Morgunblaðið - 18.03.2019, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 18.03.2019, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 18. MARS 2019 „Römm er sú taug er rekka dreg- ur föðurtúna til“ er setning sem hefur mikið hljómað í höfðinu á mér síðustu daga. Ekki endilega af einskærri heimþrá heldur vegna þess að þar dvelur hugurinn þessa stundina. Það var eitthvað óútskýranlegt sem átti sér stað fimmtudaginn 7. mars. Ég var að fara heim til mín er eitthvað tog- aði í mig í heimsókn til Böggu móðursystur minnar. Lítill sonur minn vildi fara heim en ég lét það ekki eftir honum fór í Sætún en þar var læst og ætlaði ég þá aftur að snúa við en áfram dró hið óútskýranlega mig inn og þar í sófanum sat hún og var að prjóna litla dúkku. Áttum við gott og langt spjall saman, hún spurði frétta af mér og mínum, við Bögga áttum alltaf auðvelt með að tala saman og yfirleitt á glaðværu nótunum, sögðum hvort öðru allt, vorum að ég held mjög náin enda var hún mér alla tíð sem önnur móðir. Við vorum trúnaðarvinir. Þegar þungir og erfiðir atburðir verða þá sækja á mann myndir, stillur af lífshlaup- inu, svo þegar þeim er svo saman raðað þá er komin mjög góð mynd, ljúfsár en falleg. þarna birtist líka fólkið sem mann mót- ar, þar stendur Bögga mjög framarlega. Hún átti mikið í mér, á ég margar minningar með henni og vinkonum hennar enda leitaði ég margra svara hjá henni nú er móður minnar nýtur ekki lengur við. Ég á eftir að sakna hennar mikið og verður fallegi fjörðurinn okkar voða skrýtinn án hennar. Þegar heimsókninni lauk var dúkkan tilbúin, þar var ekki gengið frá hálfkláruðu verki. Reyndist þetta því miður Björg Aðalsteinsdóttir ✝ Björg Aðal-steinsdóttir fæddist 29. júní 1959. Hún lést 7. mars 2019. Útför Bjargar fór fram 16. mars 2019. verða hennar síð- asta verk. Því tveimur tímum seinna var hún far- in. Farin þangað sem margir af hennar nánustu eru, farin þangað sem henni líður bet- ur, farin þangað sem eilíft vor er. Bögga barðist af fádæma hörku við óvæginn og þindarlausan óvætt í fimmtán ár og alltaf er mesta dimmviðrið reið yfir reis hún hraðast upp aftur. Bögga átti í sínu lífi mörg gæfuspor en henn- ar mesta var þó að finna í sama firði mann sinn Björn Skúlason. Betri mann hefði hún hvergi fundið. Ég kveð móðursystur mína og góðan vin með virðingu og trega. Í dag verður hún til grafar borin, þar mun ég lúta höfði og fella tár en með virðingu verður hún kvödd því hún hefur svo sannarlega unnið fyrir því. Ég, Eva og okkar strákar viljum þakka henni allt. Hún var íslenska konan sem ól þig og þér helgar sitt líf. Elsku Bjössi, Harpa og Birk- ir, Hlynur, Ásta, Frosti, Birta og Brasi, ykkur votta ég mína inni- legustu samúð. Þröstur. Nú er hún fallin frá elsku Bögga okkar. Hjartahlýrri manneskja var vandfundin. Að fara á „Borgó“ með Hörpu og krökkunum verður aldrei samt. Bögga var ein af manneskjunum sem gerði Borgarfjarðar- ferðirnar að þeirri upplifun sem þær eru. Alltaf glöð og til í að spjalla um alla heima og geima, spyrja frétta af helst öllum sem maður þekkti, svoleiðis var Bögga okkar, umhugað um alla sem í kringum hana voru. Ætt- fræðin var henni hugleikin og gerði hún óteljandi tilraunir til að spyrja mig um einhverja ætt- ingja mína, hvernig hinn og þessi væri skyldur mér, satt best að segja voru svör mín henni aldrei til gagns enda sagði hún yfirleitt, „hvað er ég að spyrja þig að þessu, þú veist ekkert hverjir eru skyldir þér!