Morgunblaðið - 19.07.2019, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 19.07.2019, Blaðsíða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. JÚLÍ 2019 Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is „Þetta eru landslagsverk enda er ég í raun og veru einungis að mála landslag þessa dagana. Þetta er Ísland og þetta er fyrir Ísland,“ segir myndlistarmaðurinn Elli Egilsson sem opnar sýninguna Hugarfar í NORR11 á Hverfisgötu í dag, föstudag, kl. 17. Hún stendur til 2. ágúst. „Verkin eru útfærsla á mínum minningum og mínum sökn- uði gagnvart heimalandinu. Þetta er mín útfærsla á því hvernig Ísland er. Ég hef ekkert myndefni eða neitt slíkt fyrir framan mig þegar ég mála, það er bara tómur strigi og svo byrja ég að skissa eftir minni.“ Elli vann verkin á sýningunni í vinnustofu sinni í Los Angeles. Hún er í hverfi sem kallast Crenshaw sem er að sögn hans gettó og valdi hann óvenjulega staðsetninguna meðvitað. „Það er mjög áhugavert að vera í svona umhverfi þegar maður er að reyna að skapa eitt- hvað eins og gömlu meistararnir heima á Íslandi, Kjarval og fleiri, gerðu með því að fara út í náttúr- una. Hér í Crenshaw fer maður varla út úr húsi án þess að eiga á hættu að vera rændur eða skotinn.“ Sér grafísk form uppi á heiði Myndlistarmaðurinn segist hafa valið þessar aðstæður til þess að efla ímyndunaraflið og ýkja það. „Hér er stundum svo heitt að ég þarf að fara úr öllu og mála þannig, svo ég þarf að ímynda mér þessar íslensku aðstæður, kuldann og snjó- inn.“ Elli segist reyna að ná fram með verkum sínum aðstæðum sem hinn týpíski Íslendingur myndi ef til vill ekki taka eftir en ferðamenn gerðu kannski frekar. „Þá á ég við snjó- skafla, skafrenning og fleira sem fer í taugarnar á okkur þegar við höfum búið of lengi á Íslandi. Mér fannst þetta áhugavert eftir að hafa verið búsettur erlendis í 10 eða 15 ár. Þá sá ég grafísk form og myndform í snjónum og uppi á heiði. Á málverk- unum mínum eru ekki ákveðin fjöll heldur frekar aðstæður sem ég man eftir að hafa lent í, t.d. að vera fast- ur í bíl uppi á Hellisheiði.“ Ástæðu þess að Elli heldur sýn- inguna í húsgagnaversluninni NORR11 segir hann þá að hann þekki eigendurna vel. Hann nefnir þó einnig að þarna hafi verið rekið galleríið 101 Gallery og því hafi þetta legið beint við. „Ég fór þarna oft með pabba á myndlistarsýn- ingar. Ég var alltaf svo hrifinn af þessu rými. Þegar ég komst að því að NORR11 væri komið þarna og það væri í eigu vina minna hafði ég samband við þau og spurði hvort þau væru ekki til í að gera einhvers konar sýningu.“ Það fer vel á því að sýna málverk innan um húsgögn þar sem þau prýða oftar en ekki veggi heimila fólks. „Mér fannst þetta virka svo vel í þessu umhverfi. Gestir geta ímyndað sér heimili sín,“ segir myndlistarmaðurinn. Breytti hugarfari sínu Fyrir ári hélt Elli sýninguna Ólík- ir heimar í sama rými. „Hugarfar er í raun og veru í óbeinni tengingu við þá seríu. Þá voru verkin tveir metr- ar á breidd en mig langaði að prófa að skora á sjálfan mig að minnka verkin mikið. Flest verkin á sýning- unni núna eru 60x90 sentimetrar og ég hef bara aldrei málað svona lítil verk,“ segir Elli og heldur áfram: „Það er í mínum þægindaramma að mála stór verk. Til að minnka þau niður í 60 sentimetra þarf maður að klóra sér svolítið í hausnum, breyta hugarfarinu og útsetningunni á öllu saman. Það er ástæðan fyrir því að ég nefni sýninguna Hugarfar.“ Hugarfar Ella breyttist ekki að- eins gagnvart stærð verkanna held- ur einnig þeim tímaramma sem hann setti sér til að vinna seríuna. „Ég var rosalega ákveðinn í að gera þessa sýningu á styttri tíma; ég vann tvö eða þrjú verk í einu og setti mér tímaramma, sem ég geri venjulega ekki. Ég er vanur að mála bara og mála þar til ég er tilbúinn að sýna eða selja.