Skessuhorn


Skessuhorn - 06.07.2016, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 06.07.2016, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 6. JÚLÍ 201622 Vísnahorn „Vináttan er seinvaxinn gróður“ er haft eftir Ge- orge Washington, þeim merka manni en, eins og einhver spakur maður sagði: „Allir eiga sér tvenns konar vini; þá sem eru við höndina þegar þú þarft á þeim að halda og þá sem eru við höndina þegar þeir þurfa á þér að halda.“ Það er fráleitt að ætlast til þess að menn séu sammála um alla hluti en sjálf- sagt að ræða, vega og meta skoðanir hver ann- ars hlutdrægnislaust. Eyjólfur Jónsson leggur þetta til málanna: Um vinskap okkar vita menn, vart hann blandast táli þó við höfum aldrei enn orðið á sama máli. Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli tileinkaði séra Páli í Vatnsfirði þessa vísu: Sannra vina verðug laun veröld mælt ei getur, þeirra, er hafa reynst í raun -, - reynst þar öðrum betur. Og Ágúst Vigfússon sendi gömlum vini sín- um svohljóðandi kveðju: Þó að hárin gerist grá glöggt við báðir finnum, alltaf leynist ylur frá okkar fomu kynnum. Jón S Bergmann sigldi ekki alltaf sléttan sjó í sinni lífsbaráttu. Hvað sem um það er var hann afburðamaður sem hagyrðingur og mátti heita nær því að teljast skáld þó hann notaði fer- skeytluformið mest en einhverra hluta vegna virðast margir líta heldur niður á þann bragar- hátt. Þessi sígilda vísa er eftir Jón: Það er vandi okkar enn eins og fleiri landa, þar sem tómir meðalmenn molda frjálsan anda. Ekki er alltaf auðvelt að vera í fararbroddi og skara fram úr enda hafa slíkir menn jafnan ver- ið á milli tannanna á fólki og kemur hér önn- ur eftir Jón: Sá er hærra höfuð ber heldur en þrælum líki, hefur jafnt á hælum sér hatur og öfundsýki. Einn var sá tryggðavinur sem Jón gjarnan flýði til þegar aðrar leiðir brugðust og til hans var kveðið: Ef mér falli flónin spá fyrir svall og hroka, Bakkus varla þrýtur þá þegar allir loka. Enn kveður Jón til Bakkusar bróður: Há og björt sem himininn höll er anda mínum þar sem Bakkus býður inn bestu vínum sínum. Trúlegt er að næsta vísa sé ort í einsemd Jóns og þrengingum því ríflegan skammt fékk hann af hvoru tveggja: Gæfan hefur lagt mér lið lengi af nægtum sínum: Ég hef orðið fullan frið fyrir vinum mínum. Ekki þori ég að segja neitt ákveðið um höf- und næstu vísu en finnst þó að ég hafi séð eða heyrt hana orðaða við Jón Ásgeirsson á Þing- eyrum: Þó mín sé ævin undarleg og eigi fátt af vinum, það er varla víst að ég verði á eftir hinum. Eftir að Halldór Laxness var sæmdur Nób- elsverðlaunum fékk hann þessa kveðju frá Páli á Hjálmsstöðum: Þegar ekki er þörf á hjálp og þrýtur mælskusnilli vona ég Nóbels glóðagjálp Gljúfrasteininn fylli. Við fáum nú svosem ekki öll Nóbelsverð- laun enda virðist stundum sem eitthvert mis- ræmi sé í fjármálum hins almenna meðaljóns og svo þeirra sem hærra standa. Einhvern veg- inn finnst mér samt svolítið einkennilegt þegar fólk sem sárkvartar yfir peningaleysi hefur efni á að fljúga til Frakklands til að styðja lands- liðið okkar þó það sé vissulega alls góðs mak- legt. Einhvern tímann kvað Páll Pálsson á Kol- grímsstöðum: Þó að snarki móti mér mæðuslark og hreður best er að harka harm af sér hugarkjarki meður. Vináttan er ekki eingöngu milli manna held- ur ekkert síður milli dýra annað hvort af sömu tegund eða ekki og eins milli dýrs og manns. Eftir Gísla á Eiríksstöðum er þessi snoturlega hestavisa og segir sína sögu án stóryrða: Eftir liðið æskuvor einn ég geng á fróni. Þegar ég horfi á hestaspor hugsa ég til þín, Skjóni. Vorverkin okkar eru margbreytileg og hefur svo lengi verið. Halldór Helgason gerði þenn- an samanburð á athöfnum tveggja manna á þeim árum sem fólksflóttinn var hvað örastur úr sveitum landsins: Einn er að plægja seigan svörð sér í haginn vinna, opna fræi eldi í jörð, — ekki nægir minna. Hinn er að flýja og hraða sér heim að nýjum torgum: Huga að því, sem aðhafst er uppi í skýjaborgum. Erlendur hét maður og bjó á Holtastöðum í Langadal. Andaðist 1831. Talinn frekar að- haldssamur í peningamálum jafnvel á þeirra tíma mælikvarða. Að honum látnum kvað Guðmundur Ketilsson: Fyrr þá skoltabjóður bjó búsyn hvolft gisnaði, allt var soltið, átti hann þó