Skessuhorn - 26.10.2016, Page 4
MIÐVIKUDAGUR 26. OKTÓBER 20164
Kirkjubraut 54-56 - Akranesi - Sími: 433 5500 - www.skessuhorn.is
Skessuhorn kemur út alla miðvikudaga. Skilafrestur auglýsinga er kl. 14.00 á þriðjudögum.
Auglýsendum er bent á að panta auglýsingapláss tímanlega. Skráningarfrestur smá-
auglýsinga er til 12.00 á þriðjudögum.
Blaðið er gefið út í 3.800 eintökum og selt til áskrifenda og í lausasölu.
Áskriftarverð er 2.835 krónur með vsk. á mánuði. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða
kr. 2.457. Rafræn áskrift kostar 2.226 kr. Rafræn áskrift til elli- og örorkulífeyrisþega er 2.058 kr.
Áskrifendur blaðs fá 50% afslátt af verði rafrænnar áskriftar. Verð í lausasölu er 750 kr.
SKRIFSTOFA BLAÐSINS ER OPIN KL. 9-16 VIRKA DAGA
Útgefandi: Skessuhorn ehf. skessuhorn@skessuhorn.is
Ritstjórn:
Magnús Magnússon, ritstjóri s. 894 8998 magnus@skessuhorn.is
Guðný Ruth Þorfinnsdóttir gudny@skessuhorn.is
Kristján Gauti Karlsson kgauti@skessuhorn.is
Auglýsingar og dreifing:
Lísbet Sigurðardóttir lisbet@skessuhorn.is
Umbrot og hönnun:
Tinna Ósk Grímarsdóttir tinna@skessuhorn.is
Þórarinn Ingi Tómasson toti@skessuhorn.is
Bókhald og innheimta:
Guðbjörg Ólafsdóttir bokhald@skessuhorn.is
Prentun: Landsprent ehf.
Af sómölskum uppalanda
Á laugardaginn göngum við til kosninga. Niðurstaðan verður annað hvort
sigur eða tap flokkanna, en í öllum tilfellum sigur lýðræðisins. Þessi réttur
okkar að fá á fjögurra ára fresti að ráða fólk til að setja lögin í landinu og
fara með framkvæmdavaldið er alls ekki sjálfgefinn, því er nú öðru nær. Í
síðustu viku dvaldi ég í nokkra daga utan landsteinanna, í sjálfum Ameríku-
hreppi. Fór í svona ríflega helgarferð sem þar af leiðandi var að stórum
hluta varið í sæti á einni af þotum Icelandair, enda var ferðast í fjögur þús-
und kílómetra hvora leið.
Í þessari ferð fórum við einn daginn í borgarrölt og tókum leigubíl nið-
ur í miðbæ Minneapolis borgar, en í henni búa nákvæmlega tíu sinnum
fleiri en á öllu Íslandi. Leigubílstjórinn var okkur sérlega eftirminnileg-
ur. Hann er af sómölskum ættum, hraktist frá heimalandi sínu snemma
á tíunda áratugnum vegna blóðugs borgarastríðs sem þar geisaði og fjöl-
skylda hans dreifðist af þeim sökum vítt og breitt um Evrópu og Ameríku.
Hann var málgefinn mjög þessi maður og þegar hann sá að með okkur
hjónum í för var fjórtán ára dóttir okkar ákvað hann upp á eigin spýtur
að verja bílferðinni í langa og mikla eldskírnarræðu. Hann beindi orðum
sínum til unglingsins í ferðinni. Alltaf skyldi hlusta á það sem foreldrarnir
hefðu að segja því þeir vildu börnum sínum vel. Sérstaklega væru mæð-
urnar það ankeri í lífi hvers barns sem sjaldan væri að fullu metið að verð-
leikum. Ungt fólk í dag þyrfti á því að halda að heyra hvernig foreldrar
þeirra hefðu haft það í æsku, foreldrar þeirra og koll af kolli. Börn þessa
leigubílstjóra hafa alist upp í Ameríku. Sjálfur sagðist hann vera strangur
uppalandi sem vildi börnum sínum ávalt það besta. Hann neitaði þeim
hiklaust um óþarfa, eða í það minnsta þyrftu þau alltaf að gera sér fulla
grein fyrir að óþarfa prjál kæmi ekki af sjálfu sér. Krakkar nú til dags væru
margir hverjir að alast upp við að horfa í gaupnir sér á síma eða tölvur
og væru að fara á mis við ýmis uppeldisleg atriði sem næstu kynslóðir á
undan hefðu þurft að tileinka sér. Hann sagðist því hafa ákveðið að þegar
börn hans næðu unglingsaldri færi hann með þau til Sómalíu í uppeldis-
og kennsluferð. Þar dvaldi fjölskyldan í þrjá mánuði, fyrst og fremst til
að börnin fengju að kynnast þeirri sáru fátækt og hörðu lífsbaráttu sem
foreldrar þeirra og forfeður þurftu að há til þess einfaldlega að halda lífi í
stríðshrjáðu landi. Maðurinn sagði að eftir þessa þriggja mánaða ferð hafi
börn hans verið miklu móttækilegri fyrir tilsögn og ekki síst væru þau
þakklátari en þau voru áður.