“ Málaði í 11 klukkustundir á dag Að þessu sinni byrjaði Elli hins vegar á verkunum í seríunni hinn 9. mars og kláraði að mála síðasta verkið 29. júní, og afraksturinn varð 17 verk. „Ég stimplaði mig inn á morgnana og út á kvöldin eða eftir miðnætti.“ Elli reiknaði út að hann hefði málað í 892 klukkustundir á þessum stutta tíma og var um ellefu klukkutíma á vinnustofunni á dag fyrir utan tveggja vikna frí. Elli segist hafa málað allt sitt líf en það séu um sex ár síðan hann gerði myndlist að atvinnu. „Það var á þeim tíma sem ég flutti til Los Angeles. Ég gerði fyrsta málverkið tengt landslagi á Íslandi en svo flest önnur í Los Angeles.“ Faðir Ella, Egill Eðvarðsson, er einnig myndlistarmaður. „Hann kenndi mér grunninn í myndlist. Ég er annars alveg ólærður mynd- listarmaður. Hann kenndi mér grunninn í öllu þessu maleríi og sulleríi sem þróaðist út í það að í dag bý ég til mína eigin olíu- málningu alveg frá grunni. Ég er búinn að finna formúlu sem gefur fullkominn tímaramma; það tekur hana ekki of langan tíma að þorna og ekki of stuttan. Þessi málning er þægileg fyrir olíumyndlistarmenn, flæðið er einhvern veginn miklu þægilegra, hún er ekki svona þykk og gróf og ekki eins eitruð og önnur olíumálning.“ Terpentína bönnuð í Kaliforníu Elli segist hafa byrjað að fram- leiða eigin málningu vegna þess að olía í miklu magni, terpentína og önnur leysiefni sem myndlistar- menn nota eru bönnuð í Los Angel- es. „Það hafa verið sett lög gegn þessum efnum og maður getur þess vegna hvergi fengið þau. Þetta er eina ríkið sem hefur bannað þetta og að sjálfsögðu gerðist það árið sem ég flutti til Kaliforníu. Ég þurfti þess vegna að finna leið til þess að mála. Ég byrjaði á að prófa mig áfram með akríl en það gekk bara alls ekki þannig að ég talaði við eðlis- og efnafræðinga bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum og fann formúlu fyrir olíumálningu sem virkaði. Ég er með tilraunastofu þar sem ég er í hvítum galla og með gasgrímu að búa þetta til.“ Hann smíðar einnig blindrammana og rammana í kringum verkin og strekkir. „Ég geri í raun og veru allt sjálfur og mér finnst það skemmtilegt og persónulegt.“ Morgunblaðið/Hari Landslag „Á málverkunum mínum eru ekki ákveðin fjöll heldur frekar aðstæður sem ég man eftir að hafa lent í, t.d. að vera fastur í bíl uppi á Hellisheiði,“ segir Elli Egilsson um verkin á sýningunni sem verður opnuð í NORR11. Íslenskur skafrenningur í Kaliforníu  Myndlistarmaðurinn Elli Egilsson opnar sýninguna Hugarfar í NORR11 í dag  Málar íslenskar aðstæður eftir minni á vinnustofu í Los Angeles  Býr til sína eigin olíumálningu frá grunni Íslenska kvikmyndin Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson hefur verið valin í aðalkeppni kvikmyndahátíðar- innar í Locarno í Sviss, sem haldin verður í ágúst, og mun þar keppa um Gyllta hlébarðann, sem eru aðalverðlaun hátíðarinnar. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í vikunni. Í tilkynningu frá framleið- anda kemur fram að Bergmál sé kvikmynd þar sem örsögur úr sam- tímanum fléttist saman á ljóðrænan hátt og myndi samtímaspegil frá Ís- landi í aðdraganda jóla. „Ég er fyrst og fremst stoltur af samverkafólki mínu sem hefur vað- ið eld og brennistein til að gera Bergmál mögulega. Kvikmynda- framleiðsla er dýr útgerð og eiga þessar viðurkenningar á okkar störf eftir að reynast okkur vel í fjármögnun á framtíðarverkefnum. Mest hlakka ég til að frumsýna Bergmál fyrir fólkið okkar heima á Íslandi fyrir jól,“ er haft eftir Rúnari Rúnarssyni leikstjóra í til- kynningunni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mynd í leikstjórn Rúnars keppir til virtra verðlauna. Síðan Síðasti bær- inn var tilnefnd til Óskarsverðlauna 2006 hafa kvikmyndir hans unnið yfir 130 alþjóðleg kvikmyndaverð- laun. Hiti Stilla úr kvikmyndinni Bergmál sem verður heimsfrumsýnd í ágúst. Bergmál keppir um Gyllta hlébarðann

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.