“. Fyrsta heimsókn mín í Sætún rennur mér aldrei úr minni, en þá settist ég við eldhúsborðið og Bjössi settist hjá mér og sagði við Böggu: „Af hverju segirðu þetta, Björg, hann er ekkert ljót- ur.“ Þarna kynntist ég fyrst hin- um yndislega borgfirska húmor. Við söknum Böggu ömmu, sökn- um þess að sjá hana ekki á sínum stað í sófanum með heklunálina á lofti skapandi falleg furðudýr og heyra ekki í henni og sjá hana lengur daglega á „skype-inu“. Megi Bögga okkar hvíla í friði, minningin lifir. Takk fyrir allt. Hlynur Sveinsson. Elsku Bögga mín. Þá kom að því að við þurfum að kveðja þig. Einhvern veginn var alltaf eins og að komast að- eins nær mömmu að fara í te og spjall til þín. Þú varst svo mikill partur af því að ala mig upp, kenna mér hluti og sýna mér hvað skiptir máli. Að horfa á vin- áttu ykkar mömmu var ómetan- legt, þar sem þið hlóguð svo mik- ið og kennduð mér hvernig vinátta á að líta út. Svo afslöppuð og falleg. Þú talaðir alltaf við mig eins og ég væri jafningi þinn og alltaf gat ég komið til þín og við töluðum út um hluti og sátum tímunum saman og þú spurðir um allt og alla. Alltaf spurðirðu óþægilegu spurninganna og varst hreinskilin og heiðarleg við mig og fékkst mig til að hugsa allt upp á nýtt eða taka stökkið og gera það sem ég vildi án þess að hugsa um það frekar. Þú komst mér sífellt á óvart og varst svo ótrúlega góð vinkona. Það verður svo erfitt og skrýtið að vera heima núna og ekki skreppa til þín í spjall og te. Það er engin furða að Sætún hafi ver- ið eins og félagsmiðstöð, þar sem öllum fannst gott að leita til þín í spjall og rökræður. Ég skal gera mitt besta í að framkvæma þau plön sem við ákváðum og ég mun hugga mig við að mamma hefur tekið vel á móti þér og þið hafið sko nóg að tala um. Í hjarta mér ert alltaf nær Í friði far, mín hjartakær Ég býð þér góða nótt (Ingunn Snædal) Elsku Bjössi, Harpa, Birkir og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur og minning um stórkostlega konu lifir svo sann- arlega hjá okkur. Aldís Fjóla. Dagurinn í dag verður einhver sá erfiðasti í lífi mínu þar sem fallegasta og besta sálin mín, hún Bögga, verður kvödd í hinsta sinn. Bögga, þú varst ekki bara frænka mín heldur besta vinkona mín og í raun leit ég alltaf á þig og Bjössa sem ömmu og afa á Borgó. Ég man alltaf eftir því þegar ég var lítil og beið spennt eftir deginum þegar ég yrði orð- in níu ára gömul því þá mátti ég fara ein í sumarfrí á Borgarfjörð eystra til þín og Bjössa í Sætún. Sumarfríið sem átti að vera ein vika varð að tveimur og tvær að þremur sem oft endaði á því að mamma og pabbi lögðu upp í rúmlega 700 km ferðalag til að sækja skríplu litlu eins og þú kallaðir mig alltaf. Ég held að það segi allt um það hversu vel mér leið hjá ykkur í Sætúni enda finnst mér alltaf eins og ég sé að koma heim þegar ég keyri inn fjörðinn. Ég man þegar mamma og pabbi voru búin að byggja Úr- aníu fannst mér fyrst bara asna- legt að gista þar því ég vildi bara vera hjá þér og Bjössa. Það er skrítið og sárt að hugsa til þess að næst þegar maður rennir í hlað að Sætúni standir þú ekki á tröppunum með opinn faðminn. Mér finnst svo sárt að hugsa til þess að geta aldrei knúsað þig aftur eða setið með þér við eld- húsborðið í Sætúni