Dagblaðið Vísir - DV - 23.08.2019, Blaðsíða 11

Dagblaðið Vísir - DV - 23.08.2019, Blaðsíða 11
FÓKUS - VIÐTAL 1123. ágúst 2019 óttaðist gífurlega að líffræðileg móðir hans hefði upp á honum, svo þrátt fyrir að vera skírður Guð­ berg Guðmundsson, var hann kallaður Guðbergur Guðjónsson. Þetta taldi Anna að kæmi í veg fyrir að Björg, móðir hans, fyndi hann og tæki hann til baka. Ótti Önnu var slíkur að hún tók einnig upp á því að loka Guðberg inni í skáp þegar gesti bar að garði. Fela hann, vernda hann, halda honum hjá sér. Það var svo ekki fyrr en hann fermdist sem kjörforeldrar hans sögðu honum sannleikann, sem Guðberg hafði þá vitað um nokkra hríð. „Ég sagði bara; Æ, mamma og pabbi, haldið þið ekki að ég sé búinn að fá að heyra ljótar sögur af henni mömmu. Ég skildi ekki af hverju þau völdu einmitt þennan dag til að segja mér þetta, rétt áður en ég gekk til prestsins til að fermast.“ Þessi uppruni Guðbergs hafði mikil áhrif á uppvöxt hans. Bæði varð þetta til þess að honum var strítt en einnig beið hann skaða af því að kjörforeldrar hans héldu sannleik­ anum jafn lengi frá honum og raun bar vitni. Að komast að því að hans eigin móðir hefði ekki viljað hann, hefði gefið hann frá sér, var gífurlega erfitt. Guðberg upplifði mikla höfn­ un. „Ætli það hafi ekki verið þess vegna sem ég var síleitandi allt mitt líf og gekk kvenna á milli. Ég hef verið að leita að mömmu.“ Auk þess þekkti hann engin deili fram­ an af hvorki af móður sinni né föður. Það eina sem hann vissi var að faðir hans var frá Ameríku. „Ég lokaði mig bara inni og horfði á amerískar kvikmyndir, því pabbi minn var Kani. Ég sannfærði sjálfan mig um að einhver maður­ inn í myndunum væri pabbi minn. Svo kom hún mamma eitt kvöldið þegar ég var barn, bankaði upp á eitt kvöldið. Ég sá þessa gullfallegu konu og vissi strax að þetta var mamma mín. Hún faðmaði mig og kyssti og hágrét. Hún var að kveðja því hún var að flytja til útlanda.“ Kjörmóð­ ir Guðbergs var ekki ánægð með þessa heimsókn og sagði Guðberg að þarna væri einhver frænka hans á ferð, en Guðberg vissi betur. Einelti Eftir tiltölulega áfallalausa og hamingjuríka æsku í Laugarnes­ inu í Reykjavík fluttist fjölskyldan búferlum suður með sjó. Varð það örlagarík ákvörðun fyrir Guð­ berg því í Garði lenti hann í hrylli­ legu einelti sem markaði líf hans til frambúðar. „Ég átti yndislega æsku í Laugarnesinu, alveg yndis­ lega. Þarna var sannkallaður ævin­ týraheimur. Við strákarnir höfðum sérstaklega gaman af því að fara að stríða konunum í Laugunum, svona smá púkar í okkur, en auð­ vitað ekki af neinni illgirni.“ Það er til marks um breytta tíma að heyra Guðberg rifja upp æskuna. Þegar hann var ungur var hann tjóðrað­ ur við staur í garðinum svo hann færi ekki á flakk. Nágrannabörnin gerðu sér það að leik að koma þar að og henda ýmislegu lauslegu í Guðberg, sem gat sér enga björg veitt. „Auðvitað langaði mann að vera laus og fara að skoða heim­ inn.“ Síðan flutti fjölskyldan í Garð. Þar tók við hryllilegur tími í æsku Guðbergs. „Þar var alveg hryllilegt. Ég var orðinn skemmdur löngu áður en ég náði að verða full­ orðinn. Fólk vissi ekki hvað einelti var á þessum tíma, enginn trúði neitt á þetta.“ Guðberg varð fyrir grófu einelti og má hreinlega segja að hann sé heppinn að hafa lifað það af. Hann var laminn, níddur, niðurlægður og eitt sinn var hann næstum því drepinn. „Þá lokuðu þeir mig inni í súr­ efnissnauðri hlöðu. Ég gat ekki andað og missti meðvitund. Svo var opnað fyrir einhverja loku sem varð mér til lífs. Ég vaknaði þarna fyrir utan og heyrði einn spyrja: „Er hann dáinn“, og annar svaraði: „Æ, látum helvítið liggja“. Hvernig getur fólkið fengið það af sér að ráðast svona á lítinn dreng.“ Þetta var ekki eina skiptið sem Guðberg var heppinn að sleppa lifandi frá eineltinu. Gerendur hans tóku upp á því að sitja fyrir Guðberg og vini hans og skjóta á þá með haglabyssu. Hann sætti einnig kynferðis­ ofbeldi. Þegar hann var aðeins barn að aldri, varla orðinn ung­ lingur, tældi mun eldri kona hann til samlags við sig. „Hún segir söguna reyndar öðruvísi og segir að ég hafi tælt sig, en ég var bara barn. Í dag yrði væntanlega litið á þetta sem nauðgun held ég. Ofbeldi er þannig, við skulum muna eftir því, að árið 1000 þá sættumst við með alla reiði og allan kvikindishátt og tókum það að okkur að verja náungann. Þetta voru bara hryllileg ár. Þar til ég bara forðaði mér.