Skessuhorn


Skessuhorn - 13.01.2016, Blaðsíða 23

Skessuhorn - 13.01.2016, Blaðsíða 23
MIÐVIKUDAGUR 13. JANÚAR 2016 23 Pennagrein Í upphafi árs lítum við yfir farinn veg og stígum á stokk og heitum á okk- ur sjálf að ná árangri í þeim verkefn- um sem við erum að kljást við hverju sinni. Á Alþingi eru það fjárlögin sem endurspegla stefnu hverrar rík- isstjórnar og stjórnarandstaðan glím- ir við að ná fram breytingum á í takt við stefnu sinna flokka. Stjórnarand- staðan lagðist öll á eitt við að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og ör- yrkja en það fór sem fór, ríkisstjórn- in sýndi enn og aftur sitt rétta andlit og sannaði það að hún þjónar fyrst og fremst efnafólki í landinu og vildi ekki koma til móts við kröfur aldr- aðra og öryrkja og hafi hún skömm fyrir! Heilu málaflokkarnir fjársveltir Það er nú ekki eins og þarna séu á ferðinni fjárlög sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn býr við allt aðrar aðstæð- ur en fyrrverandi ríkisstjórn sem tók við afleiðingum efnahagshrunsins og lagði grunninn að þeim efnahags- bata sem nú er að skila sér. Nú hefði verið möguleiki á að vera með mikla innspýtingu í marga málaflokka sem þurftu því miður að taka á sig skerð- ingar á síðasta kjörtímabili. Það er löngu kominn tími á innviðaupp- byggingu í samfélaginu og að tekið sé virkilega vel á í eflingu velferðar- kerfisins. En því er ekki fyrir að fara. Heilu málaflokkarnir eru fjársvelt- ir, s.s. heilbrigðis- og samgöngumál, byggða- og sóknaráætlanir, stuðn- ingur við brothættar byggðir minnk- ar, aðför er gerð að menntun á lands- byggðinni með takmörkun á aðgengi að námi 25 ára og eldri í framhalds- skóla og dregið er úr jöfnun náms- kostnaðar. Auknir fjármunir voru þó settir á lokametrunum í upp- byggingu háhraðatenginga á lands- byggðinni utan markaðssvæða og er það vel en betur má ef duga skal ef þessu verkefni á að ljúka innan fárra ára sem verður að gerast. Aðförin að RÚV heldur áfram og þó tekist hafi að fá skilyrta leiðréttingu á elleftu stundu þá dylst engum að það er ver- ið að mylja undan stofnuninni sem á erfitt með að sinna menningar- og lýðræðislegu hlutverki sínu. Vandræðagangur og óleyst verkefni Það vantar enn mikið upp á að búið sé að jafna orkukostnað í landinu. Mikill vandræðagangur er með að fjármagna það verkefni að fullu þó að vissulega hafi verið settir fjármun- ir í jöfnun húshitunar og í dreifingu á raforku þá er enn langt í land að íbúar landsins sitji þar við sama borð en það vantar enn að minnsta kosti 200–300 millj. kr. á ári til þess að hægt sé að tala um jöfnuð. Í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eru settir alltof litl- ir fjármunir miðað við þá miklu fjölg- un ferðamanna sem orðið hefur und- anfarin ár og verður áfram og kall- ar á mikla innviðauppbyggingu til að verja landið ágangi. Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blas- ir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleym- ast að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til þess að byggja því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir. Í þeim málaflokki liggja ekki fyrir neinar heildarlausnir. Nú er rúmlega hálfn- að þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það eru allt of litlir fjármunir sýni- legir í þessi brýnu verkefni. Árás á kjör barnafólks og þeirra efnaminni Vaxtabæturnar eru skornar nið- ur um 1,5 milljarða og barnabæt- ur fylgja ekki verðlagi. Fæðingaror- lofssjóður er sveltur. En ríkisstjórn- in heldur áfram að gefa á garðann hjá þeim efnameiri og lækka á þá skatta. Þá spyr maður sig: Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og að- stæður? Það er verið að vinna gegn þrepaskiptu skattkerfi og leggja það niður í áföngum, fleiri skattþrep eru miklu sanngjarnari gagnvart þeim tekjuminni. Eflaust hefði mátt end- urskoða eitthvað prósentutöluna í því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili og einnig bilið á milli þrepa. En fækkun þrepa þýðir bara eitt; það eru lægri skattar á þá efnameiri. Ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu ríka fólksins Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum afsalað sér tekjum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auð- legðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem taka eiga gildi nú um næstu áramót í tveim- ur áföngum. En við skulum heldur ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn hækkaði matarskattinn svo um mun- aði, úr 7% í 11% og lagði þar með þungar álögur á almenning. Ýmiss konar beinn kostnaður hjá almenn- ingi er aukinn, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lág- um sköttum en íþyngja svo almenn- ingi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekju- minni. Tryggingagjaldið er lækk- að sáralítið, en lækkun þess hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa tekjum sínum sjálft og að skattar séu af hinu vonda. En ég tel að fólkið í landinu geri kröfu til jöfn- uðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og góðra fjarskipta. Til þess þarf fjár- muni. Einnig þarf fjármuni til að for- gangsraða í þágu elli- og örorkulíf- eyrisþega svo að þeim séu tryggð mannsæmandi lífskjör. Ef það á að ganga eftir verða allir að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni, sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar. Fjármunir sem hefðu nýst í brýn verkefni. Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórn- in hefur afsalað sér í tekjum frá því að hún tók við árið 2013. Þar má nefna uppbyggingu Landspítal- ans og önnur þjóðþrifamál, eins og bætt kjör elli- og örorkulífeyris- þega og innviðauppbyggingu sam- félagsins. En þessi ríkisstjórn hefur valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd. Ójöfnuður í landinu er að aukast hratt og marg- ar vísbendingar eru til þess að við séum að kynda upp í sömu atburð- arrás og olli Hruninu fyrir 8 árum og að sömu flokkarnir beri þar meg- in ábyrgð með aukinni misskiptingu og vondri efnahagsstjórn. Alltof stórir hópar eru að festast í fátækt- argildru, veruleiki sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um að nú sé skollið á blúss- andi góðæri sker í eyrun þar sem það nær bara til þeirra útvöldu en þorri landsmanna stendur í þeim sporum að berjast við það að ná endum sam- an um hver mánaðarmót. Það hefur alla tíð verið ákveðin list stjórnvalda að blekkja með tölum og svara því til að af meðaltali hafi menn það bara fjári gott. Við skulum ætíð muna það að á bak við lágar tekjur og töl- ur og línurit og alls konar mæli- kvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa miklar tekjur. Stundaglas þessarar ríkisstjórnar er að tæmast Þó tíminn þjóti framhjá alltof hratt þá er það þó bót í máli að lífdagar þess- arar ríkisstjórnar eru brátt á enda. Þetta hefur verið verklaus ríkisstjórn sem betur fer af því leyti að henni hefur þá ekki tekist að skemma meira en orðið er í velferðarkerfinu. Hún ætlaði að skattleggja kröfuhafa bank- anna um mörg hundruð milljarða en það breyttist í miklu lægra stöðug- leikaframlag á forsendum kröfuhaf- anna þar sem þeir eru nú lausir allra mála en enginn veit hvenær almenn- ingur og fyrirtækin losna úr gjald- eyrishöftum og hvernig ríkinu geng- ur að breyta stöðugleikaframlaginu í fjármuni. Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að vera að auka jöfnuð og velferð í landinu. Lands- byggðin má ekki verða einhver af- gangsstærð. Þar liggja ótal mögu- leikar ef skatttekjur fá að skila sér þangað aftur í innviðauppbyggingu. Ég vil sjá nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, nýja stjórnarskrá með auðlinda- ákvæði, rétt til að setja mál í þjóð- aratkvæðagreiðslu, umhverfisákvæði og fullveldisákvæði. Ég vil sjá jöfn tækifæri til menntunar og aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og upp- byggingu fjölbreytts atvinnulífs í sátt við umhverfið og að sjálfbærnisjón- armið séu höfð að leiðarljósi. Er þetta ekki ágætur forgangs- listi sem hægt er að framkvæma inn- an ramma ábyrgrar efnahagsstjórnar. Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna í loftslagsmálum og þeim mikla flótta- mannavanda sem blasir við þar skipt- ir okkar afstaða máli. Ég óska landsmönnum gleðilegs árs og að nýtt ár megi verða okkur öllum gæfuríkt. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Höf. er alþingismaður Vinstri grænna í Norðvestur kjördæmi. Blússandi ójöfnuður eða blússandi góðæri? Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir alþing- ismaður í NV-kjördæmi og fimm aðr- ir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra verði fal- ið að hefja undirbúning að stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi. „Undirbúningur verði haf- inn með því að kanna kosti og þörf á að stofna sérstakt embætti um- boðsmanns flóttamanna. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar með skýrslu fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings,“ segir í tillögunni. Í greinargerð með þingsályktun- inni segir að fordæmalaus fjölgun hafi að undanförnu orðið á umsókn- um um alþjóðlega vernd hér á landi, eða 85% aukning miðað við sama tíma í fyrra. „Samhliða hafa ítrekað komið upp mál þar sem hörð gagn- rýni hefur komið fram vegna máls- meðferðar þeirra flóttamanna sem leita hælis á Íslandi. Sú gagnrýni hef- ur bæði beinst að löngum afgreiðslu- tíma, aðstæðum hælisleitenda með- an þeir bíða úrlausnar um hælisum- sókn sína og loks endanlegri ákvörð- un um synjun eða samþykkt þess að þeir fái hér hæli. Ásakanir hafa kom- ið fram um að brotið sé á mannrétt- indum hælisleitenda, mannúðarsjón- armið verið sniðgengin og svo fram- vegis.“ mm Leggja til stofnun umboðsmanns flóttamann Ólína Þorvarðardóttir er meðal flutningsmanna tillögunnar. „Mikil vaxta- og sóknarfæri liggja í auknum útflutningi á ferskum há- gæða sauðfjárafurðum. Lykillinn að vaxandi útflutningi er aukið sam- starf um kynningu og vörumerkja- væðingu sauðfjárafurða með áherslu á gæði, uppruna og sérstöðu. Enn fremur liggja sóknarfæri í betri nýt- ingu sauðfjárafurða með sjálfbærni að leiðarljósi.“ Þetta eru megin nið- urstöður greiningar KOM ráðgjaf- ar á markaðstækifærum í útflutningi á íslenskum sauðfjárafurðum sem unnin var fyrir Markaðsráð kinda- kjöts. Lagt er til að Markaðsstofa sauðfjárafurða verði sett á laggirnar til að halda utan um kynningar- og markaðsstarfið. Fjöldi hagsmunaaðila kemur að útflutningi sauðfjárafurða og bygg- ist hann fyrst og fremst á sölu á frosnu lambakjöti. Á síðastliðnu ári, á tímabilinu janúar – október, voru flutt út 1.351 tonn af frosnu lamba- kjöti og 287 tonn af fersku lamba- kjöti. Meðalverðið fyrir kíló af frystu kjöti er 745 kr. en meðalverð- ið fyrir kíló af fersku lambakjöti er 1.480 kr. „Með því að flytja lamba- kjötið út ferskt og markaðsetja það og kynna á völdum mörkuðum sem hágæða ferskt íslenskt lambakjöt undir einu vörumerki er mögulegt að styrkja íslenskan landbúnað til muna og auka tekjur sauðfjárbænda. Það sama gildir um framleiðslu og útflutning á ull og gærum. Meðal- verð á kíló af útfluttri hágæða ull er 1.004 kr. en meðalverð á kílóið af útfluttri ókembdri ull er 376 kr. Það felast því mikil tækifæri í því að auka ullarframleiðslu og útflutning á íslenskri hágæðaull. Vegna auk- innar eftirspurnar eftir ferskum og náttúrulegum afurðum í heiminum er jafnframt mögulegt að fá hærra verð fyrir afurðirnar.“ Svavar Halldórsson, fram- kvæmdastjóri Landssamtaka sauð- fjárbænda, segir nú ljóst að íslensk sauðfjárrækt standi á þröskuldi ónýttra tækifæra bæði innanlands og utan. „Líkt og segir í skýrslunni þá þarf að styðja við nýtingu þeirra í sátt við samfélag og náttúru, með tilheyrandi fjölgun arðbærra starfa, styrkingu byggðar og aukinni verð- mætasköpun,“ segir Svavar. mm Mikil sóknarfæri í auknum útflutningi á ferskum sauðfjárafurðum Gæði, uppruni og sérstaða er það sem leggja þarf áherslu á til að auka megi arðbæran útflutning lambakjöts.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.