Það var sérlega athyglisvert að hlusta á þessa óumbeðnu einræðu þessa
sómalska leigubílstjóra á fallegum haustdegi í einu af miðríkjum Banda-
ríkjanna. Þarna var hann að deila með okkur reynslu sinni. Hann hefði
rétt eins getað þagað allan tímann eins og leigubílstjórar gera jú yfirleitt.
Þá væri hann líka fyrir okkur með öllu gleymdur.
En boðskapur hans í þessari bílferð sat í mér. Mér fannst þetta virki-
lega flott hjá honum að deila með okkur reynslu sinni enda sagði hann
skemmtilega frá. Mér var hugsað heim og til þess sem er að gerast í að-
draganda kosninga til Alþingis. Eigum við sem kjósendur ekki einmitt að
taka boðskap sómalska föðursins til okkar? Eigum við að gera þær kröfur
til samfélagsins að það veiti okkur allt - án þess jafnvel við sjálf færum
fórnir á móti? Hvort skattarnir okkar verða lækkaðir eða hækkaðir um
nokkur prósentustig skiptir ekki höfuðmáli, svo lengi sem almenns rétt-
lætis sé gætt og enginn líði skort. Við hljótum því að kjósa þá sem við
treystum best til að byggja upp samfélag þar sem allir geta lifað í sátt og
án fordóma í garð hvers annars. Ég ætla með atkvæði mínu á laugardag-
inn að leggja mitt af mörkum og kjósa það framboð sem setur manngildi
og réttlæti í forgang. Ekki síst þá sem hljóma eins og þeir beri virðingu
fyrir eldra fólki og því sem það hefur gert fyrir okkur.
Magnús Magnússon.
Leiðari
Í fyrstu viku október sendi Bjarni
Kristinn Þorsteinsson, slökkvi-
liðsstjóri Borgarbyggðar, erindi til
Byggðarráðs Borgarbyggðar varð-
andi ástand tækjabúnaðar slökkvi-
liðsins í Laugargerði. Á milli Borg-
arbyggðar og Eyja- og Miklaholts-
hrepps ríkir þjónustusamningur sem
snýr að því að Borgarbyggð þjónusti
Eyja- og Miklaholtshrepp varðandi
brunavarnir og þjónustu slökkvi-
liðs ef eldur kemur upp í sveitarfé-
laginu.
Bjarni segir í erindinu að hann
hafi í gegnum tíðina, í starfi sínu
sem slökkviliðsstjóri, reynt að vekja
athygli sveitarstjórnarmanna „á því
ófremdarástandi sem er og hefur
verið á tækjakosti slökkviliðsins í
Laugargerði og bent á leiðir til úr-
bóta í þeim efnum,“ eins og hann
segir í erindinu. Bjarni segist hins
vegar hafa talað fyrir daufum eyrum.
„Eins og málum er háttað í dag er
ekki um slökkvilið að ræða í Laug-
argerði þar sem tækjakostur sá sem
þar er á vegum Slökkviliðs Borgar-
byggðar er ekki útkallshæfur,“ segir
í erindinu.
