varð ekki aftur snúið og hún þráði að komast í sveitina, á þann hluta landsins þar sem sól- in skein. Sá draumur rættist þegar þau fluttu að Kaldbak við Húsavík. Þar bjuggu þau í tæp fjörutíu ár, settu svip á bæj- arlífið, sinntu skógrækt af mik- illi elju, unnu sín störf, hún fulltrúi hjá sýslumanni, hann tannlæknir á staðnum. Þar ólu þau upp börnin sín. Snædís var í leikfélaginu og bæði virk í póli- tíkinni, byrjuðu vinstra megin en höfðu fært sig yfir á hægri helminginn hin síðari ár. Móttökurnar voru alltaf höfð- inglegar á Kaldbak hvert svo sem tilefnið var, á melinn í gamla daga og skóginn nú. Því þetta fólk hafði áhrif og breytti umhverfi sínu. Uppgræðsla sanda og ræktun landsins var nefnilega enn eitt áhugamálið. Snædís var trygg vinkona sem lét vita þegar von var á henni í bæinn og þá hittumst við. Fórum gjarnan út að borða á nýja staði, sem Snædís valdi. Drógum út rauða dregilinn þeg- ar Snædís kom í bæinn, enda hátíð. Á sumrin fóru fjölskyld- urnar saman í útilegur og síðari árin höfum við svo ferðast sam- an erlendis. Við minnumst ferða til Washington, til Genf, til Kaupmannahafnar á Stones-tón- leika á síðastliðnu ári og nú í vor til Færeyja. Allt frábærar ferðir sem Snædís hjálpaði svo sann- arlega til við að gera ógleyman- legar. Ítalíuferðin verður svo farin án Snædísar. Hún er farin í aðra ferð og lengri. Einhvern tíma eigum við eftir að skrifa bókina Húsráð Snæ- dísar, um það hvernig sjóða skal sviðasultu, hvernig ná skal bleki úr sófa, hvernig þrífa skal kló- sett, hvernig baka skal köku í rafmagnspotti eða bollaköku í örbylgjuofni. Við munum einnig minnast hennar í hvert skipti sem við fáum okkur þeyttan rjóma út á eftirréttinn eða þeg- ar talið berst að Diet Coke. Við vorum mjög nánar og samferða í gegnum lífið. Við lærðum sam- an, skemmtum okkur saman og fórum í fjölskylduferðir saman. Við höfðum stuðning af hópnum og þessum vináttuböndum. Hugur okkar er nú með Sig- urjóni og fjölskyldunni allri. Með innilegum samúðarkveðj- um. Birna Hreiðarsdóttir, Jónína Jónasdóttir, Lára V. Júlíusdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Sólveig Pétursdóttir. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, KRISTÍN GUÐMUNDSDÓTTIR, lést á Hrafnistu í Reykjavík sunnudaginn 11. nóvember. Útförin verður í Fossvogskirkju þriðjudaginn 20. nóvember klukkan 13. Þórdís Garðarsdóttir Lúðvík Björnsson Guðmundur Elías Níelsson Karólína Guðmundsdóttir Elsa Margrét Níelsdóttir Jacob Alexander de Ridder Magnús R. Guðmundsson Hrönn Harðardóttir Níels Pétur Guðmundsson barnabörn og barnabarnabörn Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, MAGNEA KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR, Grænumörk 5, Selfossi, lést á Fossheimum sunnudaginn 11. nóvember. Útförin fer fram frá Selfosskirkju miðvikudaginn 21. nóvember klukkan 14. Sigríður Ólafsdóttir Sigurður Á. Þorsteinsson Ólöf Ólafsdóttir Skúli Einarsson Guðveig Bergsdóttir barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.