að spjalla um daginn og veginn, en á sama tíma þegar ég hugsa til þín er ég svo þakklát fyrir allar dýrmætu minningarnar sem við eigum saman. Þakklát fyrir að þú hafir alltaf svarað játandi þegar ég hringdi og spurði hvort ég mætti koma og vera hjá ykkur í sumar þó svo að ég hafi ábyggilega oft verið algjör plága. Þakklát fyrir allt sem þú nenntir að brasa með mér. Þakklát fyrir hvað þú gerð- ir Borgarfjörð að mikilli paradís fyrir mig. Þakklát fyrir vináttu okkar. Þakklát fyrir þig Ég vildi óska þess að ég gæti faðmað þig einu sinni enn og sagt þér hversu mikið ég elska þig. Hinsta kveðja, þín skrípla Tanja Rut. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Ég á erfitt með að koma því í orð hversu vænt mér þykir um þig, elsku Bögga, og hversu sárt ég sakna þín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig að og okkar dýrmætu vináttu. Þú varst ekki bara frænka mín, í mínum huga varstu amma mín. Þó svo þú haf- ir verið of ung til að geta nokk- urn tímann verið það. Ömmur eru bara bestar og mér þótti þú best. Það er sárt að hugsa til þess að ég hafi fengið mitt allra síðasta Böggu-knús í þessu lífi. Hvíldu í friði, elsku hjartans Bögga mín. Þú varst ein af mínum allra dýrmætustu. Ég elska þig – vildi að ég hefði sagt þér það oftar. Þín Andrea. Elsku vinkona. Þá er komið að kveðjustund svo allt of snemma. Þó að maður hafi vitað að það færi að líða að þessari stundu þá er maður aldr- ei tilbúinn. Efst í huga mér er þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þér, þessum líka demanti. Við kynntumst á Núpi í Dýrafirði að- eins 15-16 ára stelpur, fullar af gleði og gáska. Þar var margt brallað og er mér ofarlega í huga bókin okkar góða sem við skrif- uðumst á í þegar við áttum að vera að læra í tímum. En það kom ekki að sök, við hljótum að hafa verið svona ofurgreindar því við lukum prófum með stæl. Eitt af því sem stendur í bókinni góðu er það að þegar við yrðum mömmur myndir þú bjóða mín- um börnum til þín í sveitina. Og það stóðst þú svo sannarlega við. Ásta María dóttir mín naut góðs af mörgum sumrum á Borgar- firðinum fagra og gleymir hún aldrei þeim tíma. Svo naut Mar- grét mín líka góðs af og var alla vega eitt sumar hjá ykkur. Alltaf var jafn dásamlegt að heimsækja ykkur á Borgó og jafn gaman að fá ykkur i heim- sókn í borg óttans, þó að þið haf- ið nú aldrei stoppað meira en nauðsyn krafðist þar, alltaf á hraðferð heim aftur. Það sem ég er glöð að hafa heyrt í þér í síma rétt áður en þú kvaddir, þetta var mjög sérstakt, ég var búin að vera á leiðinni all- an daginn að hringja og svo loks þegar ég hringdi þá er það fyrsta sem þú segir, fékkstu hugskeyti, ég er búin að vera að hugsa til þín í allan dag. Elsku Björg, þá kveð ég þig að sinni og takk fyrir allt. Megi allt hið góða styrkja og styðja Bjössa, Hörpu, Birki og fjölskyldur þeirra í þessari miklu sorg. Þín vinkona Jóna Karlotta Herbertsdóttir. Elsku Björg, ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og fjölskyldu þinni. Að koma til ykkar á sumrin var alltaf mik- ið tilhlökkunarefni og yndislegar minningar sem ég mun varðveita frá þessum sumrum. Þegar ég talaði um þig við vinkonur mínar kallaði ég þig fósturmömmu mína enda mjög auðvelt að þykja vænt um þig. Þú varst líka ein- staklega hreinskilin og ég gleymi því aldrei þegar þú komst fyrst í heimsókn