alla Holtastaði. Orðið búsyn í þessu sambandi er myndað eins og nauðsyn og hlýtur að þýða búshlut- ur eða búsgagn. Trog og sáir gisna í þurrki úti á hlaði í stað þess að standa í búri full af súr- mat eins og algengast var hjá betri bændum. En fyrst farið er að minnast á eftirmæli er rétt að birta hér tvær vísur ortar eftir Bólu-Hjálmar og sú fyrri eftir austfirskan kaupamann í Kol- gröf í Skagafirði: Ekkert tálma ýtum má æðri þar hjá sólu. Nú er Hjálmar fallinn frá fyrr sem var á Bólu. Og 13 ára telpukorn á sama bæ, Málmfríður Jónsdóttir, lagði einnig til mála: Skáldin misstu sóma sinn. Sverðahristir fríði. Hels í vist gekk Hjálmar inn hlaðinn list og prýði. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Hefur jafnt á hælum sér - hatur og öfundsýki! Farið var frá Akranesi í árlega Jóns- messugöngu fimmtudagskvöldið 23. júní. Að þessu sinni var hægt að velja um tvær göngur, annars vegar á Háa- hnjúk og hins vegar að ganga um Akranes. Á vef ÍA segir að 15 manns hafi gengið á Háahnjúk undir for- ystu Jóhönnu Hallsdóttur og Ernu Haraldsdóttur. Þau Rannveig Lydia Benediktsdóttir og Guðni Hannes- son leiddu 33 göngugarpa um Akra- nes og fræddu þá um sögu og örnefni á leiðinni. Að göngu lokinni voru margir sem létu þreytuna líða úr sér í heita pottinum í Bjarnalaug. Fengu göngugarparnir gott veð- ur en að sögn Ernu var blankalogn og stillt „Það var smá þoka en það er bara dulúð yfir því,“ segir hún. Erna hefði viljað sjá fleiri í göngunni en segir að sjálfsagt hafi bara ver- ið margt annað í gangi á sama tíma. Hún vonast þó eftir því að fleiri láti sjá sig á næsta ári. arg/ Ljósm. ia.is Tvær Jónsmessugöngur á Akranesi Fólk gat einnig valið að fara um göngu innanbæjar á Akranesi og fræðast um sögu og örnefnin á leiðinni. Hressir göngugarpar að leggja af stað upp á Háahnjúk. Það hefur ekki farið hátt að í Borg- arfirði var rekinn Mjólkurskóli á árunum 1900-1918. Skólinn var settur til nýsköpunar í landbúnaði, til þess að mæta kreppu. Bændur hugðust framleiða smjör til útflutn- ings en það skorti þekkingu til þess að vinna smjörið fyrir hina kröfu- hörðu markaði. Ráðinn var ungur danskur mjólkurfræðingur, Hans Jepsen Grönfeldt, til þess að veita skólanum forstöðu. Skólinn var settur á Hvanneyri en síðan fluttur að Hvítárvöllum. Skólinn var eingöngu fyrir stúlk- ur sem margar urðu síðar forstöðu- konur rjómabúa (smjörbúa) er risu víða um land. Í Mjólkurskólan- um lærðu stúlkurnar mjólkurmeð- ferð, um fóðrun kúnna, bókhald og rekstur rjómabúa. Námið var bæði bóklegt og verklegt. Mjólkurskól- inn var ein fyrsta menntabraut á sviði matvælafræði hérlendis og ein fyrsta starfsmenntaleið íslenskra kvenna, raunar leið margra stúlkna til frama og sjálfstæðis. Mjólkur- skólinn varð því merkur þáttur í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Starf Grönfeldts og nemenda hans stórbætti mjólkurmeðferð og smjörvinnslu hérlendis. Smjör- ið varð markaðsvara á kröfuhörð- um erlendum mörkuðum. Bændur fengu peninga til frekari nýsköp- unar, svo sem til jarðabóta og verk- færakaupa. Þeir lærðu líka að vinna saman að markaðssetningu afurða sinna. Þótt Mjólkurskólinn legðist af svo og flest rjómabúin vegna tíma- bundinna erfiðleika liðu fá ár þang- að til iðnvæðing íslenskrar mjólk- urvinnslu með mjólkurbúunum hófst af fullum þunga. Það gerð- ist á sama grunni og Mjólkurskól- inn og rjómabúin höfðu starfað: Með starfsþekkingu, vöruvöndun og samvinnu bænda. Nú er að koma út bókin Kon- ur breyttu búháttum, saga Mjólk- urskólans á Hvanneyri og Hvítár- völlum eftir Bjarna Guðmunds- son á Hvanneyri. Þar er skólasagan rakin sem og þau áhrif sem skólinn hafði. Að útgáfu bókarinnar standa Bókaútgáfan Opna og Landbún- aðarsafnið. Bókin kemur formlega út á Hvanneyrarhátíðinni á laugar- daginn, 9. júlí, og verður kynnt þar. Höfundur mun árita bókina sem seld verður á sérstöku útgáfudags- verði. -fréttatilkynning/ Ljósm. í vörslu Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar. Ný bók - Mjólkurskólinn í Borgarfirði Hans Grönfeldt skólastjóri og Þóra Þórleifsdóttir kona hans með nemendum Mjólkurskólans og samstarfsfólki. Myndin mun tekin á Hvítárvöllum. Rjómabúið við Gufuá í Borgarfirði.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.