“ „Þá sá ég mömmu, hvað hún var agalega sjúk“ Þegar Guðberg var 15 ára gamall fór hann að vinna uppi á Velli. Þar kynntist hann afa sínum sem fór með hann að hitta móður hans. Björg sagði Guðberg að hún hefði verið neydd til að gefa hann frá sér, þvert gegn vilja sínum. Hún tók honum opnum örmum og eft­ ir það varð hún hluti af lífi hans. Björg var alkóhólisti, þótt Guð­ berg hafi ekki gert sér grein fyr­ ir því alveg strax. Hann hafði þó heyrt ýmsar gróusögur af móður sinni, sem létu ekki vel í eyrum. Í ástandinu hafði Björg fengið hið ljóta viðurnefnið Tittlinga­Björg, og út frá því fékk Guðberg sitt eig­ ið viðurnefni, Beggi tilli, sem fylgdi honum inn í harðan heim drykkj­ unnar og neyslunnar. Eftir að hann kynntist móður sinni tókst með þeim mikill vinskapur. Þá áttu þau jafnvel til að kíkja saman á drykkjusvall. „Þá sá ég mömmu, hvað hún var agalega sjúk. Þá sá ég hvað hún var mikil drykkjumann­ eskja. Svo var ægilegt skap í henni, en ég var alltaf fallegasti og besti strákurinn hennar.“ Fangi í sjö löndum Guðberg var aðeins 17 ára gam­ all þegar hann flutti fyrst bú­ ferlum inn á fangelsið að Litla­ ­Hrauni og það varð ekki hans fyrsta heimsókn. Næstu áratugir lífs hans einkenndust af mikilli drykkju og neyslu eiturlyfja. Hann var þar einkum hrifinn á kókaíni sem hann segir hafa gefið sér jarð­ tengingu líkt og ekkert annað efni gat gert. Hann lagði stund á sjó­ mennsku og einnig komst hann í starf hjá Farmaco þar sem hann kynntist læknadópi, pillum, og þar tók hann sín fyrstu skref í eit­ urlyfjasölu. Í bók sinni segir hann: „Mitt uppáhald þegar ég var ekki að dópa var að taka eina teskeið af vodka í nefið og þá fann mað- ur hvernig hausinn á manni fraus vinstra eða hægra megin eftir því í hvora nösina máður tók.“ En Ísland er líklega of lítið land fyrir mann eins og Guðberg svo hann hélt fljótlega utan þar sem hann dandalaðist á milli landa og fangelsa næstu árin. Hann hefur afplánað dóma í sjö mismunandi löndum, Íslandi, Noregi, Dan­ mörku, Þýskalandi, Bandaríkjun­ um og Hollandi með smá viðkomu í Svíþjóð. Í bók sinni rekur hann hvernig hann fékk heimsóknir í fangelsi og smyglaði þar inn fíkni­ efnum innvortis. „Hann kom svo með alla seðlana ásamt einhverju hassi og hefur mér aldrei liðið eins helvíti illa í gatinu eins og þegar ég var að troða þessu upp í görn­ ina,“ segir Guðberg er hann lýsir því hvernig vinur hans aðstoðaði hann við að smygla vímuefnum og peningum inn í Vestre­fangelsið í í Danmörku. Í fangelsi í Santa Rita í Banda­ ríkjunum upplifði Guðberg mikla niðurlægingu. Hann hafði ver­ ið ákærður fyrir rán og tilraun til manndráps. Í fangelsinu var komið fram við fanga með ómannúðleg­ um hætti. „Svo var það talningin. Þá þurftu allir að standa upp strax og ef einhver hafði sofið fast eða ekki vaknað við flautuna tók næsti vörð­ ur út á sér liminn og hreinlega piss­ aði yfir fangana. Það var með ólík­ indum hvílík ómennska þreifst í þessu fangelsi.“ Í bók Guðbergs segir: „Við vor- um leiddir inn á gang og þar var að minnsta kosti tugur varða vel vopnaðir. Okkur var öllum sagt að strippa og leggja fötin fyrir framan okkur og standa grafkyrrir þangað til þeir væru búnir að athafna sig. Um leið og þeir voru búnir að því þurftum við að opna munninn og rúlla tungunni fram og til baka. […] Eftir tungu „rólið“ þurftum við að bretta upp á forhúðina og lyfta upp pungnum og síðan þurftum við að snúa okkur við og skíta dópi eins og þeir sögðu. Við þurfum að setjast á hækjur okkar og þegar við stóðum upp aftur þurftum við að glenna út rasskinnarnar og svo lýstu þeir í með vasaljósi. Er hægt að niður- lægja menn meira en þetta?“ Í Reinbach­fangelsinu í Þýska­ landi segir Guðberg að pollar af blóði hafi verið algeng sjón. Þar hafi þrifist mikið ofbeldi. En í hvaða fangelsi var best að vera? „Det er selvfølgelig Denmark,“ segir Guðberg og brosir. Ekki Ís­ land. Athygli vekur við lestur bók­ arinnar að í hverju fangelsi sem Guðberg dvaldi í virðist hafa verið mikil neysla vímuefna meðal fanga. En eins og Guðberg segir sjálfur, virðist ýmsum brögðum vera beitt við að koma efnunum framhjá vörðunum. „Það verður enginn að manni fyrr en hann fer í AA. Ég fann leiðina út, og ég hljóp hana.“ Forseti svarar Forseti Íslands þakkar Guðberg fyrir bréfið. Berst fyrir málstað móður sinnar Guðberg ritaði forseta Íslands þetta bréf. Harður í horn að taka Þótt Guðbergur hafi farið í gegnum lífið á brosinu þá segist hann þó vera óttalegur skaphundur.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.