eftir að við fengum okkar fyrsta hund, þú komst labbandi upp stigann og sagðir bara hreint út, mikið er hún nú ljót greyið. Seinna þegar þú veiktist og hundunum var búið að fjölga á okkar heimili fékkstu nú samt eina svona fiðrildastelpu lánaða sem göngufélaga og þið náðuð svo vel saman að farið var með hana eins og prinsessu í sveitinni þar til hún dó 16 ára gömul. Það var alltaf yndislegt að koma til ykkar og eiginlega ekki hægt að sleppa því að tala um heimabökuðu kleinurnar, þær verða alltaf þær bestu. Elsku Bjössi, Harpa og Birk- ir, mínar innilegustu samúðar- og styrktarkveðjur á þessum erf- iða tíma. Ásta María Guðbergsdóttir. Mér er það ljúfsárt að rifja upp minningar um hana Björgu. Hún var svo stór hluti af lífi mínu, á mikilvægum mótunarár- um unglings og skrefum mínum til fullorðinsára. Þess vegna er sárt að hugsa til þess að geta ekki, enn einu sinni, spjallað við hana um alla heima og geima. Samtímis er ég þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Við kynntumst á Héraðsskól- anum á Núpi. Þar vorum við samferða í tvo vetur, deildum herbergi og tókum að okkur að vera saman vistarverðir á Bjarnavistinni. Við snerum bök- um saman og héldum uppi aga, ábyrgar konur sko, að okkur fannst. Hún fór með mér heim í helgarleyfum, sem var nokkrum sinnum yfir veturinn og þar kynntist hún fjölskyldu minni. Það var margt brallað saman og gott að hafa hvor aðra til að deila með gleði og sorgum. Eftir skólavistina á Núpi fór ég til Borgarfjarðar eystri og vann þar í tvö sumur í frystihús- inu. Þá bjó ég heima hjá Björgu og það hlýtur að hafa reynt á þolrifin á Döbbu, mömmu henn- ar, að umbera skemmtanaglaðar ungar stúlkur. Ég man eftir að hafa verið að vinna fram á kvöld og geta samt á eftir farið á rúnt- inn eða hitt félagana. En alltaf vorum við Björg mættar á rétt- um tíma í vinnu og ekki kom til mála annað en standa sína plikt. Klára það sem byrjað var á. Það voru skemmtilegir krakkar á Borgarfirði sem héldu saman. Það var ekkert bíó eða sjoppa til að hanga á, það þurfti hreinlega að finna upp afþreyingu. En það var enginn hörgull á því, alltaf hægt að finna sér tilefni til að hittast og spjalla. Það að fá að kynnast heimahögum Bjargar og hafa fengið að vera heimagangur hjá fjölskyldu hennar og vinum er mikils virði. Þar er gott fólk á fögrum stað. Björg var myndarleg í hönd- unum. Ég var varla lent á Borg- arfirði þegar hún var búin að sauma á mig bæði buxur og blússu. Hún sendi mér líka út- saumað vöggusett þegar ég eign- aðist frumburðinn. Hún hefur vitað sem var að vinkonu hennar skorti hæfileikann á þessu sviði. Hún fór líka í Húsmæðraskólann á Ísafirði, til að þroska hæfileika sína í handavinnu og fleiru tengdu heimilisstörfum. Ég tel að enginn hafi komið að tómum kofunum þar sem heimili hennar var. Á fullorðinsárum okkar var langt á milli vina, enda búsettar í vestri og austri. En alltaf var fylgst með úr fjarlægð og má með ólíkindum telja hve Björg fylgdist t.d. vel með systkinum mínum og jafnvel þeirra börnum. Hún fylgdist líka með gömlum skólasystkinum okkar og gat oft sagt mér fréttir af þeim. Hún hafði einlægan áhuga á sam- ferðafólki sínu og var með gott minni. Þetta er hæfileiki sem sýnir náungakærleika og hlut- tekningu í gleði og sorgum ann- arra. Ég vil votta fjölskyldu hennar innilega samúð og bið guð að styrkja þau