Segir tvær leiðir í boði
Bjarni telur að hægt sé að fara tvær
leiðir í þessu máli. Annars vegar sé
hægt að koma upp góðum bíl sem
gæti flutt sjö til átta þúsund lítra af
vatni ásamt nauðsynlegum bún-
aði. Hann segir þetta vera forsendu
þess að Borgarbyggð geti staðið við
sinn hluta þjónustusamningsins en
sá bíll sem nú er í notkun er Chevr-
olet C-20 jeppi sem er á milli 35 og
40 ára gamall. Segir Bjarni þann bíl
vera lélegan og ekki treystandi til
stórræða auk þess sem hann sé gjarn
á að bila. Hann segir að bíllinn hafi
aðeins takmarkað burð undir bún-
að og ekki sé vatn til staðar í honum
til fyrstu aðgerða, sem sé forsenda
þess að koma í veg fyrir stóra elds-
voða. Hinn möguleikann í stöðunni
fyrir Borgarbyggð telur Bjarni vera
að „sveitarstjórnarmenn taki upp-
lýsta ákvörðun og þá í samráði við
hreppsnefnd Eyja- og Miklaholts-
hrepps um að leggja slökkvistöðina í
Laugargerði niður og vera ekki með
neinn búnað þar en þess í stað að
þjónustan komi frá Borgarnesi um
langan veg,“ segir Bjarni í erindinu
og bætir því að lokum við að ekki sé
í boði lengur að gera ekkert í mál-
unum.
bþb
Slökkviliðsstjóri segir tækjakost í
Laugargerði ekki útkallshæfan
Slökkviliðsmenn í Borgarbyggð að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Fimmtudaginn 20. október komu
ferðaþjónustuaðilar í Dölum sam-
an á vinnufundi í Dalakoti í Búð-
ardal. Sigríður Ó. Kristjánsdótt-
ir verkefnisstjóri á Nýsköpunar-
miðstöð Íslands og Bjarnheiður Jó-
hannsdóttir ferðamálafulltrúi Dala-
byggðar stýrðu fundi, þar sem rætt
var um upplifun ferðamanna í Döl-
um, vöruþróun í ferðaþjónustu
og hagnýtari mál á borð við inn-
viði og samræmingu í markaðs-
setningu. Góð mæting var á fund-
inn og margt gagnlegt kom fram í
vinnu ferðaþjónustuaðila, sem nýt-
ist við stefnumótun og í stuðningi
við greinina í framhaldinu.
sm
Vinnufundur um ferðamál í Dölum
Hæstiréttur Íslands þyngdi á
fimmtudag dóm yfir manni sem
dæmdur var í Héraðsdómi Vestur-
lands í febrúar fyrir nauðgun. Er
honum gert að sæta fangelsi í tvö og
hálft ár, en héraðsdómur hafði áður
dæmd hann til tveggja ára fangels-
isvistar.
Í kjölfar niðurstöðu héraðs-
dóms skaut ríkissaksóknari málinu
til Hæstaréttar 10. febrúar í sam-
ræmi við yfirlýsingu hins ákærða
um áfrýjun. Hæstiréttur féllst ekki
á með ákærða að annmarkar væru
á sönnunarmati héraðsdóms sem
gætu valdið því að vísa bæri málinu
til nýrrar meðferðar í héraði. Þvert
á móti staðfesti Hæstiréttur í úr-
skurði sínum það mat héraðsdóms
að framburður brotaþola hafi verið
trúverðulegur. Hann hafi verið skýr
og stöðugur í öllum höfuðatriðum
og í samræmi við önnur gögn máls-
ins. Þá fær framburður hennar enn
fremur vætti fimm vitna um ástand
hennar eftir atburðinn, sem og í
vottorði og framburði sálfræðinga
um líðan hennar.
Var maðurinn því sakfelldur af
Hæstarétti fyrir nauðgun með því
að hafa haft samræði og önnur kyn-
ferðismök við þolanda sem gat ekki
spornað við verknaðinum sökum
ölvunar og svefndrunga.
Manninum var gert að sæta
tveggja og hálfs árs fangelsisvist-
ar auk þess að greiða brotaþola 1,5
milljónir í miskabætur með vöxtum.
Honum var einnig gert að greiða
útlagðan sakarkostnað fyrir héraðs-
dómi og fyrir Hæstarétti, verjanda-
laun og laun réttargæslumanns.
kgk
Hæstiréttur þyngdi dóm í nauðgunarmáli