á erfiðum tímum. Megi minning merkrar konu lifa. Helga Dóra Kristjánsdóttir. Mig langar að minnast Böggu eins og hún var alltaf kölluð hér af vinum og vandamönnum. Fyr- ir rúmum tuttugu árum þegar við hjónin fluttum á Borgarfjörð kynntist ég henni og fannst mér hún sem persóna skyldurækin, samviskusöm, heil og hreinskipt- in og þannig hefur hún sett svip- mót sitt á umhverfið og samtíð sína á Borgarfirði. Bögga kvaddi þennan heim alltof fljótt og dapurlegt til þess að hugsa hvað barnabörnin fengu stutt að njóta nærveru hennar. Hún var einstaklega barngóð og hafði gaman af að spjalla við börn og hlusta á skemmtileg tilsvör þeirra. Við teljum sjálfsagt að allir fái að eldast og fylgjast með afkom- endur sínum vaxa og dafna en við ættum kannski að íhuga bet- ur að enginn er óhultur fyrir manninum með ljáinn. Í þessu litla samfélagi þar sem allir þekkja alla höfum við fylgst með hetjunni í Sætúni í 13 ár, berjast við óvelkominn gest sem bar að lokum sigur úr býtum og er óhætt að segja að sá gestur hafi verið sá eini sem ekki var vel- kominn í Sætún. Bögga var kjölfesta fjölskyld- unnar og ákaflega vinsæl meðal vina og ættingja og til marks um það var alltaf mikill gestagangur á hennar heimili enda reyndist hún fólki vel á allan hátt og var ræktarleg í besta máta. Bögga hafði yndi af öllu handverki og óteljandi hluti hefur hún hannað og búið til af miklum myndar- skap og er undirrituð svo lánsöm að eiga fallega hluti eftir hana. Við unnum saman ásamt öðru góðu fólki í Björgunarsveitinni Sveinunga og þar gerði hún mik- ið gagn sem félagi, ávallt kapp- söm og ósérhlífin en hún var einnig mjög ákveðin og fram- kvæmdi yfirleitt það sem hún ætlaði sér. Mér er minnisstætt þegar ég tók við sem umsjón- arkennari 5. bekkjar þar sem sonur hennar var einn af nem- endum mínum. Í fyrsta foreldra- viðtalinu var ég frekar óörugg þar sem ég þekkti foreldrana lít- ið sem ekkert en Bögga er mér minnisstæðust af foreldrunum því hún braut ísinn með því að segja: „Ég veit að Birkir minn getur aldrei setið kyrr og á erfitt með að einbeita sér.“ Svona var Bögga raunsæ og réttvís og aldr- ei til vandræða í samskiptum vegna barna sinna. Elsku Bjössi, Harpa Rún, Birkir, tengdabörn og barnabörn HINSTA KVEÐJA Elsku amma mín. Við gerðum svo margt skemmtilegt saman og vor- um alltaf að fá okkur ís. Takk fyrir allt. Þinn ömmustrákur, Brynjar Frosti Hlynsson. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ÞÓRUNN SIGURÐARDÓTTIR, Sóltúni, lést á Landspítalanum 7. mars. Útförin verður gerð frá Neskirkju föstudaginn 22. mars kl. 15. Þeim sem vildu minnast hennar er beint á Barnaspítala Hringsins. Erna Einarsdóttir Sigurður Einarsson Arndís Björnsdóttir Einar Þór Daníelsson Hildigunnur Daníelsdóttir Árni Garðarsson Þóra Jensdóttir Helga Þórunn Óttarsdóttir Gústav Arnar Davíðsson Þórunn Sigurðardóttir Björn Sigurðsson Ástkær faðir okkar, sonur og bróðir, ÞORBERGUR ARNAR EINARSSON frá Gilsbakka, Öxarfirði, sem lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri miðvikudaginn 13. mars, verður jarðsunginn laugardaginn 23. mars kl. 14 á Skinnastað í Öxarfirði. Edda Þorbergsdóttir Arnþrúður Anna Þorbergsdóttir Einar Þorbergsson Einar Þorbergsson Einar Halldór Einarsson Óli Björn Einarsson Laufey Marta Einarsdóttir og fjölskyldur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.